06.02.1984
Efri deild: 47. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2576 í B-deild Alþingistíðinda. (2250)

153. mál, höfundalög

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég er nokkurn veginn sannfærður um að þessi mubla, sem ég stend í hér, er ekki smíðuð til að menn standi í pexi og leiki sér að því að gera öðrum upp skoðanir og orð sem ekki hafa verið sögð. Ég stend ekki og mun ekki standa að hækkunum á hefðbundnum sköttum. Ég hef aldrei nokkurn tíma látið orð falla um að ég mundi segja af mér vegna þeirra. Það er eitt hverju ég treysti mér til að standa að og annað hverju ég treysti mér ekki til að standa að. Ef það er ekki nóg að hv. þm. heyri mig segja það hér og nú bið ég hann um að vitna í þau ummæli mín, fá þau úr skjalasafni þingsins, annaðhvort frá blöðum eða þingtíðindum, hvenær ég hef látið þau orð falla að ég muni segja af mér vegna þessa. Ég mun ekki standa að skattahækkunum. Það er annað mál.

Hitt er svo rétt að komi fram, að tollskráin almennt er í endurskoðun. Þeirri endurskoðun er lokið. Það er verið að reikna út niðurstöður þeirrar vinnu og mun frv. verða lagt fram hér á Alþingi mjög fljótlega. Þá fær hv. þm. Eiður Guðnason og þingheimur aftur að sjá hvaða vinnu ég hef látið vinna í fjmrn. í þessum málum. Ég bið hv. þm. um að bíða þangað til frv. verður lagt fram með að dæma um hvað ég er að gera og hverju fjmrn. er að vinna að.

Ég bið hv. 6. landsk. þm. velvirðingar á því að ég svaraði ekki spurningu hans. Ég bara gleymdi því. Hann spurði um söluskatt á kvikmyndahúsum. Eins og ég gat um að mig minnir síðast þegar þetta mál var til umr., í síðustu viku ef ég man rétt, er þetta í endurskoðun í fjmrn. Ég get ekki sagt á þessari stundu hver niðurstaðan verður. En þetta er í vinnslu í fjmrn.