01.02.1984
Neðri deild: 42. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2509 í B-deild Alþingistíðinda. (2192)

140. mál, lántaka vegna flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli

Guðmundur Einarsson:

Virðulegi forseti. Það er vissulega löngu orðin þörf á að laga aðstöðu þá sem bæði starfsfólki og farþegum er boðið upp á á Keflavíkurflugvelli. Það er sama í hvert hornið er litið, hvort litið er á afgreiðslu flugvélanna og aðstöðu þess fólks sem við það starfar eða afgreiðslu farþeganna og þess fólks sem þar kemur nálægt, að það er brýn þörf úrbóta á öllum þessum sviðum og þar hefur allt of lengi verið beðið með framkvæmdir.

En þó að þörfin á úrbótum sé hins vegar brýn verða menn náttúrlega að taka einhverja skynsamlega póla í hæðina. Af þeim takmörkuðu gögnum sem ég hef séð um fyrirhugaða flugstöðvarbyggingu sýnist mér hún í fyrsta lagi allt of stór. Ég hræðist það fordæmi, sem maður þekkir víða að að þegar fólk hefur lengi búið þröngt og illa ætlar það sér gjarnan um of og flytur í óþarflega stórt og óþarflega dýrt. Ég hef ekki séð neina fullnægjandi réttlætingu þess að svo stórt hús þurfi sem ætlað er þarna fyrir sunnan.

Í öðru lagi vildi ég gera þá athugasemd, og það munum við væntanlega kanna nánar í nefnd að kostnaður á rúmmálseiningu í þessu húsi er aldeilis ótrúlega hár jafnvel þótt miðað sé við byggingar sem við getum sagt að að einhverju leyti séu sambærilegar. Við höfum að vísu enga algerlega sambærilega byggingu hér á landi en ef við tökum byggingar sem eru tæknilegs eðlis eins og í sambandi við heilbrigðisþjónustu og þess háttar sýnist mér af þeim takmörkuðu gögnum sem ég hef haft aðgang að þessi kostnaður í Keflavík vera alveg með eindæmum.

Ég tek undir það sem hefur komið hérna fram um forgangsröðun verkefna þessarar ríkisstj. Á sama tíma og það er á ýmsum sviðum brugðið við bæði of seint og of lítið held ég að þeim gífurlega miklu fjármunum sem á að verja þarna væri miklu betri staður fundinn annars staðar. Þá gætu menn haft hliðsjón af þeirri umræðu sem fer fram þessa dagana um þau bágu kjör sem fjöldi fólks í þessu landi þarf við að búa.

Ég treysti því að þau atriði sem snúa að stærð og kostnaði þessa mannvirkis verði tekin fyrir í hv. fjh.- og viðskn. þegar hún fær málið til umfjöllunar og læt bíða þangað til að segja meira.