26.10.1983
Efri deild: 9. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í B-deild Alþingistíðinda. (222)

8. mál, ráðstafanir í sjávarútvegsmálum

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Virðulegi forseti. Ég bið velvirðingar á því að ég var ekki viðlátinn þegar umr. hófust, en mun nú halda áfram þar sem frá var horfið s.l. mánudag, er til mín var beint nokkrum fsp. Vil ég byrja á að svara þeim.

Hv. þm. Karl Steinar Guðnason spurði hvort ekki væri ástæða til að hafa meiri samvinnu við Norðmenn varðandi sölu á skreið. Það hefur verið um það rætt, bæði nú og áður, hvort ekki sé rétt að taka upp meiri samvinnu við Norðmenn, og kemur það að sjálfsögðu til greina, en við megum hins vegar ekki gleyma því að Norðmenn eru mjög harðskeyttir samkeppnisaðilar á Nígeríumarkaði og í því sambandi er rétt að hafa í huga að mjög margir aðilar frá Noregi starfa á þessum markaði og opinber stjórnvöld geta ekki stýrt því eða gefið okkur tryggingu fyrir því hvað þeir gera á markaðinum, þannig að jafnvel þótt við höfum samvinnu við opinber stjórnvöld í Noregi er ég þeirrar skoðunar, að það sé alls ekki nægileg trygging fyrir því að um undirboð og aðra sem við getum kallað óeðlilega samkeppni geti ekki verið að ræða. Það sama má segja um okkur. Það eru allmargir íslenskir aðilar sem starfa á þessum markaði og opinber stjórnvöld á Ísandi geta ekki vitað um allt sem þeir aðhafast á þessum markaði frekar en öðrum. — En um það hefur sem sagt verið rætt að undanförnu, hvort við ætlum að taka upp samvinnu við Norðmenn. Ég vil að öðru leyti ekki fjölyrða um það mál. Viðskiptamál á skreiðarmörkuðum eru eins og menn vita í höndum viðskrn. Þetta vildi ég aðeins segja að gefnu tilefni.

Hv. þm. Skúli Alexandersson spurði um afkomu skreiðarframleiðenda. Því er ekki að neita að þar er mjög alvarlegt ástand, fyrst og fremst vegna þess að ekki hefur tekist að setja skreiðina og einnig eru miklar líkur á því að það verð sem fæst fyrir hana verði ekki eins hátt og menn höfðu gert ráð fyrir, sem þýðir þá verulegt tap. Skreiðarframleiðendur hafa lagt fram útreikninga sem benda til þess að um rúmlega 18% tap geti orðið að ræða.

Ég skal ekki fullyrða um hvaða útreikningar eru réttir í þessu sambandi. Ég hef enga ástæðu til að draga útreikninga skreiðarframleiðenda í efa. En þess ber að geta, að í Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins, deild fyrir skreiðarafurðir, eru nú 220 millj. og í framhaldi af viðræðum, sem hafa átt sér stað milli ríkisstj. og Samtaka skreiðarframleiðenda, var óskað eftir því að fram færu umr. í Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins um þessi mál. Þeir rituðu mér 24. okt. eftirfarandi bréf, sem ég vil lesa hér, með leyfi hæstv. forseta:

„Á fundi stjórnar Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins, deildar fyrir skreiðarafurðir, þann 21. okt. s.l., var ræddur sá mikli vandi sem nú steðjar að framleiðslu skreiðar vegna mikilla söluerfiðleika og mjög tregra gjaldeyrisskita af hálfu kaupenda.

Samkv. fyrirliggjandi upplýsingum, sem sjóðurinn nú hefur frá framleiðendum ásamt öðrum aðilum sem mátið snertir, er gert ráð fyrir verulegum greiðslum verðbóta á alla óselda og ógreidda skreið. Má ætla að þetta geti numið allt að 150 millj. Inneign skreiðarinnar er nú 220 millj. Með tilliti til þessa var rætt um hvernig hraða mætti greiðslum upp í væntanlegar verðbætur, en samkv. lögum sjóðsins er ekki heimilt að inna slíkar greiðslur af hendi fyrr en gjaldeyrisskil liggja fyrir. Allir viðstaddir stjórnarmenn voru sammála um að fara þess á leit við yður, hr. sjútvrh., að gert yrði mögulegt með lagabreytingum að greiða upp í væntanlegar verðbætur og kæmi það til framkvæmda sem fyrst. Virðist vera um tvær leiðir að velja í þessu sambandi, annaðhvort með því að bæta við frv. til l. um ráðstafanir í sjávarútvegsmálum ákvæði til bráðabirgða um þetta efni eða flytja sérstakt frv. til breytinga á lögum um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins með ákvæði til bráðabirgða, en í báðum tilvikum mætti orða breytinguna á sama hátt.“

