06.02.1984
Neðri deild: 43. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2600 í B-deild Alþingistíðinda. (2274)

Umræður utan dagskrár

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég tel út af fyrir sig þarft að vakin er athygli á þessu máli af hv. málshefjanda hér, 5. þm. Vestf. Misréttismálin varðandi landsbyggðina hrópa í himininn á mörgum sviðum. En ég hafði ekki gefið upp von um að á þessum málum yrði tekið í samræmi við þær yfirlýsingar sem hér voru gefnar á síðasta þingi í samband við það frv. sem þá var til meðferðar og tengdist kosningalagabreytingum. Mér sýnist af umr. til þessa að það ríki hins vegar einhver trúnaðarbrestur milli manna innanvert í Framsfl., miðað við þau ummæli sem hér hafa fallið. En ég vil að það komi fram að innan Alþb. voru þessi mál til ítarlegrar umr. á síðasta þingi í tengslum við meðferð mála þá og síðan hefur það bréf sem sent var þingflokkunum frá stjskrn. verið kynnt í þingflokki Alþb. og verið áformað að ræða þessi mál enn frekar á þeim vettvangi.

Hins vegar liggja fyrir margar till. af hálfu Alþb. varðandi breyt. á stjskr. Þær eru ávöxtur af umr. sem fór fram í fyrra um þessi mál á okkar vettvangi. Ég tek undir að um þessi mál þarf að fjalla og það er mjög æskilegt, svo ekki sé meira sagt, að þar geti orðið samferða kosningalagabreyting og leiðrétting í þeim efnum þar sem sárast brennur á landsbyggðinni varðandi misrétti miðað við aðstöðu eftir búsetu.

Ég vil svo að endingu taka undir það, að sjálfsagt og eðlilegt er að hinir nýju þingflokkar, sem nú eru á Alþingi og ekki eiga aðild að stjskrn., fái tækifæri til að koma fram með sín sjónarmið og eftir atkvikum að kosin verði ný nefnd ef rétt þykir að þeir fái þar beina aðild. Ekki hefði ég á móti því að svo yrði.