06.02.1984
Neðri deild: 43. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2598 í B-deild Alþingistíðinda. (2268)

Umræður utan dagskrár

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Ég ætla mér ekki að efna hér til neinna efnislegra umr. um stjórnarskrármál, en hins vegar er ástæða til að fæða svolítið um æskileg vinnubrögð stjórnarskrárnefndar í tilefni af svörum hæstv. heilbrmrh. og formanns nefndarinnar.

Það er hverju orði sannara að á þessum fyrsta og eina fundi sem stjórnarskrárnefnd hefur haldið eftir að þetta þing kom saman var samþykkt að senda þingflokkunum frv. stjórnarskrárnefndar ásamt með séráliti og till. Alþfl. og Alþb. Í mínum huga var það að sjálfsögðu fyrst og fremst gert með hliðsjón af því að eftir seinustu kosningar eiga tveir nýir þingflokkar, sem ekki hafa átt beina aðild að málinu, setu á þingi. Það var þess vegna alla vega nauðsynlegt af þeim sökum að senda málið með formlegum hætti þeim til umfjöllunar. Hitt er annað mál hvort það getur orðið til frambúðar að stjskrn. ætli að haga störfum sínum þannig með bréfaskriftum milti þingflokka. Ég spyr þess vegna hæstv. ráðh. og formann stjskrn. hvort hann hugsi sér að nefndin komi ekki saman og sinni ekki öðrum störfum fyrr en honum hafa borist bréf frá þingflokkum. Ég vil vekja athygli á að þeir fjórir þingflokkar sem áttu sæti á seinasta þingi höfðu allir fjallað mjög ítarlega um þetta mái. Þeir höfðu átt þátt í því sem samkomulag tókst um í áliti stjskrn. og enn fremur skilað þar sérstökum till. og sérstökum grg. og markað sinn ágreining.

Ég held að stjskrn. geti ekki haldið áfram með þeim hætti að bíða eftir bréfaskriftum og grg. frá þingflokkum. Ég nefni eitt dæmi. Eitt af veigameiri málum, sem algjörlega er ólokið í starfi stjskrn. er spurningin um fyrirkomulag á persónukjöri. Ég get ekki ímyndað mér að það séu æskileg vinnubrögð í starfi nefndar af þessu tagi að vinna ekki að tillögugerð um það mál nema í formi bréfaskrifta, þ.e. taka við bréfum og álitsgerðum frá þingflokkum. Ég held að nefndin hljóti að þurfa að koma saman. Á seinasta þingi voru reyndar lagðar fram tvær till. um fyrirkomulag persónukjörs. Þær þarf m.a. að taka til afgreiðslu og athugunar, fyrir utan það að þetta mál er af hálfu nefndarinnar algjörlega óunnið.

Að því er varðar þriðja efnisatriðið, sem var þingskapalög og starfshættir Alþingis, hefur það gerst á þessu hausti að þingflokkarnir ásamt með forsetum þings hafa skipað sérstaka vinnunefnd í því efni. Vel má þess vegna vera að það sé ekki lengur á verksviði stjskrn., en engu að síður á nefndin ólokið mörgum verkefnum.

Ég vil láta það koma skýrt fram sem mína skoðun að ég tel það óeðlilegt að nefnd af þessu tagi ætli sér að vinna að málinu aðeins eftir því sem henni berast bréf og álitsgerðir frá þingflokkum. Ég held að þau vinnubrögð geti ekki gengið. Þess vegna held ég að ef það vakir fyrir hæstv. ráðh. og formanni stjskrn. og stjórnarmeirihlutanum að vinna að þessu máli, þá verði það ekki gert með öðrum hætti en þeim að kalla saman til starfa þá nefnd sem falið hefur verið að vinna að málunum.