01.02.1984
Neðri deild: 42. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2523 í B-deild Alþingistíðinda. (2206)

140. mál, lántaka vegna flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Þessar umr. hafa nú farið vítt og breitt um heiminn og erfitt fyrir mig að svara öllu því sem komið hefur fram í þessum umr. ef ég á að halda mig við flugstöð á Keflavíkurflugvelli, en ég verð þó vegna ýmissa spurninga sem hefur verið beint til mín að svara þeim eins og ég get.

Ég skal ekki mótmæla neinu af því sem kom fram í frumræðu hv. 4. þm. Norðurl. e. Hann er algjörlega andvígur byggingunni á Keflavíkurflugvelli. Það eru Alþb.-menn allir og hafa alltaf verið. Seinni árin hafa þeir talað um að byggja minni flugstöð til að ná einhvers konar samkomulagi en þeir hafa ekki náð fylgi við þá hugmynd sína. Þetta er pólitísk afstaða Alþb. og hefur alltaf verið. Það stangast á hugsjónir og þetta er orðin hugsjón hjá Alþb. að Keflavíkurflugvöllur skuli ekki fá flugstöð sem byggð er í samvinnu Íslendinga og Bandaríkjamanna. Þetta hefur verið yfirlýst afstaða Alþb. og kemur okkur ekki á óvart í þessum umr.

Ég vil líka taka undir allt það sem kom frá fulltrúa kvennaframboðs hér áðan sem lýsti því sem hann sagði sem skoðun Kvennalistans. Hv. 3. landsk. þm. er andvígur byggingu stöðvarinnar. Hún hefur fullan rétt til að vera það og kvennaframboðið, ég hef ekkert að athuga við það. Það getur alltaf verið umdeilanlegt hvaða framkvæmdir eru arðbærar og hvaða framkvæmdir eru ekki arðbærar. Ég segi að Keflavíkurframkvæmdin sé arðbær og einhver annar segir að hún sé ekki arðbær. Þarna bara stangast á skoðanir, þannig er það.

Það virðist vera að meiri hl. í þessari hv. d., eins og í Sþ. hafi þá skoðun að byggja eigi þessa flugstöð í samvinnu við bandarísku aðilana. Hv. 3. landsk. þm. lýsti andstöðu sinni við hernaðarhyggju og sagði: Fjármálaráðherra, ekki meir, ekki meir. Ég get bætt við: Ekki meir, ekki meir. Það er komið fjórum sinnum. Ég er á móti hernaðarhyggju líka og hefur ekkert með bygginguna á flugstöðinni í Keflavík að gera. Steinn Steinarr hefur áreiðanlega ekki verið með þessa byggingu í huga. Hann hefði líklega ort enn þá betra kvæði henni til stuðnings hefði hann verið á lífi.

Hv. 4. landsk. þm. tekur undir að laga þurfi aðstöðu á Keflavíkurflugvelli. Svo sannarlega er það rétt. Þá er ég ekki að hugsa um flugaðstöðu sem slíka heldur aðstöðuna fyrir starfsfólkið. Sumum hv. alþm. væri kannske hollt að hugsa svolítið til þeirra og fara suður eftir og skoða þá vinnuaðstöðu sem nú er fyrir hendi í gömlu byggingunni. Það gerðu þm. á sínum tíma, a.m.k. þeir sem sátu í utanríkismálanefnd. Ég fór að vísu ekki vegna þess að ég hef farið þangað tvisvar sinnum áður vegna kjaramálaráðs. En ég álít að þetta sé skynsamleg aðgerð og tek undir það með hv. þm. Guðmundi Einarssyni. Svo má enn þá deila um hvort þetta er of stór og mikil framkvæmd eða ekki, það er allt annað mál.

