26.10.1983
Efri deild: 9. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í B-deild Alþingistíðinda. (227)

8. mál, ráðstafanir í sjávarútvegsmálum

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég skal reyna að svara einhverju af því sem til mín var beint. Matthías og Matthías — þetta er eins og séra Jón og svo bara venjulegur lítill manni. Það eru ekki allir menn sem sjá hlutina í sama ljósi. Sumir Matthíasar segja: Þetta er ekki hægt. Sumir Matthíasar segja: Það er bókstaflega ekkert hægt að gera. Það er langbest að vera á framfæri félagsmálastofnananna. Margir aðrir Matthíasar vinna vel fyrir sér. (Gripið fram í: Hvað segja Matthíasarnir í ríkisstj.?) Ég ætla að vona að fyrrv. hæstv. ráðh. viti að þeir vinna sæmilega fyrir daglegu brauði. Ég vona líka að hann fái svör þaðan. En það er með menn eins og allt annað. Menn sjá hlutina í mismunandi ljósi. Ég hef eytt miklu af minni ævi í að reka fyrirtæki, mismunandi stór, stundum mörg í einu, svo að ég hef séð mismunandi möguleika. Ég hef tekið við fyrirtækjum í mjög miklum vanda og þau ganga vel í dag. Ég lít ekki á eitt og eitt fyrirtæki í sjávarútvegi. Ég álít að við hér, kjörnir fulltrúar, séum eins konar landsfeður, svo ég tali nú ekki um ríkisstj., sem ber skylda til að líta á þjóðina og landið sem eitt fyrirtæki. Og ef við lítum á það frá þeim sjónarhóli þá vitum við að daglega er verið að bjarga fyrirtækjum í rekstri, fyrirtækjum sem hafa tapað í lengri tíma en eru stór vinnumarkaður. Bankarnir, sjóðir eða lánastofnanir aðrar hafa — af mistökum kannske — veitt þeim lán til of langs tíma, án þess að gera það upp, af ótta við að viðkomandi skuldbindingar falli á þessa sömu sjóði, að sjóðsstjórnirnar verði endanlega ábyrgar fyrir því sem þær hafa verið að gera í langan tíma. Og vandinn vex og vex. Það endar náttúrlega með því að viðkomandi sjóðir springa.

Og þannig er að verða ástatt um sjávarútveginn. Hann er að springa. Ekki vegna þess að upphaflegu lánin hafi kannske verið svo há eða að um erlend lán hafi verið að ræða, heldur vegna þess að erlendu lánin, sem eru yfirleitt tekin á miklu betri kjörum en innlend lán, eru færð yfir á innlenda vexti. Og þessum tilkostnaði, vöxtunum háu hér og verðbólgu, sem hefur hlaðist sem kostnaður á þessi fyrirtæki og á þessi lán, hefur svo verið skuldbreytt yfir á höfuðstólinn. Þannig er höfuðstóllinn alltaf að stækka og stækka og endar með því að reksturinn gengur ekki betur en það, þó hann standi kannske undir sér rekstrarlega, að hann hefur ekki fyrir afborgunum og vöxtum. Það þýðir svo að það verður að hlaupa inn í sömu sjóðina og biðja um fyrirgreiðslur, annaðhvort í formi framlengingar eða nýrrar erlendrar eða innlendrar lántöku.

Þessi snjóbolti heldur áfram að hlaða utan á sig. Við erum öll áhorfendur að því. Þess vegna sagði ég í Vestmannaeyjum að einn möguleikinn — sem ég er alveg sannfærður um að er fjarlægur möguleiki vegna þess að ég held að við séum ekki komnir á það stig enn þá að gera okkur grein fyrir því hvernig þarf að leysa þennan mikla vanda, við höfum ekki peninga til að borga upp okkar skuldir, fyrirtækin hafa þá ekki — væri að fara á hinn endann, sjá hvað við gætum gert án peninga. Það er margt hægt að gera í fyrirtækjum án þess að hafa peninga ef við lítum á þjóðfélagið sem eina fjölskyldu sem þarf að hlaupa undir bagga með hér og þar.

Þessi hugmynd, sem kom fram hjá mér í Vestmannaeyjum sem ein hugsanleg leið til að leysa vandann, kom inn í þessa hv. deild sem fsp. til mín frá hv. 8. þm. Reykv. Hér er því ekki um neina tillögu að ræða. En ég er afskaplega ánægður með og þakklátur fyrir það að fsp. skyldi koma hér inn. Það var bara spurt hvort ég hefði viðhaft þessi orð þarna — sem einn möguleika, en ég er feginn að hún skuli vekja svo miklar umr. með alþm. og þjóðinni að það er farið að hugsa í allar aðrar áttir: Hvernig er hægt að gera þessa hugmynd að veruleika? Það út af fyrir sig er ánægjuefni. Það getur verið, eins og oft vill verða þegar menn setjast niður og byrja að hugsa í alvöru um lausn á einhverjum vanda, að hugmyndin, sem upphaflega kemur á borðið, geti orðið til þess að aðrar hugmyndir fæðist og vandinn verði leystur.

