26.10.1983
Efri deild: 9. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í B-deild Alþingistíðinda. (226)

8. mál, ráðstafanir í sjávarútvegsmálum

Ólafur Jóhannesson:

Virðulegi forseti. Ég stend hér upp vegna þeirrar merkilegu yfirlýsingar sem fram kom frá fjmrh. fyrr í þessum umr. En áður en ég vík að því vil ég segja nokkur orð um þetta mál almennt. Að vísu er ekki miklu við að bæta það sem þegar hefur verið sagt um það frv. sem hér liggur fyrir. En ég vil láta í ljós ánægju með þá stefnu sem hæstv. ríkisstj. hefur markað að því leyti til, að hún vill og ætlar að halda hér stöðugu gengi. Ég hef nefnilega lengi verið þeirrar skoðunar og reynt að koma henni á framfæri, að það væri erfitt að koma nokkru viti í efnahagsmál hér á landi ef gengi væri á eins konar rennibraut. Ég loka auðvitað ekki augunum fyrir því að þau atvik geta komið til að óhjákvæmilegt sé að breyta gengi. Slíkt getur komið fyrir vegna þess t.d. að aflabrestur verði eða verðfall og annað slíkt. En ég held að undir venjulegum kringumstæðum sé ákaflega mikilvægt að reyna að halda stöðugu gengi. Og ég er sérstaklega ánægður einmitt með yfirlýsingu ríkisstj. þar um. En þegar ríkisstj. hefur markað þá stefnu finnst mér fyrir mitt leyti alveg óþarfi að vera að gefa undir fótinn með það að gengi skuli þó hreyft, aldrei þó nema innan ákveðinna marka. Ég álít að það eigi aldrei að gefa neitt undir fótinn fyrir fram um það að genginu verði breytt þó að ég neiti því ekki að slík atvik geta komið til, að það verði að snúast við þeim vandræðum sem að steðja með þeim hætti. Menn eru nú margfaldri reynslu ríkari um það að gengisfelling leysir aldrei vandann til neinnar frambúðar heldur er aðeins bráðabirgðaúrræði, sem hefur svo þær verkanir að vandinn verður stundum enn þá verri og meiri en hann var áður en til gengisbreytingar kom. Hæstv. sjútvrh. sagði að það hefði nú sannast að hún hefði síst verið of mikil, þessi gengisfelling sem ákveðin var og sem það frv. sem hér er til umr. er afleiðing af. Þetta má alveg rétt vera, miðað við aðstæður og miðað við það að ekki var hugsað til annars en gengisfellingar í því sambandi. En auðvitað hljóta menn að spyrja hvort ekki hefði verið kostur að finna úrræði til þess að lækka framleiðslukostnað og hafa gengislækkunina þá þeim mun minni. Þetta er búið og gert og þýðir ekki að tala um það. Eins er með þær ráðstafanir sem hér er verið að ræða um, að þó að auðvitað geti verið skiptar skoðanir um skiptingu í einstökum atriðum á ráðstöfun gengishagnaðar, þá er þetta, sem um er verið að ræða í því sambandi, búið og gert og verður ekki aftur tekið.

En ég verð að segja að það sem hefur komið fram merkilegast í þessum umr. er yfirlýsing, hugmynd skulum við segja, hæstv. fjmrh. um hugsanlega leið til lausnar á vanda útgerðarfyrirtækja. Sem sé sú leið að slá striki yfir skuldir þeirra. Ég geri ráð fyrir því að ef svona hugmynd og svona yfirlýsingu hefði verið varpað fram af Pétri eða Páli hefði hún ekki vakið sérstaklega mikla athygli. En það gegnir allt öðru máli þegar ráðh., ekki hvað síst fjmrh. setur fram slíka hugmynd. Fyrir mér er það svo að ég hef ekki fyllilega áttað mig á því enn þá hvernig þessa hugmynd ætti að útfæra. Og ég geri ráð fyrir því að þm. sem sitja í þessari hv. deild fýsi alveg eins og mig að heyra nánari greinargerð um hana. Ég er alveg sannfærður um að hvað sem því líður þá vill fólkið í landinu gjarnan heyra nánari útlistun á þessu. Það er dálítið annað þegar svona hugmynd kemur fram frá hæstv. ráðh. eða, eins og ég sagði áðan, frá einhverjum Pétri eða Páli. Maður verður nefnilega að ganga út frá því að svona — ja, við skulum segja merkileg hugmynd, því að vissulega er þetta nýstárleg hugmynd og merkileg og athygli verð og sjálfsagt að skoða hana, en menn ganga út frá því að þegar ráðh. kemur fram með slíkt þá sé það þrauthugsað. Ráðherrar gefa ekki yfirlýsingar — eða eigum við kannske að segja: þeir eiga ekki að gefa yfirlýsingar nema þær séu þrauthugsaðar. Þeir eiga alveg að vita hvað þeir eru að segja. Mér finnst margt varðandi þessa merkilegu hugmynd vera þannig að óljóst sé hvernig á að útfæra hana. T.d. finnst mér ekki hafa komið nægilega glöggt fram hvers konar skuldir hér er átt við. Það kann að vera að það hafi verið nokkur bending í máli ráðh. um það hvernig hann vildi takmarka það við hverjar skuldir væri átt. En þetta verður að liggja alveg ljóst fyrir. Eru þetta eingöngu skuldir við stofnlánasjóði? Eru þetta fjárfestingarskuldir? Eru þetta rekstrarskuldir eða því um líkt? Til þess að geta tekið þátt í umr. um þetta og athugun á þessari hugmynd verður það að liggja alveg fyrir við hvers konar skuldir hér er átt. En við skulum segja að það skýrist nú alveg. Við skulum t.d. gera ráð fyrir því að þarna sé átt við þær skuldir sem á útgerðarfyrirtækjum hvíla við fjárfestingarlánasjóði.

