01.02.1984
Neðri deild: 42. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2511 í B-deild Alþingistíðinda. (2194)

140. mál, lántaka vegna flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Virðulegi forseti. Hv. síðasti ræðumaður lýsti eftir skoðun Framsfl. á byggingu flugstöðvarinnar. Ég hygg að hv. þm. ætti að vera sú skoðun vel ljós því að í þeirri ríkisstj. sem við sátum saman í flutti fyrrv. hæstv. utanrrh., Ólafur Jóhannesson, hvað eftir annað tillögur um byggingu þessarar sömu flugstöðvar. Áður en hann flutti þær tillögur voru þær ræddar í þingflokki framsóknarmanna. Hann flutti tillögurnar með samþykki þingflokks framsóknarmanna. Á þessu hefur ekki orðið nein breyting.

Ég get hins vegar lýst þeirri skoðun minni að ég hef talið þessa flugstöð vera ansi stóra og hef kynnt mér það hvort ekki mætti byggja smærri flugstöð. Vitanlega má byggja smærri flugstöð. En skv. þeim upplýsingum sem ég fékk þótti mér ljóst að jafnvel miklu smærri flugstöð, án fjárhagsþátttöku frá Bandaríkjunum, yrði okkur dýrari en sú flugstöð sem hér um ræðir, því að það eru ýmsar lágmarkskröfur sem verður að gera og ekki verða umflúnar og eru margar mjög kostnaðarsamar. Ég nefni t.d. allar leiðslur, öll plön og allt annað sem í kringum þetta er.

Ég hef jafnframt lýst þeirri persónulegu skoðun minni að mér sýnist að Bandaríkjamenn ættu að greiða allan kostnað af þessu mannvirki því að þetta er liður í þeirri mikilvægu ákvörðun að aðskilja innlent þjóðlíf eins og hægt er frá hernum á Keflavíkurflugvelli. Ég tel að þeir eigi að bera kostnaðinn af því.

Þetta hefur ekkert breyst. Þingflokkur framsóknarmanna ræddi málið ítarlega áður en fyrrv. utanrrh. flutti málið inn í fyrrv. ríkisstj., eins og ég sagði, og sú afstaða hefur ekki breyst.