26.10.1983
Efri deild: 9. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í B-deild Alþingistíðinda. (223)

8. mál, ráðstafanir í sjávarútvegsmálum

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. ágæt svör við þeim spurningum sem til hans var beint á síðasta fundi um þessi mál. Mig langaði þá til að ræða nokkur atriði sem þetta varða.

Hann minntist á það áðan að skert samningsfrelsi skipti litlu máli, mönnum veitti ekki af tímanum til að fara að semja og skyldu vinna sem fastast. Mótmæli verkalýðshreyfingarinnar gagnvart afnámi samningsréttar eru tilkomin vegna þess að annað eins og þetta hefur ekki skeð hér áður og menn vilja ógjarnan sjá á bak þeim mannréttindum sem tók verkalýðshreyfinguna áratugi að ná.

Verkalýðshreyfingin vill gjarnan semja. Það hefur verið óskað eftir samningum. En við getum ekki samið við þann sem ekki vill tala við okkur. Það er það sem að er. Vinnuveitendasambandið hefur neitað að setjast að samningaborði vegna þess að lögin frá því í sumar eru í gildi. Þess vegna nást ekki samningar. Ef á að semja, þá þarf tvo til.

Ég gagnrýndi það á síðasta fundi hvernig farið væri með gengismun og taldi og tel að við eigum að hverfa frá því kerfi að gera gengismun upptækan, en þegar það er gert finnst mér ástæða til þess að horft sé á hver staða hverrar einstakrar greinar er. Ég tel að skreiðin hafi verið hvað verst stödd á þeim tíma og sé það reyndar enn. Tap á skreiðarverkun er nú sannanlega 18.4% og getur jafnvel orðið verra.

Mér fannst umr. á síðasta fundi á margan hátt mjög aulalegar. Það kom fram hjá einum hv. þm. að menn væru á móti sjávarútvegi, meira að segja menn sem aldir eru upp í slori mestalla sína ævi. Svona málflutningur á ekki við í þessari deild allavega, þótt hann gæti viðgengist einhvers staðar annars staðar.

En auðvitað deila menn um hvað skuli gera til úrbóta í sjávarútveginum. Menn hafa áhyggjur af bágri stöðu sjávarútvegs. Við í Alþfl. höfum deilt á hversu fjárfestingin hefur verið gífurleg og talið að hún mætti vera minni, þetta sé til mikils tjóns fyrir sjómenn, útgerðarmenn og þjóðina alla. Þetta er miklu meira vandamál en svo að við séum að karpa um það hér hver upp í annan, ef svo mætti segja. Ég hygg að flestir séu orðnir sammála okkur Alþfl.-mönnum um að þetta sé stórkostlegt vandamál í þjóðfélaginu, í sjávarútvegi og hjá landsmönnum. Ég þykist líka alveg viss um að við leysum þetta mál ekki með þessu eilífa karpi.

Það er mikið viðkvæmnismál hvar eigi að skera niður og hverjum eigi að neita um skip. Auðvitað eru hinar ýmsu byggðir um allt land mjög viðkvæmar fyrir því hvort slíkt lendi á þeim eða öðrum. Þm. eru viðkvæmir fyrir því, hvort það er skorið niður í þeirra kjördæmi eða ekki. Ég tel að það verði að skapast þjóðarsátt um þetta og stjórnmálaflokkarnir verði að leita leiða til að koma þessu máli í sama farveg og kjördæmamálinu. Menn voru þá ekki með tillöguflóð og gaspur nema í miklu hófi og komu sér saman um hvernig með þau mál var farið. Ég held að við leysum þetta ekki öðruvísi — og við verðum að gera það vegna þess að eftir því sem lengra verður haldið áfram verður vandamálið stærra og því berskjaldaðri verðum við. Ég er þess fullviss að Alþfl. mun gera sitt til þess að slíkt samkomulag geti átt sér stað, en það verður að vera samkomulag allra. Það er þjóðarnauðsyn að svo verði.

Ég vil frábiðja mig því að hlakka yfir stöðu útgerðar. Aftur á móti tel ég stöðuna mjög alvarlega. Ég hef með höndum tölur um afkomu sjávarútvegs frá 15. sept. s.l., sem eru vissulega orðnar gamlar tölur, en segja að stærri togarar tapi nú 15.1% og minni togarar 9.3%, en bátar 8.5%. Það er mjög alvarlegt hvernig útlitið er. Í þessum tölum er tekið tillit til verðhækkana og vaxtalækkunar í okt. Mig langar til að spyrja hæstv. sjútvrh. hvort hann hafi einhverjar nýjar tölur eða hugmyndir um hvernig staðan er. Mér býður í grun að staðan sé miklu verri, vegna þess að fiskveiðar hafa dregist enn saman.

Skuldir útgerðarinnar eru miklar og vissulega var athyglisverð sú hugmynd, sem kom hérna fram á síðasta fundi, að slá striki yfir þetta allt saman. Sjútvrh. var nú ekki hrifinn af því. Ég verð að játa að ég skil ekki hvernig það er hægt og hefði gaman af að heyra frekari útlistun hjá fjmrh. á því hverjir möguleikar eru á því, bæði í sjávarútvegi og á fleiri stöðum líka. Það er ekki vanþörf á því að strika út skuldir húsbyggjenda og skuldir alþýðuheimilanna í landinu. En það er svo margt furðulegt sem menn segja og hugsa, þannig að ekki er víst að allir fylgi því eftir. Hitt er annað, að undir venjulegum kringumstæðum reyna menn að bregðast við þessu dæmi og tala ekki í gríni eða fljótfærni, heldur reyna að leysa þann vanda sem fram undan er.

Eitt er það sem mér er tjáð varðandi skreið. Mér er skreiðin ansi hugleikin og það er nú kannske af því að það er mjög mikið um skreiðarverkun á því svæði þar sem ég bý. En mér er tjáð að það sé til stórtjóns fyrir skreiðarsölu hversu margir aðilar eru í því að selja skreið og valdi miklum erfiðleikum og verðlækkun, sem kemur þjóðarbúinu mjög illa. Ég veit að þetta heyrir að vísu undir viðskrh., en það væri gaman að vita hvaða hugmyndir sjútvrh. hefur í þessum efnum og hvort hann telur ekki ástæðu til þess að koma skreiðarsölunni í þann farveg að við þurfum ekki að vera að bítast við íbúa Nígeríu eða kaupmenn þar um það hversu með verði farið.