01.02.1984
Efri deild: 46. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2505 í B-deild Alþingistíðinda. (2184)

Þingsköp

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Það að hér skuli hafa verið haldinn mjög stuttur fundur s.l. mánudag og að nú skuli vera þrjú mál á dagskrá, sem öll eru tekin út af dagskrá, sýnir hve allt skipulag starfsins hér í þinginu er gjörsamlega í molum. Þetta eru vinnubrögð sem eru engan veginn hinu háa Alþingi til sóma.

Ég man ekki betur en að höfundalög hefðu líka verið hér á dagskrá s.l. mánudag og ekki tekin þá til umr. Þau eru hér enn á dagskrá og enn eru þau tekin út af dagskrá. Það hljóta að liggja einhver mjög gild og veigamikil rök fyrir því að svona skuli vera staðið að málum hér. Það er ekki Alþingi til sóma að svona vinnubrögð skuli vera hér viðhöfð. Ég held að það þurfi verulegrar endurskipulagningar við í öllum störfum Alþingis, því að svo koma dagar sem menn sjá ekki út úr fyrir önnum, en aðra daga er staðið að með þeim hætti sem hér hefur nú verið gert og er sannarlega ekki til fyrirmyndar.