Það liggur í augum uppi að það mundi vera mikið hagræði fyrir útgerðarfyrirtæki að sleppa við þessar skuldir, ef þær yrðu strikaðar út. En ég held að það sé ekki nema tvennt til í því sambandi. Annaðhvort verður þá tilsvarandi tjón og tap að lenda á lánardrottnum þeirra eða þá, eins og oft er, að það eru ábyrgðarmenn að þessum skuldum og þá verða þær að lenda á ábyrgðarmönnunum. Mér dettur ekki í hug að gera því skóna að ráðh. hafi ekki gert sér þetta ljóst. Ég veit náttúrlega að hann hefur ekki verið að tala um það að skuldirnar bara hyrfu. Þær lenda á einhverjum og þá sennilega á stofnlánasjóðunum eða þá, að ég ætla, í flestum tilfellum á ríkissjóði, vegna þess að ég hygg að hann sé ábyrgðarmaðurinn á mörgum þessum skuldum og lánum. Spurningin er sú hvort fjmrh. telur ríkissjóð þannig í stakk búinn að hann geti tekið á sig slíkar skuldbindingar, hvort hann telur það úrræði að þessir stofnlánasjóðir séu settir á höfuðið. Þetta eru atriði sem þörf er að fá vel upplýst. Mér dettur ekki í hug að halda að hæstv. fjmrh. hafi varpað fram þessari hugmynd ég vil nú kalla það hugmynd en ekki tillögu — án þess að hugsa út í hvernig ætti að útfæra þetta nánar. Ég heyrði það held ég rétt í umr. hér að hv. 3. þm. Suðurl. tók mjög jákvætt undir þessa hugmund hæstv. fjmrh.

Hann hlýtur þess vegna að hafa gert sér grein fyrir því hvernig ætti að útfæra hana því að varla geta menn tekið afstöðu til svona hugmyndar án þess að hafa gert sér grein fyrir því.

En það eru sjálfsagt til fleiri möguleikar í þessu sambandi. Ég geri ráð fyrir að það sé út af fyrir sig rétt hjá fjmrh. að eins og horfir nú geti svo farið að sum útgerðarfyrirtæki greiði aldrei þessar skuldir og þær lendi því á stofnlánasjóðum eða ríkinu. Þó veit maður aldrei hvað framtíðin ber í skauti sínu. Það hafa oft orðið sveiflur í sjávarútvegi og ef við erum bjartsýn þá getum við kannske látið okkur detta í hug að þessi fyrirtæki geti rétt sig af. En hitt er víst, að hagur útgerðarfyrirtækja er ákaflega misjafn. Það held ég að fari ekki milli mála. Um sum fyrirtæki er e.t.v. lítil von. Þá spyr ég: Á fjmrh. við það, þegar hann kemur fram með þessa hugmynd, að það sé gert nú eins konar uppgjör og eins konar uppskurður á útgerðarfyrirtækjunum og þau fyrirtæki sem eru það illa á vegi stödd að lítil von er um framtíð séu þá gerð upp og stofnlánasjóðir eða ríkið, eða hvaða sjóður það er, gangi í það að taka nú þegar á sig tapið, gera sem sagt hreint borð í þessu efni? Þetta getur vel verið hugmynd sem er allrar athygli verð. En ég skal ekkert segja um það hvort það hefur verið þetta sem fjmrh. hafði í huga. Hann talaði nú meir kannske á þeim nótum að þetta væri yfir alla línuna og ætti að koma öllum útgerðarfyrirtækjum til góða.

Já, virðulegi forseti. Ég hef talið nauðsynlegt að óska eftir nánari útlistun á þessu. Það getur oft verið mikil freisting fyrir ráðh., ég veit það, að gefa yfirlýsingar, einkanlega þegar fjölmiðlar sitja fyrir þeim hvar sem er og reyna að toga út úr þeim upplýsingar. Og þá er kannske afsakanlegt að eitthvað fljóti með vanhugsað. En í þessu tilfelli er því ekki til að dreifa vegna þess að hér er þessi hugmynd borin fram í þessari hv. deild. Það er mjög nauðsynlegt að hæstv. fjmrh. taki af vafa í þessi efni. Hér eru svo margir aðilar sem þetta snertir að það verður að liggja alveg hreint fyrir hver hugmynd hans er. Það er ekki hægt að varpa slíku fram án þess að hafa hugsað það alveg til enda hvernig eigi að framkvæma þetta.

Þetta var það sem ég vildi koma hér á framfæri. Ég veit að hæstv. fjmrh. er ráðagóður maður og kjarkmaður mikill. En einhvern tíma var nú sagt: Er þetta hægt, Matthías? Og ég vil fá að heyra hvernig hann ætlar að framkvæma þessa hluti.