06.02.1984
Efri deild: 47. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2575 í B-deild Alþingistíðinda. (2245)

153. mál, höfundalög

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Það kann að vera að maður hafi ekki haft eyrun nægilega vel opin eða það ekki komið nægilega greinilega fram, en eru þegar uppi einhverjar hugmyndir um hvernig þessu gjaldi skal útdeilt, þ.e. með hvaða aðferðum eða með hvaða hætti menn ætla að láta þetta fé renna til þeirra aðila sem rétt eiga á því? Við búum við ákveðið fyrirkomulag á sviði hljómlistar, sem er í alla staði mjög ákjósanlegt, þar sem menn njóta þess beint hversu mikil afnot eru af verkum þeirra, en það verður ekki séð af því sem fyrir liggur hérna að hér sé um beint samhengi að ræða eins og fyrir hendi er í STEF-gjöldum. Mín fsp. hljóðar þannig: Hafa menn gert sér að einhverju leyti ljóst þegar, hvernig þær ætla að skipta tekjum af þessu gjaldi milli þeirra sem það eiga að fá?