01.02.1984
Neðri deild: 42. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2513 í B-deild Alþingistíðinda. (2197)

140. mál, lántaka vegna flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli

Steingrímur J. Sigfússon:

Virðulegi forseti. Það var ánægjulegt að heyra að hæstv. forsrh. hefur áttað sig á því að þessi flugstöðvarbygging sé ansi stór. Það er auðvitað að vonum, nú er lítið og sparneytið í tísku. Það er mín skoðun að við eigum að byggja litla og sparneytna flugstöð, ekki ansi stóra og eyðslusama.

Fróðlegt væri út af fyrir sig að fara nánar í það sem hv. þm. Guðmundur Einarsson sagði um kostnað per rúmmetra í þessu mannvirki og skoða svolítið nýtinguna á rúmmetra þar. Þeir sem flækst hafa til útlanda og lent í þeirri ógæfu að leggjast í ferðalög, eins og Nóbelsskáldið sem hér er vitnað mikið til orðar það, vita að þessi flugstöðvarbygging fyllist af mannskap tvisvar á sólarhring í eina til tvær klst. og stendur þess á milli auð og tóm. Það er ekki merkileg nýting á slíku stórhýsi.

Ég bendi hæstv. forsrh. á að „ansi stóra“ flugstöð er hægt að byggja smátt og smátt ef hún er þannig hönnuð að hún bjóði upp á það. En þessi kassi á tveimur hæðum, að mestu leyti úr gleri og járnbentri margra metra þykkri steinsteypu þarf nánast að steypast upp og byggjast og gerast fokheldur allur í einu lagi og býður ekki upp á neina hagræðingu og neinn sparnað í því efni.

Það mætti benda þeim framsóknarmönnum og öðrum hv. þm. hér á að ódýrasta og einfaldasta lausnin við að aðskilja herinn frá öðru þjóðlífi á Íslandi væri að láta þann hinn sama her fara. Ég hélt í eina tíð að það væri stefna Framsfl. Svo mun ekki vera lengur.

Ég vil benda hv. skrifara eða ritara, Ólafi þ. Þórðarsyni, á að í sjálfu sér er enginn lífsháski á ferðum þó að leki svolítið í þessum kumbalda þarna suður í Keflavík. Morgunblaðið segir þannig frá því tvisvar á dag — ef það kæmi svo oft út — hvað slökkviliðið á Keflavíkurflugvelli sé gott og hvað allur öryggisbúnaður þar sé til fyrirmyndar. Svo ég segi nú bara: Það má alveg leka ofan á farþega á Keflavíkurflugvelli fyrir mér ef það getur komið í veg fyrir að menn farist á öðrum flugvöllum á landinu.

Nú fyrir tveim eða þrem dögum síðan fór flugvél endanna á milli út í ruðning á flugvellinum á Ólafsfirði. Þar hafa staðið yfir í einhver ár framkvæmdir af miklum vanefnum við að reyna að lengja þá flugbraut en hefur þó ekki tekist að koma því í notkun enn þá. Hefði það hins vegar verið búið og gert hefði mátt koma þarna í veg fyrir tjón og fólki hefði ekki verið stofnað í lífsháska. Þess vegna bendi ég hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni sem hér sagði skemmtilega reynslusögu á að það mun vera víðar en á Ólafsfirði sem flugvellir eru hættulegir og öryggi manna er stofnað í voða með því að binda fjárveitingar okkar um ókomin ár í þetta mannvirki suður á Keflavíkurflugvelli sem í raun og veru tryggir ekki mannslíf á sama tíma og langt er í land um að öryggiskröfum sé fullnægt á flestöllum flugvöllum landsins.

Að síðustu vil ég segja við þennan sama hv. ritara þd. að það eru dýr björgunarlaun að selja fósturjörð sína fyrir líftóruna og mín er ekki þess virði — og hafðu það.