Hv. 5. þm. Austurl. taldi að það væri 12–13 sinnum meiri þörf fyrir fé til flugvallarbygginga og tækjakaupa á flugvelli úti á landi en það sem fer á þessu ári. Þetta hefur eiginlega verið sama sagan öll þau ár sem ég er búinn að vera hér á Alþingi. Sem flugráðsmaður hef ég komið með tillögu eftir tillögu flutta í samvinnu við flugráð og að beiðni þess ásamt hv. þm. Garðari Sigurðssyni og síðan hans eftirmanni í flugráði, Skúla Alexanderssyni, hv. 4. þm. Vesturl. Við höfum beðið alla hv. alþm. um að koma með till. sem þeir kynnu að hafa í fórum sínum frá kjördæmum sínum eða flugvöllum almennt um land allt í fjvn. í tíma þannig að flugráð gæti einhvern tíma fengið eitthvað nálægt þeirri upphæð til framkvæmda á öryggisbúnaði og endurbótum á flugvöllum sem þyrfti. Það var aldrei hlustað á okkur. En strax og fjárlögum var lokað fóru tillögur að koma fram frá hinum og þessum þm. og kröfur um að þetta og hitt skyldi gera og framkvæma um land allt. Það fékkst aldrei samstaða um heildarfjárfestingar svo að um munaði til flugmála þannig að ekki er rétt af þm. að blanda almennt þeim framkvæmdum og því framkvæmdafé sem fer til landsbyggðarinnar við þá framkvæmd sem hér hefur verið hugsað um langan aldur. En Alþb. hefur tekist í pólitískum miklum minni hl. á Alþingi að koma í veg fyrir að málið kæmist einu sinni á dagskrá með neitunarvaldi sínu í ríkisstj.

Spurt var af, að ég held, hv. 5. þm. Reykv. hver áætluð kostnaðarhlutdeild ríkisins yrði í heildarframkvæmdum. (Gripið fram í.) Nei, nei. Skv. þeirri skrá sem hér er er hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson 5. þm. Reykv. Ég hef þær upplýsingar - ég vona að þær séu réttar, ég fer eftir minni, ef þær eru rangar áskil ég mér rétt til að leiðrétta þær — að í heildarframkvæmdir þarna suður frá sem tengjast að einu eða öðru leyti flugvallarhótelinu sé kostnaðaráætlunin upp á 20% þátttöku Íslendinga og um 80% þátttöku Bandaríkjamanna og þá er allt meðtalið.

Sami hv. þm. spyr um rök þess að fjármagna okkar hluta eingöngu með erlendum lánum. Rökin eru einfaldlega þau að við eigum ekki peninga til fyrir þessu eins og svo mörgu öðru þannig að við þurfum að taka erlend lán.

Ekki er hægt að segja um það nú hver hlutur annarra aðila sem kunna að hafa starfsemi á Keflavíkurflugvelli í framtíðinni er í rekstri þessarar stöðvar ef ég skildi þriðju spurninguna, spurningu um rekstur stöðvarinnar eftir að hún er fullbyggð, en að sjálfsögðu veit það enginn. Það á eftir að fá aðila til þess að reka þarna það sem reka þarf. Að sjálfsögðu kemur stöðin til með að hafa tekjur á fleiri sviðum en nú er þar sem meira rými er fyrir fjölbreyttari starfsemi í nýju stöðinni eins og hún er áætluð en er í þeirri gömlu í dag.

Hv. 3. þm. Reykv. spyr hvenær vænta megi þess að Albert Guðmundsson segi af sér. Hann bíður mjög óþreyjufullur eftir því að markmiðið sem hann náði, 60% í erlendum lánum af heildarþjóðarframleiðslu verði sprengt. Gert er ráð fyrir þessari lántöku í lánsfjárlögum fyrir 1984 þannig að þessi lántaka sprengir ekki þann ramma, því miður, virðulegi þm. Því miður verð ég víst að valda Alþb. vonbrigðum að þessu leytinu til. En hitt er annað mál að ekki má mikið koma fyrir til að sá rammi sem hann er með í huga springi og ánægjan verði öll hans og ég segi af mér. Það þarf ekki mikið til.

En hann talar um vinnubrögð fjmrh. sem brot á öllum lögum um kostnaðaráætlanir og vitnar í Ólafslög. Ég hef aldrei heyrt það áður að gera þurfi sérstaka kostnaðaráætlun við að fá lántökuheimild. Eins og réttilega kom fram hjá hv. 5. þm. Reykv. sem virðist vera sá eini sem hefur lesið fyrirsögn frv. og gerir sér grein fyrir því um hvað er verið að ræða er verið að ræða hér um frv. til l. um lántöku o.fl. vegna byggingu flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli. Endanleg kostnaðaráætlun liggur ekki fyrir svo að ég viti til, enda held ég að erfitt væri að gera hana þannig að hún stæðist.

