06.02.1984
Neðri deild: 43. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2592 í B-deild Alþingistíðinda. (2263)

Umræður utan dagskrár

Gunnar G. Schram:

Herra forseti. Fyrirspurn hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar var vissulega tímabær, ekki síst í ljósi þeirra radda sem heyrst hafa utan af landsbyggðinni um efnisatriði þess máts sem hv. þm. bryddaði upp á. Ég vil taka undir þau orð hans að það er nauðsyn að staðið verði við þau fyrirheit sem gefin voru í grg. með stjórnarskrárfrv. á s.l. vori um það að jöfnuð skyldi aðstaða manna sem mest og á sem flestan hátt miðað við búsetu í landinu. Þar er um sanngjarnt mál að ræða og þar er um réttlætismál að ræða.

Það er tímabært að því máli verði gefinn miklu meiri gaumur en gert hefur verið og þá í þeirri mynd sem hv. þm. nefndi og einnig á ýmsan annan hátt sem Alþingi hefur á valdi sínu. En fyrst og fremst er það vitanlega með löggjöf og ráðstöfunum stjórnvalda, sem uppsprettu sína geta átt hér á Alþingi, sem þessum málum verður betur skipað en nú er.

Hinu er ekki að leyna, og það kemur einmitt í ljós t.d. vegna þeirra yfirlýsinga sem við höfum heyrt nú á síðustu dögum um stjórnarskrármálið og kosningarréttarmál, að þessum tveimur málum er stundum illilega og ranglega blandað saman. Það hefur átt sér stað nú.

Ég nefndi áðan að það mál sem hv. þm. orðaði hér væri hið mesta réttlætismál. Það væri hins vegar hið mesta ranglætismál ef leiðrétta ætti það óréttlæti, sem búsetan í landinu og mismunandi skilyrði hafa í för með sér, með því að halda áfram eða gera enn verra hið mikla og stórtæka ranglæti sem tíðkast hefur í kosningarréttarmálum hér á liðnum árum og áratugum. Við stjórnarskrárbreytinguna síðustu, 1959, var stigið spor í rétta átt í þessum efnum. Þá náðist það hlutfall, við getum kallað það rangindahlutfall eða réttlætishlutfall eftir því hvernig menn líta á þetta mál, að íbúar í þéttbýli fengu atkvæðisrétt sem var meir en helmingi minni miðað við íbúa sums staðar í dreifbýlinu. Hlutfallstalan var 1:2,5. Þetta töldu menn viðunandi margir hverjir og raunar flestir hverjir miðað við að ekki er óeðlilegt að einhver munur sé þarna á. Stærðfræðilegt jafnrétti næst aldrei í þessum efnum.

Síðan seig á ógæfuhliðina. Ég minni aðeins á hvernig ástandið var hér í þessum efnum áður en þingflokkarnir tóku höndum saman á síðasta ári og komu fram mjög mikilvægri leiðréttingu. Þá var málum svo komið að þeir sem búa í Reykjavík og Reykjaneskjördæmi höfðu fjórum sinnum minni atkvæðisrétt en margir sem í dreifbýli búa. Þetta var hróplegt ranglæti vegna þess einfaldlega að kosningarrétturinn er mannréttindi. Að svipta menn á þennan hátt kosningarrétti þannig að menn hafi aðeins 1/4 hans miðað við aðra borgara landsins eftir búsetu er mikið og stórfellt ranglæti. Þess vegna var hér um mikið gæfuspor að ræða, mikið framfaraspor, þ.e. samkomulag þingflokkanna á síðasta ári sem þó gekk ekki lengra en að færa klukkuna til baka rúma tvo áratugi. Hlutfallið sem þá náðist fram var u.þ.b. 1:2,5 eða rétt innan við það. Enn eru því íbúar á þéttbýlissvæðunum hér við Faxaflóa varla hálfdrættingar í kosningarréttarefnum á borð við þá sem víða í dreifbýlinu búa.

Ég hélt satt að segja að um þetta hefði náðst góð samstaða í þingsölum. Mér var að vísu kunnugt um að í hugum ýmissa þm. var gamla formúlan 1:4 uppáhaldsformúlan. Engu að síður virtist vera friður um þetta samkomulag. Ég vona að sá friður geti haldist og ég tek undir það með hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni að það er hin mesta nauðsyn á því að frumvörpin nái fram, stjórnarskrárbreytingin um fjölgun þingmanna og breytingar henni samfara og einnig kosningalagafrv. sem lagt var fram en ekki afgreitt á síðasta þingi.