Ég vil í þessu sambandi skýra frá því, að ég tel rétt að flutt verði frv. hér um mál þetta og mun ég gera það á næstu dögum. Það er að sjálfsögðu álitamál hvernig frv. þetta skuli flutt, en ég held að best sé að það sé gert sérstaklega, þannig að þm. geti tekið afstöðu til þess út af fyrir sig og blandi því ekki saman við önnur mál sem gætu tekið lengri tíma hér í þinginu. Ég vil upplýsa þetta af þessu tilefni, en mál þetta var afgreitt í ríkisstj. s.l. þriðjudag.

Hv. þm. Skúli Alexandersson spurðist fyrir um lista yfir skip, sem hefði birst í fjölmiðlum að undanförnu, og hvort ekki ríkti lengur trúnaður. Ég er honum alveg sammála um að það er mjög óheppilegt að slíkt sé birt opinberlega með tölum. Það hefur verið gert og verður ekki aftur tekið. Hitt er svo annað mál, að reynst hefur erfitt í gegnum tíðina að halda því algerlega leyndu hvernig staðan væri við fjárfestingarlánasjóði landsins. Þá hefur einnig verið mjög mikil umr. um sjávarútveginn og látið í það skína að fjárfesting í sjávarútvegi væri helsta böl landsins. Manni hefur helst skilist að ef við ættum helmingi færri skip eða kannske ekki nema 1/4 þeirra skipa sem við eigum mundum við hafa í landinu eins og blómi í eggi. Í kringum þetta hefur mikið gengið á og miklar kröfur verið uppi um upplýsingar. Það hefur svo sjálfsagt leitt til þess að erfitt hefur reynst að viðhafa leynd í viðkomandi sjóðum. En ég skal gjarnan taka undir að það er mjög óheppilegt að svona fari.

Hins vegar er eðlilegt að leitað sé leiða til að komast út úr þessum vanda. Það eiga sér stað nú viðræður hagsmunaaðila og Fiskveiðasjóðs og eftir að þær viðræður hafa átt sér stað munu verða teknar ákvarðanir í Fiskveiðasjóði um hvernig halda skuli á þessum málum.

Í fjórða lagi spurði hv. þm. Davíð Aðatsteinsson mig hvað væri með vanda netaverkstæðanna, þ.e. þeirra verkstæða sem hafa séð um loðnunæturnar. Það er rétt að þeir sem hagsmuna eiga að gæta hafa leitað til sjútvrn. um það, hvort við gætum aðstoðað þá í þeim vanda sem þeir standa frammi fyrir, og spurt um það, hvort mögulegt væri að ráðstafa fé úr gengismunarsjóði til þeirra. Ég tjáði þeim að slíkt væri ekki hægt, ég sæi ekki fram á hvar það ætti að enda ef við byrjuðum að ráðstafa gengismunarfé til þjónustuaðila í sjávarútveginum. Ég fyrir mitt leyti gat því ekki tekið undir það, en tel hins vegar nauðsynlegt að aðstoða þá við að komast fram úr þeim vanda sem þeir eru í, sem er sá, að eigendur loðnunótanna hafa ekki getað greitt þeim vegna þess að enginn afli hefur verið hjá skipunum. Ég vænti þess að aðstoðin við loðnuskipin hafi létt undir í þessu sambandi, en einnig höfum við í sjútvrn. reynt að aðstoða eigendur netaverkstæða við að ræða við þá sjóði sem þarna eiga hlut að máli. Það eru veruleg vanskil hjá nokkrum aðilum við fjárfestingarlánasjóði og ég veit ekki betur en að þeir fjárfestingarlánasjóðir hafi tekið á þeim málum með skilningi miðað við það ástand sem þarna hefur ríkt. Hins vegar er það mikilvægast fyrir þá eins og aðra að loðnuveiðar geti hafist. Nú hefur verið ákveðið að þær hefjist og þá er vonandi að ástandið skáni hjá þessum þjónustuaðilum með því að skipin geti greitt þær skuldir sem þau hafa stofnað til, og að sjálfsögðu munu þessir aðilar þá fá meira traust hjá lánastofnunum þegar vitað er um að loðnuveiði á að hefjast.