Minn ágæti vinur og kollegi, 10. landsk. þm., skemmtileg eins og ávallt, en það er með mig eins og hundinn minn, úr því að hann er kominn hér á dagskrá, að mín frægð kemur að utan. En eftir að hafa hlustað á hv. virðulegan, elskulegan samstarfsmann minn hér, 10. landsk. þm., svo að ég tali nú ekki um hv. 4. þm. Norðurl. e. datt mér í hug nokkuð sem ég hef að sjálfsögðu ekki búið til. En þjóðþekktur maður í Bretlandi endaði bréf til mín vegna hundamálsins svokallaða á þann hátt og með þeim orðum að augljóst væri að manngildið færi minnkandi en annað gildi ykist að sama skapi. (HG: Hundingjaháttur.) Ég ætlaðist ekki til þess að hv. 5. þm. Austurl. tæki þetta til sín. En það er allt í lagi. Minn hundur móðgast ekki.

Það var fróðlegt að heyra upptalningu hv. 10. landsk. þm., sem var orðin ansi löng. Ég held hún hafi fundið út að allar stærstu og helstu framkvæmdir, sem áætlaðar eru á þessu ári og eru á fjárlögum, næðu ekki þeirri lántöku, 616 millj., sem ætluð er til flugstöðvar allt til 1987. Þá var minn ágæti vinur 10. landsk. þm. að tala um fjárlögin í ár og talaði eins og 616 millj., sem eiga að fara í flugstöðina, færu í hana í ár. Um er að ræða lántökur sem dreifast á árin allt til 1987. Ég vil taka fram að þessar lántökur hófust 1983 undir forustu þeirrar ríkisstj. sem 10. landsk. þm. studdi og hv. 3. þm. Reykv. sat í. Þetta er framhald af þeim lántökum sem hófust í tíð fyrrv. ríkisstj.

Ég vil benda á að hv. þm. hefði getað haldið áfram að telja upp fjárlagaliði og þá notað háar tölur, t.d. framlag til námsmanna. Þeir fá 400 millj. kr. á fjári. plús 228 millj. kr. í lántökum erlendis og vantar 100 millj. kr. í viðbót.

Menn hafa misjafna skoðun á því hvað er rétt að gera og hvar er rangt að gera. Ég tel t.d. að það sem gert var af síðustu ríkisstj. í fjármálum hafi verið alrangt. Ég verð að láta mér lynda að taka við erlendum skuldum 60% af þjóðartekjum, hátt á annað þús. millj. í yfirdrætti í Seðlabanka og þurfa að afgreiða fjárlög með halla. Það er ekki glæsileg afkoma. Svo tala þessir blessaðir Alþb.-menn eins og þeir hafi efni á að tala um peningamál og hafa hátt til að fá fólk til að gleyma því sem liðið er þó að það sé nýliðið. Því verður ekkí gleymt og því hef ég sagt, og fleiri ráðh. hafa tekið undir það núna nýlega, að fáum við ekki frið fyrir þessum skemmdarverkamönnum í fjármálum þjóðarinnar til að laga efnahaginn eigum við að fara frá með það sama og lofa þjóðinni að sækja þá aftur, vita hvort hún vill ekki fá þá aftur og búa við þá óreiðu og þá óðaverðbólgu sem hér var áður en núv. ríkisstj. tók við. — Og nú ætla ég að biðja hæstv. forseta að gefa hv. 3. þm. Reykv. orðið á eftir. Ég nenni ekki að hlusta á hann núna. (Gripið fram í.) Skemmdarverk? Vill formaður Alþb. frekar hafa það? Ef formaður Alþb. óskar sérstaklega eftir því að vera kallaður forustumaður fyrir skemmdarverkahóp er það hans mái. Ég ætla ekki að kalla hann það, en honum er frjálst að gera það. Það verða ekki mín orð. En úr því að hann óskar eftir því er best að það komi fram í þingtíðindum. (SvG: Þín ásökun liggur fyrir.) Það er engin ásökun. Það sem ég hef sagt eru staðreyndir og það er hverjum frjálst, og ég hef áður boðið það hverjum einasta þm. og hverjum einasta verkalýðsforingja, að koma upp í fjmrn. og staðreyna að það sem ég segi í tölum er rétt. Ég býð formanni Alþb. hér með sérstaklega að koma með þá fagmenn sem hann vill upp í fjmrn. og sannreyna það sem ég segi eða að leiðrétta það að öðrum kosti.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa orð mín fleiri. En það er rétt hjá virðulegum ritara þessarar deildar að hér er um hápólitískt mál að ræða, sem Alþb. hefur svo lengi sem ég hef verið á Alþingi reynt að eyðileggja og tefja sérstaklega. Meðan Alþb.-menn voru í ríkisstj. vissu þeir að það var fullur vilji allra samráðh. þeirra að leggja málið fyrir Alþingi og fá það rætt, en með neitunarvaldi komu þeir í veg fyrir það. Það sama skeði í utanrmn. þegar málið var rætt þar. Nú er Alþb. ekki lengur í ríkisstj. og þá er það sjálfsagða lýðræðislega frelsi aftur komið á í vinnubrögðum Alþingis að mál fást rædd á dagskrá, eins og t.d. þetta mál.

