01.02.1984
Neðri deild: 42. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2517 í B-deild Alþingistíðinda. (2200)

140. mál, lántaka vegna flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Fyrir nokkrum vikum greindi hæstv. fjmrh. frá því að hann mundi segja af sér sem slíkur ef skuldahlutfall þjóðarinnar út á við færi yfir 60% af þjóðarframleiðslu. Nú er hann hér að mæla fyrir frv. sem gerir ráð fyrir 100 millj. kr. erlendri lántöku í flugstöðvargímald suður á Keflavíkurflugvelli og það urðu reyndar 600 millj. kr. alls sem hann ætlar að taka að láni erlendis í þessu sambandi. Og nú vil ég spyrja hæstv. fjmrh.: Hvenær má vænta þess að skuldahlutfallið nái því marki að hann segi af sér, eins og hann hefur nýlega lofað þjóðinni? Mér sýnist að það hljóti að koma að því ef hann heldur áfram á þeirri braut sem hann leggur hér til. Ég vildi fara fram á það við hæstv. ráðh. að hann gerði þingheimi nú grein fyrir því: Hvað er það mikið af þjóðarframleiðslu sem Íslendingar skulda í dag? Er ekki ljóst að það er um eða rétt yfir 60%? Og ef svo er, hvenær mun þá hæstv. fjmrh. segja af sér störfum og standa þannig við orð sín?

Í annan stað ætlaði ég að víkja aðeins að því, að það er mjög sérkennilegt hvernig þessi ríkisstj., sem yfirleitt hefur mjög á vörunum nauðsyn ráðdeildar og sparnaðar og aðhaldssemi í erlendri skuldasöfnun, hagar sér þegar kemur að þessari flugstöð. Þá er allt galopið. Þá má taka lán út og suður og það má ræða mál og afgreiða þau frá annarri hv. þd. án þess að fyrir liggi sundurliðaðar kostnaðaráætlanir um það mannvirki sem verið er að ræða um, eins og hv. 5. þm. Austurl. gat um áðan.

Ég fullyrði að þessi vinnubrögð hæstv. fjmrh. eru lögbrot. Þau brjóta í bága við lögin um skipan opinberra framkvæmda og lög um efnahagsmál o.fl. nr. 13 frá 1979, þar sem kveðið er skýrt á um að öllum svona frv. eigi að fylgja sundurliðaðar kostnaðaráætlanir. Ég skora á hæstv. fjmrh. að lesa þessi lög. Það er alveg afdráttarlaust, sem þar kemur fram, að hann má ekki ganga frá stjfrv. öðruvísi en að þeim fylgi kostnaðaráætlanir.

Auðvitað getur Alþingi breytt þessum lögum og auðvitað getur fjmrh. beitt sér fyrir því að breyta þessum lögum þannig að þetta verði framvegis með þeim hætti að fjmrh. þurfi ekki að taka neitt tillit til kostnaðar þegar hann sullast hér í gegnum þingið með hin ýmsu mát. En þetta stendur nú einu sinni í lögum nr. 13 1979, um efnahagsmál o.fl., sem kölluð eru Ólafslög. Og ég spyr hæstv. fjmrh.: Vill hann ekki hlíta ákvæðum Ólafslaga í þessu efni og leggja þessar sundurliðuðu kostnaðaráætlanir fram — eða hyggst ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar breyta Ólafslögum að þessu leyti og fella þetta ákvæði niður úr þeim lögum? Ég held að það sé nauðsynlegt að það komi fram. (Sjútvrh.: Fórst þú alltaf eftir þessu?) Ég fór alltaf eftir þeim hæstv. sjútvrh. (Sjútvrh.: Aldrei man ég eftir því.) Nei, þú manst yfirleitt mjög illa það sem þú þyrftir helst að muna, hæstv. sjútvrh., og væri ástæða til að rifja ýmislegt upp fyrir þér úr síðustu ríkisstj., en ætli ég geri það ekki undir öðrum dagskrárlið. Það er eitt og annað sem væri ástæða til að kenna þér úr þessum ræðustól og væri sjálfsagt hægt að verja tímanum verr til annars en að fræða þig um eitt og annað, m.a. úr síðustu ríkisstj., og þætti mér fróðlegt ef þú gætir nefnt mér dæmi um að fráfarandi ríkisstj. hafi afgreitt mál án þess að kanna hvernig kostnaði væri háttað í einstökum atriðum. Þar veit ég að fyrrv. ríkisstj. er til fyrirmyndar eins og um margt fleira. Við gætum farið yfir það í sameiningu, ég og hæstv. sjútvrh. En sjálfsagt hefur hann engan áhuga á því að rifja upp hvernig það gekk fyrir sig vegna þess að hann vill auðvitað gleyma allri fortíð Framsfl. eins og hún leggur sig. Þetta er svo suddaleg nútíð sem þeir búa við í Framsfl. núna. (Gripið fram í: Það gerir Blazerinn.) Það gerir Blazerinn, já, heyrist mér af pöllunum.

Ég held að það sé nauðsynlegt að fá fram, hæstv. fjmrh., hvernig stendur á því að þú ferð ekki eftir þeim anda sem felst í Ólafslögunum að þessu leytinu til og hvenær má vænta þess að skuldahlutfallið nái þessum 60% sem þú hefur sagt að ekki megi ná svo að þú ekki segir af þér störfum.

Hv. 5. þm. Vestf., ritari deildarinnar, kveður sér stundum hljóðs hér til að ræða um björgunarmál og fleira. Hann fór að tala um hvönnina Þorgeirs Hávarssonar áðan og vildi meina að við værum þeir kappar í Alþb. að heldur vildum við láta hvönnina slitna en að láta bjarga okkur. Fróðlegt er að heyra þessi ummæli hv. þm., sem er reyndar fulltrúi fyrir Vestfirði þar sem að víða vaxa hvannir. En það er einnig fróðlegt að velta þessu fyrir sér í samhengi við stefnu Framsfl. Ef þetta dæmi er hugsað aðeins lengra er ljóst að herinn má ekki fara vegna þess að hann gæti þurft að bjarga hv. 5. þm. Vestf. einhvern tímann úr lífsháska. Þannig er herinn óhjákvæmileg nauðsyn Framsfl. og a.m.k. 5. þm. Vestf. Ég held raunar að það sé svo illa komið fyrir hv. 5. þm. Vestf., ritara þessarar deildar, að hann vilji heldur að hvönnin slitni, en svo komi herinn og bjargi okkur. Mér sýnist að hann sé þannig á sig kominn í seinni tíð.

Herra forseti. Ástæðan til þess að ég kvaddi mér hljóðs var fyrst og fremst að inna hæstv. fjmrh. eftir þessum atriðum: annars vegar varðandi skuldahlutfall þjóðarbúsins út á við og hins vegar varðandi afstöðu hans til Ólafslaga og hvernig á því stendur að hann fer ekki eftir ákvæðum þeirra um kostnaðaráætlanir varðandi stjfrv.