En ég vara við því að blanda þessum tveimur málum saman vegna þess sem ég hef hér sagt varðandi kosningarréttinn. Frá því verður ekki hvikað og raunar hefði átt að ganga miklu lengra í jafnréttisátt, en sú krafa var ekki gerð. En ef á að fara að velta málinu öllu hér upp á nýjan leik þá verður sú krafa vitanlega gerð. Réttlætið er vitanlega það að menn hafi sama kosningarrétt án tillits til þess hvar þeir búa á landinu. Hins vegar er hitt viðunandi, a.m.k. í bili.

Ég vara við því að velta málinu upp á þennan hátt vegna þess að það er mikill vilji fyrir því í þéttbýlinu að bæta úr því misrétti sem ríkir vegna búsetu í landinu með öðrum ráðum sem þarna eiga við og tiltæk eru og eðlileg og sanngjörn. En það væri kannske hætt við því að þeim vilja yrði spillt ef reka á trippin á þennan máta. Ég vil þess vegna minna á þessi atriði þegar sú umræða á sér stað hér á þingi sem nú stendur.

Í öðru lagi vil ég víkja að því mikla máli sem varðar heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar, úr því að farið er að nefna það mál. Á það var minnst að fyrrv. forsrh., Gunnar Thoroddsen heitinn, bar fram á síðasta þingi frv. sem fól í sér heildarendurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Það var ávöxtur af mjög löngu, ítarlegu og vel unnu starfi stjórnarskrárnefndar á liðnum árum. Um það frv. varð víðtæk samstaða í nefndinni milli tveggja flokka sérstaklega sem voru fylgjandi frv. í öltum atriðum að því er heita má. Tveir flokkanna sem fulltrúa áttu í nefndinni — en þar sátu vitanlega fulltrúar allra þingflokka — höfðu hins vegar ýmsa fyrirvara og höfðu gert brtt. um allnokkrar greinar þessa frv.

Nú er það rétt eins og hæstv. forsrh. sagði að þingflokkarnir voru á síðasta ári beðnir um aths. og tillögur í þessu efni ugglaust með það í huga að ríkisstj. flytti þetta frv. á þessu þingi. En eins og hæstv. forsrh. sagði hafa engar slíkar tillögur borist. Ég er í sjálfu sér ekki mjög undrandi á því vegna þess að vitanlega hafa þingflokkarnir allir átt sína fulltrúa og fleiri en einn í stjórnarskrárnefnd. Á liðnu þingi voru þessi mál mjög ítarlega og margsinnis rædd í þingflokkunum. Í stjórnarskrárnefnd komu fram sjónarmið þingflokkanna sem fulltrúar þeirra þar lögðu fram. Það má segja að þar af leiðandi hafi öll þau sjónarmið sem menn höfðu í huga verið lögð þar á borðið og ekki sé mikils meir að vænta. Þess vegna veltir maður því fyrir sér hvort ekki væri í sjálfu sér jafnskynsamlegt eða skynsamlegra ráð nú fyrir ríkisstj. að flytja þetta heildstæða frv. um endurskoðun á allri stjórnarskránni í þeirri mynd sem fyrrv. forsrh. lagði það fram. Það gengi síðan til stjórnarskrárnefndarinnar og til þingnefnda sem kjörnar eru til að athuga það. Mér býður í grun að ef bíða á eftir álitsgerðum eða tillögum þingflokkanna sé hæpið að þetta mál verði lagt fyrir þetta þing.

Nú má e.t.v. segja að það bráðliggi ekki á að koma málinu fram á þessu þingi vegna þess að sé stjórnarskrárfrv. samþykkt þá ber þegar í stað að rjúfa þing og ég er ekki viss um að hv. þm. óski eftir þingrofi nú í vor. En á það er að líta að hér er um ákaflega viðamikið og merkilegt frv. að ræða sem varðar grundvöll íslenskrar stjórnskipunar. Það þarf mikla athugun og mikla skoðun á þingi og margra mánaða skoðun og umfjöllun hjá þingflokkunum og í stjórnarskrárnefnd. Þar af leiðandi held ég að ekki komi til greina að samþykkja slíkt frv. nú þó svo að það sjái dagsins ljós á þessu þingi. Í ljósi þessara athugasemda minna vil ég láta í ljós þá skoðun við hæstv. forsrh. og aðra hæstv. ráðherra að þeir taki til athugunar hvort á að láta það dragast öllu lengur að leggja fram stjórnarskrárfrv. fyrir Alþingi svo að Alþingi geti á lögformlegan máta tekið það til meðferðar og hafið um það umræður.