Það er verið að tala um að þessi ríkisstj. hafi ekki viljað kalla Alþingi saman á einhverjum ákveðnum tíma í júlí til að ræða þessi og ýmis önnur efnahagsmál. (Gripið fram í: Það var krafa Alþingis.) Þar var ekki heldur farið að ósk Sjálfstfl. þegar rammasamningurinn við Rússa var gerður. Það var ekki talin ástæða til að kalla saman Alþingi þrátt fyrir ósk Sjálfstfl. þá. Um hvað eruð þið að tala? (HG: Á ekki að segja honum upp?) Hverjum? (HG: Samningnum við Rússa.) Það er ekki hægt fyrr en eftir fimm ár. Þannig var gengið frá honum að það er ekki hægt. Það er ákvæði í samningi ykkar við Rússa sem kemur í veg fyrir að honum sé sagt upp nema með fimm ára fyrirvara. (Gripið fram í.) Ekkert væri mér kærkomnara og ég skal muna eftir því, ég skal taka það upp. Ég skal sannarlega taka það upp því að það er mín skoðun að verri samningur hafi ekki verið gerður fyrir Ísland en sá bindandi samningur þar sem Rússar réðu ferðinni en ekki Íslendingar. Þetta mál þarf að taka upp hér. En þetta mál fékkst ekki rætt. Alþingi var ekki kallað saman þá. Stjórnarandstöðuflokkarnir þá fóru fram á það. Hvað eruð þið svo að tala um að brjóta lýðræðisreglur með því að kalla ekki saman Alþingi þegar ykkar duttlungar segja til um? Nei, áttið ykkur á því að fólkið í landinu er farið að vara sig á ykkur. Það er farið að vara sig á ykkur. Með vaxandi fréttaflutningi verður enn þá meiri tortryggni í ykkar garð. (HG: Hverjir gerðu þennan Rússasamning?) Alþb. Undir forustu Alþb. í ríkisstj. var hann gerður. (Gripið fram í.) Nei, þessi mál eru svo nýlega rædd opinberlega að hv. 5. þm. Austurl. veit betur.

Ég ber það ekki saman að ræða hápólitísk utanríkismál sem snerta stórþjóðir, og það einræðisþjóðir sem eru andstætt okkur að öllu leyti menningarlega séð og viðskiptalega séð, þjóðir sem hafa eins lokað kerfi og hægt er að hafa, þar sem jafnvel erlendir sendimenn fá aðeins 40 mílna ferðafrelsi, og hins vegar eina frjálsustu þjóð sem til er í heiminum, Ísland, þar sem ekkert eftirlit er með ferðafrelsi manna eða athafnafrelsi. Þá var ástæða til að kalla saman Alþingi og ræða málið.

Ég verð að segja alveg eins og er að ég tel það fagnaðarefni, og taki það hver eins og hann vill, og ég tel það gæfu Ístands að samningar skyldu takast um varnir Íslands við Bandaríkjamenn meðan hugsunarhátturinn og yfirgangurinn í Sovétstjórnskipulagi er sá sem hann er. Guð hjálpi okkur ef Alþb. fengi einhvern tíma að ráða hvernig Ístand og framtíð Íslands væri borgið og í hvaða höndum Ísland og gæfa þess væri. (SvG: Það væri gott fyrir Ístand, hæstv. ráðh.) Það er einmitt þetta sem ég óttast mest, þ.e. sú rödd sem kemur frá formanni Alþb. núna. — það væri gott fyrir Ísland! Ja, guð hjálpi okkur.