07.02.1984
Sameinað þing: 44. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2615 í B-deild Alþingistíðinda. (2287)

146. mál, umhverfismál

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég fagna þessari fsp. og því að uppi eru áform um að leggja fram frv. um selveiðar. Jafnframt vil ég spyrja hæstv. sjútvrh. hvort sjófuglar, mávar, geti e.t.v. verið aðilar sem hýsi þær lirfur sem nauðsynlegar eru í þeirri hringrás að hringormurinn komist í fiskinn. Sú eina skilgreining sem á þessu er gefin er sú að það þurfi að vera dýr með jafnheitu blóði sem þarna er um að ræða. Það eru engin rök sem mæla með því að hugsanlegt sé að sú aukning hafi orðið á hringormi sem orðið hefur ef selurinn er einn sekur. Sýnist mér að rannsaka þurfi það sérstaklega með sjófugla. Gjarnan vildi ég vita hversu fróður hæstv. ráðh. er um þessi mál og kæmi sér þá vel fyrir okkur hina ef allur vafi yrði frá okkur tekinn í þessum efnum.