31.01.1984
Sameinað þing: 41. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2500 í B-deild Alþingistíðinda. (2180)

162. mál, vegáætlun 1983--1986

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil taka undir sérstaklega og fagna orðum hæstv. samgrh. um sérstakar lántökur til ákveðinna brýnna verkefna í vegagerð á Ístandi. Það er vissulega ánægjulegt ef hæstv. ráðh. ætlar að beita sér fyrir þeim sjónarmiðum innan ríkisstj. Ég er alveg sammála hæstv. ráðh. og öðrum ræðumönnum, sem hér hafa tjáð sig, um að fáar fjárfestingar séu jafnarðbærar í raun og fjárfestingar í uppbyggingu vegakerfisins og til varanlegrar vegagerðar og reyndar má segja það um samgöngumálin almennt.

Ég tel að brýnt sé að við höldum okkur við þau mörk sem við höfum dregið dm ákveðið hlutfall þjóðartekna til vegamála. Það skiptir í sjálfu sér ekki öllu máli hvort tímar eru erfiðir eða góðir í því sambandi. Hlutfallið stendur fyrir sínu. Menn geta ekki skotið sér á bak við hvernig árar. Vegamálin eru jafngildur þáttur í þjóðarbúskapnum hvort sem er kalt eða hlýtt í ári. Þess vegna held ég að standa beri fast á því að við það verði staðið að framkvæmdir í vegamálum fái til sín það hlutfall þjóðartekna sem rætt var um í vegáætlun þegar hún lá hér fyrir hv. Alþingi í fyrra.

Ég vil taka undir með hv. 3. þm. Norðurl. e. um Óvegaáætlunina. Það hefur verið og er minn skilningur að sú áætlun sé þannig sérmerkt, að náist fram sparnaður í einu verki komi hann öðrum sem aftar eru á listanum til góða og að sama skapi verði áætluninni hraðað ef verkefni komast þar fyrr til nota en áætlað hefur verið. Það er mikilvægt að þetta liggi fyrir. Ég hefði haft gaman af að heyra hvort hæstv. samgrh. er mér ekki sammála um þetta mat á þeirri áætlun, þó svo að hún sé inni á hinu almenna vegafé.

Í sambandi við Ó-vegina vil ég undirstrika það, og reyndar má segja svo um fleiri leiðir ef út í það er farið, að um þá gegnir ákveðinni sérstöðu vegna þeirrar slysahættu sem getur hlotist af umferð um þá vegi. Við Íslendingar verjum miklu fé í slysavarnir bæði á sjó og landi. Það má segja að sérstakt átak í þeim efnum að laga hættulegustu vegi landsins sé því í senn arðsamar og þarfar framkvæmdir og slysavarnir.

Ég ætla ekki að svo stöddu að tjá mig frekar um einstaka liði þessarar áætlunar. Reynslan verður að skera úr um hvernig hæstv. ríkisstj. gengur að standa við fyrirheit sín í vegamálum. Ég vona hið besta og er reyndar nokkuð bjartsýnn á það eftir nokkuð svo skorinorða ræðu hæstv. samgrh. áðan.

Það væri fróðlegt að fara út í þær umr. sem hér voru að nokkru hafnar um útboð í vegagerð og mögulegar afleiðingar þeirrar stefnu. Ég vil að nokkru leyti taka undir þau varnaðarorð sem hér hafa verið sögð um að gera það ekki að svo algerri og fortakslausri reglu að það verði til þess að tæki til slíkra starfa afleggist og flytjist burt úr byggðarlögum hringinn í kringum landið. Það er alveg vitað að framkvæmdir í vegamálum hafa hjálpað heimamönnum við að halda og gera út slík tæki og það er nauðsynlegt engu að síður fyrir byggðarlögin að eiga þau, að hversu miklu leyti sem þau koma inn í almennar framkvæmdir í vegamálum. Hættan sem blasir við er auðvitað sú, að menn treysti sér þá ekki til að eiga ný og fullkomin tæki með þeim afköstum sem er boðið upp á í dag og verði þar af leiðandi ekki samkeppnisfærir þó svo að þeir hafi eitthvað betri aðstöðu hvað varðar búsetu á viðkomandi stöðum.

Sömuleiðis væri gaman að spjalla ofurlítið sem gamall vegavinnumaður um aðbúnað vegagerðarmanna. Hann hefur farið batnandi, eins og allir vita. Ég held að menn sjái þar kannske ekki trén fyrir skóginum. Ef það er orðinn einhver lúxus á Íslandi að hafa aðgang að heitu og köldu vatni á sínum vinnustað, geta farið í bað o.s.frv., hafa þar raflýsingu og annað slíkt, þá mega menn hafa þá skoðun fyrir mér. En ég held að það sé ekki og það eigi jafnt við um vegagerðarmenn og aðra. Sjálfsagt má finna dæmi þess að úthaldskostnaður sé jafnmikill og launagreiðslur í einstökum tilfellum, en menn sem til þekkja vita auðvitað að flutningar á slíku úthaldi eru stór liður og sjálf búseta fólksins á vinnustað er í sjálfu sér ekkert dýrari en hvar annars staðar að slepptum þessum liðum. Ég held að þau störf sem þar eru unnin séu það mikilvæg, eins og reyndar öll verk sem vel eru unnin, að það eigi ekki að sjá eftir því að búa sæmilega að því fólki sem þar starfar og í rifrildi um stóla eða bekki í því sambandi ætla ég ekki að blanda mér.