07.02.1984
Sameinað þing: 44. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2615 í B-deild Alþingistíðinda. (2288)

146. mál, umhverfismál

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég á von á því að hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson sem fyrrv. kennari og skólastjóri sé betur að sér í dýrafræði en ég. Ég get því miður ekki upplýst um þessa hringrás enda hygg ég að það sé rétt að rannsóknir séu ekki nægilega miklar á þessu sviði til þess að geta fullyrt um það. Hitt er svo annað mál að sannað hefur verið samband á milli selsins og orms í fiski. Hins vegar er vitað að útselurinn er miklu verri að þessu leyti en landselurinn. Það er kannske sérstaklega honum sem þarf að farga eftir því sem nokkrir möguleikar eru til því að hér er um slíkt vandamál að ræða í fiskiðnaðinum og um svo miklar tekjur að ræða fyrir landið að ég vil að vísu ekki fara með þær tölur. En ef ormurinn væri ekki til staðar í fiskinum og ekki þyrfti að eyða þeim vinnukrafti í frystihúsunum til þess að tína hann úr væri hægt að borga þar allmiklu betra kaup, ekki er ég í nokkrum vafa um það. Þannig að hér er að sjálfsögðu um mikið hagsmunamál að ræða.

Ég tek undir það með hv. þm. Guðmundi Einarssyni að mikilvægt er að góð regla sé á þessum hlutum. Því miður er ekki hægt að nýta selinn með þeim hætti sem áður var og var hvatning til þess að halda honum í skefjum. Það er í raun og veru leitt til þess að vita hvað lítill skilningur er meðal annars ágætra náttúruverndarmanna í Evrópu á lífríkinu hér norður í höfum. Það er fullur skilningur á því meðal náttúruverndarmanna sem lifa í því umhverfi sem við lifum í en því miður hafa ýmsir sem berjast fyrir þessum málum annars staðar í heiminum afskaplega lítinn skilning á því hvað hér er í húfi.