Ég er ekki í nokkrum vafa um það, eins og við hljótum öll að vera sannfærð um, að þessi fyrirtæki eitt og eitt leysa aldrei sinn vanda. Þessi baggi fellur á sjóðina, hvort sem það heitir ríkissjóður, stofnlánasjóður, Fiskveiðasjóður eða bankarnir, Framkvæmdastofnun eða eitthvað annað. Þessi lán koma ekki til baka. Við vitum það. Og það þarf að finna lausn sem er eitthvað í þá átt sem ég er að tala um.

Við skulum bara taka sem dæmi þessi erlendu lán. Það er spurt: Hvernig á þá að borga erlendu lánin, á að strika þau út líka? Við skulum segja að þau séu ekki strikuð út. En hvað haldið þið að þessi erlendu lán séu í krónutölu mörgum sinnum hærri í dag en þau voru upphaflega? Og halda áfram að hlaða á sig kostnaði vegna verðbólgu og hárra vaxta hérlendis. Hvað haldið þið að gerðist ef við tækjum bara þann vaxtakostnað, þann innlenda kostnað vegna verðbólgunnar, sem hefur hlaðist á þessi lán, og eftir stæðu bara eðlilegir vextir, vextir af þessum lánum eins og þeir eru erlendis frá, uppreiknaðir til baka? Það mundi gjörbreyta stöðu sjávarútvegsins, bara það eitt að afskrifa það sem innlent er og verður aldrei borgað, en viðurkenna að það eru ekki peningar í þjóðfélaginu, það eru ekki peningar í þeim verðmætum sem eiga eftir að koma á land til að standa undir kvöðunum.

Við getum ekki ráðið því hvaða verð við fáum fyrir afurðir okkar erlendis. Það eru tiltölulega litlar sveiflur frá einum degi til annars eða frá einum mánuði til annars á mörkuðunum. Sveiflurnar sem við þurfum að fá eru ekki í gengislækkunum, þær eru í margfölu verði á erlendum mörkuðum, ef við eigum að geta staðið undir innlendum kostnaði sem við höfum sjálf búið til. Öll þessi umr. fullvissar mann bara um það að það er ekki tímabært enn þá fyrir íslenska þjóð að hugsa í þeirri stærðargráðu að koma sér upp úr aurunum og fara að hugsa í krónum. Við þurfum að leysa vandamál sem er komið í þá stærðargráðu þar sem fiskiðnaðurinn er.

Það er ekkert nýtt að ríkissjóður taki á sig skuldabagga. Við erum að reyna að leysa vanda fyrirtækis ríkisins í sjávarútvegi á Siglufirði. Hvar haldið þið að það lendi? Ríkissjóður er eigandi að 75% af fyrirtækinu, bæjarsjóður hér um bil að því sem eftir er þó einhver einkaaðili sér þar með. Á hvern haldið þið að það falli? Haldið þið að það falli á manninn á götunni? Það fellur á ríkissjóð og á þjóðina eða manninn á götunni í gegnum hann — í sköttum. Þetta eru engar nýjar aðgerðir, þetta er uppsafnaður vandi þjóðfélagsins um langan tíma.

Og hvað skeður — ef við getum verið sammála um að þessar skuldir haldi áfram að hlaðast upp næstu árin eins og þær hafa gert síðustu mörg ár — ef við strikum þetta út? Það skeður ekkert annað en að það kapítal sem er í veltunni heldur áfram að vera í veltunni. En það kapítal sem er skráð og gerir sjóðina ríka á pappírnum, það hverfur. Það er ekkert annað sem skeður. Og þetta skeður daglega í smærri stíl hjá litlum fyrirtækjum, að það er verið að gefa þeim eða einstaklingum eftir skuldir, vegna þess að það er ekki einu sinni hægt að gera þá gjaldþrota vegna eignaleysis. Það er ekkert annað er. mannorðið sem er eftir.

Það getur vel verið að alþm. vilji bíða eftir því að það sama komi fyrir okkur og hefur komið fyrir aðrar þjóðir, að ekkert verði eftir annað en mannorðið til að bjóða upp og einhver önnur þjóð verði að taka við okkur. Það hefur skeð áður. Allir vita við hvað ég á.

Nei, ég er ekki að verja þessa hugmynd. Ég var að svara því hvort ég hefði tekið þannig til orða á fundi í Vestmannaeyjum. En það var ekki tillaga, það var einn möguleiki sem ég talaði um. Og þetta er sá möguleiki sem ég sé, hvort sem ég er fjmrh. eða ekki fjmrh. Ég hef hugsað mér að halda áfram að tala frá hjartanu og af sannfæringu, ef ég álít að ég sjái leiðir, þó aðrir sjái þær ekki.