07.02.1984
Sameinað þing: 44. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2616 í B-deild Alþingistíðinda. (2289)

146. mál, umhverfismál

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég fagna því að sjálfsögðu að skynsamleg löggjöf verði sett um nýtingu selastofnsins. Selveiði er gamall bjargræðisvegur á Íslandi og meðan hún var stunduð að eðlilegu marki ríkti hér jafnvægi í náttúrunni. Hefðbundin nýting selastofnsins hefur nú minnkað en það virðist helst haldast í hendur við fjölgun hringorma í fiski og verður fjölgunin a.m.k. að hluta til að skrifast á fjölgun selastofnsins.

Ég vil taka undir það sem sjútvrh. sagði áðan að vandinn af fjölgun hringorma í fiski er gífurlega mikill, undurmargar vinnustundir fara í að plokka orma úr fiski okkar. Nauðsynlegt er að halda þessum selastofni innan einhverra skynsamlegra marka. En það verður að gerast með siðsamlegum hætti. Selastofninn er auðlind og þessa auðlind ber okkur að nýta og halda þar með jafnvægi í náttúrunni. En ekki má gera það með siðlausu drápi eins og menn því miður leiddust út í fyrir tveimur árum. Við getum nýtt þennan sel og nýtum sem dýrmæta fæðu handa refum okkar sem nú verður að fara að flokka með búfé. Þetta eru sem sagt veiðar en ekki dráp. Á það þurfum við að leggja áherslu og veiða þessi veiðidýr með siðsamlegum hætti.

Ég er á því að við megum ekki eyðileggja möguleika þeirra manna sem vilja með hefðbundnum hætti nýta sínar jarðir og selveiðihlunnindi forn sem þeim hafa fylgt um langan aldur eins og þeir Vestur-Húnvetningar gera.

Ég vil líka taka fram að það er okkur ákaflega slæm auglýsing á alþjóðavettvangi að standa illa að þessum veiðiskap. Við köllum yfir okkur ómælda andúð manna víðs vegar um veröldina með því að skjóta sel, rífa af honum neðri kjálkann og skilja hann eftir. Við höfum ekki efni á því að kalla að óþörfu yfir okkur slíkar dembur í kjölfar hundamáls og fleiri leiðindaatvika.