25.10.1983
Sameinað þing: 8. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í B-deild Alþingistíðinda. (219)

4. mál, framkvæmd byggðastefnu

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það vill löngum verða svo, að ákveðin slagorð festast, menn nota þau aftur og aftur og hjá sumum verða þau nánast að trúaratriði. Þannig hefur það t.d. gerst, að hugtakið kommissar hefur orðið að trúaratriði hjá stórum hóp Íslendinga og kommissar er eitthvert það alversta sem hægt er að hugsa sér. Ég segi ekki að morðingjar séu ekki skráðir enn á Íslandi verri menn, en það er þá ef þeir hafa notað ósiðsamlegar aðferðir við verknaðinn.

Spurningin hlýtur að vera sú: Hvað hafa þessir menn brotið af sér og í hverju felst sá stóri glæpur? Jú, hann liggur fyrst og fremst í því, að þarna er ekki um æviráðna embættismenn að ræða. Þarna er ekki um embættismenn að ræða sem eru æviráðnir. Þá hlýtur sú spurning að vakna: Er það þá lausn hjá okkur að við notumst fyrst og fremst við æviráðna embættismenn í embættismannakerfinu?

Ég hygg að hver einasti maður sem tekur sig til og fær gömul fjárlög, t.d. fjárlögin í fyrra, og fær svo ríkisreikninginn fyrir sama ár átti sig á þeirri merkilegu staðreynd að tölunum ber ekki saman. Það er þó nokkuð annað sem stendur í fjárlögunum en það sem kemur fram í ríkisreikningnum. Og hvers vegna? Vegna þess að það æviráðna embættismannakerfi sem starfar í þessu landi hefur talið það rétt sinn að ráðstafa fjármagni eins og því sýnist án tillits til fjárlaga. Hins vegar hafa þeir litið svo á, að til þess að þeir yrðu nú ekki fyrir reiði lýðsins væri skynsamlegt að hafa þm. sem nokkurs konar stuðpúða á milli almennings í landinu og embættismannakerfisins. Og hver einasta vinstri ríkisstjórn í þessu landi sem hefur verið stofnuð til þessa hefur rekið sig á æviráðið embættismannakerfi, sem hefur viljað hana feiga frá fyrstu dögum.

Við höfum yfir okkur t.d. lög sem hafa veitt Seðlabanka Íslands völd, æviráðnum embættismönnum: Túlkun þeirra á þeim lögum hefur fyrst og fremst verið á þann veg, að það sem ekki er bannað í lögunum sé heimilt. Það er hvergi bannað í þeim lögum að Seðlabankinn megi eiga bókasafn. Þess vegna er litið svo á, að heimilt sé að hann eigi dýrt bókasafn. Það er hvergi bannað að hann eigi sumarbústaði. Þess vegna er lítið á það sem heimilt að Seðlabankinn eigi sumarbústaði. Þannig starfar hið æviráðna embættismannakerfi.

Svo vorum við með þrjá komissara, menn sem ekki voru æviráðnir, menn sem hægt var að setja af við stjórnarskipti, en það er frá þeim sem stafar allt hið illa að dómi manna sem hér hafa talað og fengið ofsatrú á hinu æviráðna embættismannakerfi þessa lands. Ég segi nú bara: Mikil er þeirra trú. Hvor hópurinn skyldi nú hafa markað dýpri spor í þróun mála hér á landi, komissararnir eða hið æviráðna embættismannakerfi?

Það dynur á okkur þessa dagana sú kenning að sjávarútvegur og landbúnaður séu atvinnuvegir sem beri ábyrgðina á því að ekki sé hægt að fjölga ótakmarkað á þessum áratug í heilbrigðisstéttunum, í bankakerfinu og í þjónustugreinum, það sé búið að fjárfesta of mikið í sjávarútvegi og landbúnaði. Þessi kenning dynur núna daga og nætur á mönnum. Hæstv. fjmrh. vakti athygli á því, að ástæðan fyrir því að það væri illa komið fyrir sjávarútveginum væri að það væri búið að taka of mikið fjármagn frá honum og flytja til annarra verkefna. Seðlabankastjóri lýsti því aftur á móti, að það væri verið að byggja Seðlabanka fyrir eigið fé bankans, peninga sem ekki voru teknir frá neinum. Þeir höfðu nánast orðið til í Seðlabankanum.