Þetta voru þær fyrirspurnir sem til mín var beint. En varðandi það sem almennt kom fram í umr., þá var mikið talað um ráðstöfun á gengismun og upptöku á gengismun. Ég vil almennt segja um það, að aðalatriðið er að þar gildi hlutlægar reglur, bæði um innheimtu á gengismun og einnig um ráðstöfun. Það var tekin sú afstaða að gilda skyldi sama regla um allar afurðir, hvort sem það væri frystur fiskur, skreið eða saltfiskur, þannig að aðgerðin gengi jafnt yfir allar afurðir. Það er mjög erfitt að fara að undanskilja ákveðnar afurðir og það var reynt að forðast í þessu tilviki.

Ég vil hins vegar taka það fram, að ég tel að skipaflotinn eigi ekkert síður rétt á þessu fé en aðrir. Þegar ákvörðun um fiskverð er tekin er gengið út frá ákveðnum gengisforsendum. Ef það hefði verið vitað, þegar fiskverð var ákveðið, að svo mikil gengisbreyting yrði, þá hefði verið tilhneiging til að ákveða fiskverð hærra. Miðað við stöðu flotans og þau skiptingarvandamál sem eru í sjávarútveginum og ekki er hægt að líta fram hjá, þá var ekkert réttlæti í því að mínu mati að flotinn fengi ekki það fjármagn sem hann fékk við þessar aðstæður.

Það má síðan endalaust deila um hvernig fjármagninu skuli ráðstafað. Þar var haft samráð við aðila. Það er alveg rétt, að þeir sem vinnslu stunda vildu allir fá af þessu fé, bæði frystingarmenn og þeir sem verka saltfisk og skreið. Því var neitað með öllu, en hins vegar var fallist á að hluti af fjármagninu væri lagður í Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins, saltfiskdeild, til þess að tryggja að saltfiskverkun gæti haldið áfram. Að öðru leyti var ekki fallist á að fé rynni til vinnslunnar. Síðan var ráðstafað fé til flotans með þeim hætti sem kunnugt er, og ég er þeirrar skoðunar að það hafi aldrei áður gilt eins hlutlægar reglur og við þessa úthlutun. Það var lögð veruleg vinna í að koma reglunum saman. Það var bæði tekið mið af afla og skuldum og það var reynt að gæta þess að allir fengju án tillits til þess hvað þeir skulduðu mikið, sem sagt einnig þeir sem skulduðu tiltölulega lítið, en áður hafi verið tilhneiging til þess að útiloka þá við fyrri úthlutanir. — Þetta er ekkert nýmæli í íslenskum sjávarútvegi. Þetta hefur viðgengist svo lengi sem ég man a.m.k. og þegar gengisbreytingar hafa átt sér stað, þannig að ég vísa því algerlega á bug að hér sé um brot á stjórnarskrá að ræða.

Menn tala um millifærslur, það sé verið hér með millifærslur, og talað í niðrandi tón um það. Auðvitað er skiptingarvandamál í íslenskum sjávarútvegi og hefur alltaf verið. Hins vegar vitum við að fiskvinnslan getur ekki gengið án þess að hafa flota og flotinn getur ekki gengið án fiskvinnslu. Við þurfum að taka tillit til þess og reyna að hafa sem best samstarf þarna á milli. Ef menn vilja kalla það millifærslu — og í niðrandi merkingu — að það sé reynt að koma því þannig fyrir að bæði vinnslan og útgerðin geti gengið með eðlilegum hætti, þá verður að hafa það mín vegna, en ég tel þetta vera eðlilegt. Það má þá alveg eins kalla það millifærslu þegar bæjarútgerðir eru að reyna að halda stóru togurunum gangandi með aukalánum og aukaaðstoð. Samkv. þeim tölum sem við höfum um stóru togarana, þá hafa þeir verið reknir með gífurlegu tapi á undanförnum árum. Þar af leiðandi ættu þeir í reynd allir að liggja við bryggju. En þeim hefur verið haldið gangandi með stuðningi vinnslunnar vegna þess að vinnslan hefur ekki getað án þeirra verið. Þannig eiga sér stað ýmsir verðmætaflutningar innan sjávarútvegsins fyrir utan svokallað skiptaverð, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr, og það gerist ekki allt og ekki nema að litlu leyti með tilstuðlan opinberra stjórnvalda.

