02.02.1984
Sameinað þing: 42. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2566 í B-deild Alþingistíðinda. (2236)

118. mál, staðfesting Flórens-sáttmála

Flm. (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. 10. landsk. þm. fyrir ummæli hans áðan úr ræðustól og stuðning við þessa þáltill. og jafnframt fyrir að lýsa því yfir að það sé sama hvaðan gott kemur. Það er nú þegar komið nokkuð á fjórða áratug frá því að þessi sáttmáli var gerður og af einhverjum ástæðum hefur dregist að Ísland, eitt örfárra Evrópulanda, hafi samþykkt ákvæði hans.

Sáttmálinn fyrir utan viðaukabókunina tekur til eftirfarandi 5 flokka eins og reyndar kemur fram í grg. Í fyrsta lagi er þar um að ræða bækur, tímarit og skýrslur og hvers kyns sérútgáfur. Í öðru lagi listaverk, safngripi með menntunarlegt, vísindalegt eða menningarlegt gildi. Í þriðja lagi sýningarefni og hvers kyns hljóðritað efni sem hefur menntunarlegt, vísindalegt og menningarlegt gildi. Í fjórða lagi vísindatæki og búnaður og það er það sem þessi till. snýst fyrst og fremst um. Í fimmta lagi vörur til afnota fyrir blinda.

Nú er það svo að ég tel mér nú kannske varla fært að kveða hér upp úrskurð um hvort þeir hlutir sem hv. 10. landsk. þm. nefndi, þ.e. efniviður til myndlistargerðar, fellur ótvírætt innan ramma þessa sáttmála. Mér er nær að halda, án þess að ég vilji þó fullyrða um það, að svo sé ekki, að hér sé átt við eins og fram kemur í viðauka B þar sem segir: Listaverk, safngripir, þ.e.a.s. fullbúin listaverk, en ekki efnivið til gerðar listaverka í þeim skilningi. Þannig að mér býður í grun að svo sé skv. þessum sáttmála eftir því sem ég hef best eða næst komist.

Hins vegar vil ég taka undir þau orð sem hv. þm. lét falla um nauðsyn þess að undanþiggja opinberum gjöldum efni til listsköpunar og lýsa stuðningi mínum við þau sjónarmið sem hún bar fram hér í sinni ræðu.