01.02.1984
Neðri deild: 42. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2522 í B-deild Alþingistíðinda. (2203)

140. mál, lántaka vegna flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli

Ólafur Þ. Þórðarson:

Virðulegi forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. e. flutti þau skilaboð úr ræðustóli að hans líftóra væri ekki þess virði að selja bæri landið þess vegna sem björgunarlaun. Ég geri ráð fyrir því að 100% þjóðarsamstaða sé meðal Íslendinga um að þetta sé rétt. Ég hef engar athugasemdir fram að færa. Ég tel að 100% þjóðarsamstaða sé um að þetta sé rétt.

Ég geri aftur á móti ekki ráð fyrir því þó að ég deildi nokkuð fast á hv. 4. þm. Norðurl. e. að formaður Alþb., hv. 3. þm. Reykv., teldi hann svo illa barinn að hann þyrfti að fara að veita honum sérstakt lið héðan úr ræðustóli. Ég átti ekki von á því. Hins vegar dró hann upp nýja mynd af þeirri staðreynd hvers vegna herinn væri hér á landi. Það er ekki til að fullnægja duttlungum vondra heimsvaldasinna eða neinna slíkra aðila. Herinn ku vera hér á landi til að bjarga lífi ritara deildarinnar. Þetta þóttu mér mikil tíðindi og satt best að segja þá hvarflaði ekki að mér að hugsast gæti að eitt mesta stórveldi heims kostaði svo miklu til bara vegna lífs ritara deildarinnar. Það hvarflar nú að mér að örlítill efi sé á því að hv. 3. þm. Reykv. trúi eigin fullyrðingum þegar hann lætur fjúka á þennan veg.

Það fer ekki á milli mála að við framsóknarmenn vildum gjarnan lifa í þeim heimi þar sem vopn væru ekki. Ísland er ekki vopnaframleiðsluland eins og hin friðelskandi Svíþjóð sem gjarnan er minnt á. Ætli sé ekki drepinn minnst maður á dag með sænskum skotvopnum. Það hefur nefnilega löngum þótt fínt á þingi Sameinuðu þjóðanna að Svíarnir stæðu upp og töluðu um frið á sama tíma og bisnessmenn þeirra um allan heim seldu vopn. Það hefur verið talið fínt að fylkja liði á eftir Svíum í þessari stefnu. Það hafa Alþb.-menn boðað að Íslendingar skyldu gera hvenær og hvar sem er. Okkur þykir sumum hverjum dálítið köld sænska utanríkisstefnan jafnvel þó þeir láti algjörlega ógert að skjóta á Rússana þegar þeir koma í skerjagarðinn því það væri náttúrlega alvarlegur hlutur ef þeir tækju upp á því að verja þetta land með vopnum, sænskum vopnum.

Hver og einn sem hefur kynnt sér atburðarás sög-. unnar frá heimsstyrjöldinni síðari minnist þess að þau orð Stalíns hafa orðið að veruleika þegar hann boðaði það að þessi styrjöld væri að því leyti sérstæðari en allar aðrar að sérhver sigurvegari mundi yfirfæra sína stjórnarstefnu og sitt stjórnarfyrirkomulag á þau herteknu lönd sem hann hefði unnið. Þannig má segja að dyggilega hafi verið að verki staðið. Evrópu er í dag skipt eftir þeirri línu sem sigurvegararnir skiptu forðum og stjórnarfyrirkomulagið hefur verið útfært. Sem betur fer af tvennu illu vorum við hertekin í seinasta stríði af þjóðum sem aðhylltust lýðræðislegt skipufag. En þær eru þó nokkuð margar þjóðirnar sem voru herteknar af þjóðum sem aðhyllast ekki lýðræðislegt skipulag á meginlandi Evrópu og búa við það enn. Það er dálítið merkilegt að í hvert einasta skipti sem komið hefur upp hér á landi að við ættum að láta herinn fara er eins og Rússar hafi séð sérstaka þörf á því að fara af stað og bjarga Alþb. á Íslandi. Það er óhugnanleg staðreynd fyrir Alþb. að fylgi Alþb. mundi hrynja eins og spilaborg á þeim degi sem herinn færi. Það er óhugnanleg staðreynd fyrir hv. 3. þm. Reykv. Það er erfitt að eiga allt undir glæpnum. En svona standa nú málin.

Ég hygg að Norðmenn muni ekki að dómi heimsins vera færir um að leggja undir sig Rússland. Hins vegar virðist sem rússnesk starfsemi í Noregi sé ærið blómleg. Það skyldi þó ekki vera að hér á landi væru einnig menn á launum frá sömu stofnun og forseti og æðsti maður Rússlands var starfsmaður fyrir áður en hann fór í það embætti sem hann gegnir nú. Það skyldi þó ekki vera að það skipti máli að vita eitthvað um skoðanir Íslendinga og safna því saman og koma því inn á tölvuheila í því landi, Rússlandi.

Ég hygg að hv. 5. þm. Austurl. hafi gert sér grein að hluta til fyrir þessari hættu þegar hann skrifaði grein í blað þeirra Austfirðinga á seinasta ári og mættist gegn því að það yrði verðlaun á Íslandi að útvega barnaferðir til Rússlands. En vel að merkja. Það er hægt að þyrla upp moldviðri þannig að menn skilji ekki það sem er að gerast. Það er hægt að halda því fram að það sé algjör glæpur hjá Íslendingum að semja um að ef reist yrði flugstöð á Keflavíkurflugvelli og komi styrjöld taki Bandaríkjamenn við húsinu. Ég vil spyrja þá sem þannig hugsa og tala: Hvaða hús í þessu landi haldið þið að sé öruggt að ekki verði tekið ef styrjöld skellur á á milli stórveldanna? Hvaða hús er það? Er það þetta hús sem við stöndum í? Ég hygg að allskonar blekkingarvefur á þessu sviði eigi ekki heima í þessari umr. Það er vissulega rétt sem kom fram hjá hv. 10. landsk. þm. að þær upphæðir sem hér er um að ræða eru svimandi háar. Það eru rök í málinu og hægt að hlusta á þann málflutning. En hitt að halda því fram að það sé landsal þó að við stöndum sameiginlega að því að byggja þessa flugstöð, er alveg makalaus hræsni.