Hér kom einnig fram, bæði hjá hv. þm. Karli Steinari og hv. þm. Skúla Alexanderssyni, að sú leið sem væri farin rýrði hlut sjómanna. Ég get ekki tekið undir þetta sjónarmið. Það voru sett lög um að laun mættu ekki hækka nema um tiltekna prósentu. Jafnvel þótt menn vilji túlka það svo nú í umr. að samningsréttur væri algerlega afnuminn, þá tel ég það ekki rétta túlkun og í reynd útúrsnúning. Það kemur skýrt fram í lögunum að bannað er að hækka laun. Auðvitað taka samningar langan tíma. Ætli mönnum veiti nokkuð af nokkrum mánuðum við þessar aðstæður til að undirbúa þá samninga? Það hefur enginn bannað mönnum í þjóðfélaginu að tala saman og semja um sín kjör. Það stendur hins vegar í lögunum að laun megi ekki hækka nema um ákveðna prósentu fram til 1. febrúar. En aðilar vinnumarkaðarins virðast hafa tekið það þannig, að þeir mættu ekki tala saman fyrr en 1. febrúar og þar væri ríkisstj. um að kenna, það væri búið að taka af þeim málfrelsið. Þetta er ekkert annað en útúrsnúningur. Ég vil koma þessu á framfæri í tengslum við þá umr. sem hefur átt sér stað. Ég fel að mjög mikilvægt sé að aðilar vinnumarkaðarins vinni sem fastast að því nú á næstunni að undirbúa þá samninga sem þurfa að eiga sér stað í vetur. — Og mér heyrist nú á öllu að ekki veiti af að menn rýni vel ofan í dæmið til að átta sig á raunverulegri stöðu þjóðarbúsins. Það gera menn ekki með stanslausum upphrópunum.

Það varð að sjálfsögðu að hafa samræmi varðandi launakjör sjómanna og annarra stétta í landinu og það var gert í þessum lögum. Hins vegar var talið að kjör bátasjómanna væru mun rýrari en annarra og þess vegna var ákveðið að meira kæmi í þeirra hlut en annarra. Menn geta haldið því fram að verið sé að rýra hlut sjómanna. En hver hefði hlutur sjómanna verið ef áfram hefði verið haldið að óbreyttu eins og útlitið var? Ég vildi gjarnan fá svar við þeirri spurningu frá þessum hv. þm.

Ég heyri ekki betur en það hlakki í mönnum þessa dagana að nú sé flotinn að stöðvast við þessar aðstæður, nú sé allt að sigla í strand. Það er allt að því, leyfi ég mér að segja, að það hlakki í mönnum yfir því. Það er sorglegt. (Gripið fram í: Vill ráðh. nefna dæmi um það.) Ég var ekki að segja að hv. þm. hefði látið þau orð falla og ég ætla ekki að nefna nein nöfn úr þessum ræðustól því að hér eru réttir aðilar ekki til varnar. En ætli það væri ekki stöðvaður flotinn fyrir löngu ef þær ráðstafanir hefðu ekki verið gerðar sem voru gerðar í vor — og hver væri þá hlutur sjómanna? Ég held að það væri gott að fá svör við þeim spurningum, svo að ég byrji nú að spyrja hv. þm. stjórnarandstöðu.

Ég vil ekki, virðulegur forseti, gera þessi mál að frekara umræðuefni. Það eru mikil vandamál í íslenskum sjávarútvegi og það verður erfitt að ráða fram úr þeim á næstunni. Ég hef sagt það og skal endurtaka það hér, að ég sé ekki betur en það verði að búa við það að útgerðin sé rekin með nokkru tapi vegna aflabrests og erfiðrar afkomu. Ég fæ ekki séð leiðir sem geti skapað góðan rekstrargrundvöll næstu mánuðina. Hins vegar er það svo, að þannig hefur það alltaf gengið í íslenskum þjóðarbúskap að þar eru sveiflur og menn hafa þurft að taka á sig tap og fjármagna tap um tíma. Það getur þó ekki gengið til lengdar og við hljótum á næstunni að leita allra leiða til að gera þessa útgerð hagkvæmari til langframa. Þar eru að sjálfsögðu til ýmsar leiðir. Það er hægt að auka verðmæti aflans. Að því er unnið. Það er hægt að draga úr tilkostnaði. Svo mætti lengi rekja. Ég skal ekki hafa um það fleiri orð hér, en vænti þess að ég hafi svarað þeim fsp. sem til mín hefur verið beint. Ef ekki, þá endurtaka menn þær í umr. á eftir.