Ég hallast að því, að menn mættu hugleiða af dálítið meiri alvöru en gert hefur verið hvort þeir telji að hægt sé að gera þær kröfur til íslenskrar sjómannastéttar að hún sæki sjóinn á jafnlélegum skipum og hún sótti fyrir kannske 40 árum. Er verið að gera kröfu um að vinnuaðstaða sjómanna standi í stað á sama tíma og vinnuaðstaða allra annarra þegna þjóðfélagsins batnar? Hver er krafan hjá þeim hóp sem svona talar?

Mér er það ljóst, þegar ég les þessa till. til þál., að hér er verið að tala um byggðastefnu. Og hv. 5. þm. Reykv. stendur hér upp og talar um hvað flutningarnir færi okkur mikla farsæld og hann sé sammála því, sem hér sé verið að leggja til, í öllum aðalatriðum. Hann metur það svo, að hér sé verið að bera á borð fyrir þm. góða till. um fólksflutninga í þessu landi, stuðning við þá og ágæti þess. En ég get ekki á mér setið að nefna hér dæmi sem ég tel að stuðli að óeðlilegri byggðaþróun í þessu landi. Ég ætla að taka dæmið úr höfuðborg Íslands, Bæjarútgerð Reykjavíkur.

Við höfum mátt horfa á það, landsbyggðarmenn, alllengi, að þegar tap hefur orðið á Bæjarútgerð Reykjavíkur eru peningar til að borga tapið sóttir í borgarsjóð. Sem sagt: útsvör embættismanna, sem landsbyggðin er að greiða laun með sköttum sínum, eru notuð til að halda hér uppi óarðbærri fjárfestingu til að rústa atvinnuvegina úti á landi. Er heiðarlegt að standa þannig að málum? Er það það sem 5. þm. Reykv. telur arðsama fjárfestingu? Hvað með kenningarnar um að það eigi að stuðla að því að alls staðar sé fjárfest þar sem arðbærast er? Er það stefnan að þvinga eigi útgerðarmenn utan af landi til að kaupa skip af innlendum skipasmíðastöðvum þéttbýlisins á uppsprengdu verði? Er það stefnan sem stuðlar að arðbærri fjárfestingu?

Ég hef saknað þess, þegar hæstv. fjmrh. hefur talað um sölu ríkisfyrirtækja, að hann sem forseti borgarstjórnar Reykjavíkur talar ekki um að selja Bæjarútgerðina. (Fjmrh.: Ég hef oft gert það. Það hefur oft komið til umr.) Það upplýsist hér að hann hefur oft komið með till. um að selja fyrirtækið, en talað fyrir daufum eyrum trúlega.

Ég held að þó að við reisum hér verslunarhallir og þó að við fjölgum bönkunum þannig að það fjölgi um einn bankastarfsmann á ári, hv. 5. þm. Reykv., bætum við ekkert hag þessarar þjóðar með því.

Það vekur aftur á móti undrun, þó ekki sé meira sagt, að menn telja það nú brýnast að gera lokaaðför að grunnatvinnuvegum landsins. En kannske segir það sína sögu um gæfuleysi þeirra manna sem tala hér um að í 20 ár hafi þeir haft rétt fyrir sér, en þjóðin ekki viljað hlusta. Kannske er það talandi dæmi um þeirra gæfuleysi, að meðan foringjarnir komu úr verkalýðsstétt byggðu þeir upp. Þeir byggðu upp sinn flokk og þeir byggðu upp eignir síns flokks og þeir voru menn til að gefa út blað. Svo komu hagfræðingar og seinast rekstrarhagfræðingar, sem mundu nú hafa hentað til að stjórna slíkum hlutum, og hvernig hefur gengið? Guð hjálpi þessari þjóð, ef þeir eiga að taka við rekstrarstjórninni á þjóðarbúi Íslendinga.