26.10.1983
Efri deild: 9. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í B-deild Alþingistíðinda. (229)

8. mál, ráðstafanir í sjávarútvegsmálum

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég held að það sé öllum að verða afar vel ljóst, að í íslenskum sjávarútvegi blasir nú víða við neyðarástand. Án þess að ég ætli nokkuð að fara að rekja hér efnislega þann fund sem þm. Vesturl. áttu með fulltrúum útgerðarmanna á Akranesi er alveg ljóst að ástandið er, held ég, miklu alvarlegra en menn gerðu sér grein fyrir. Ég held að það eigi ekki bara við um þann stað — ég held að það eigi við um langtum fleiri staði, því miður. Og ég verð að segja eins og er, að ég hef ekki heyrt nokkurn mann hlakka yfir því, og vonandi gerir það ekki nokkur Íslendingur. En hitt er svo annað mál, að auðvitað leiða menn getum að því hvers vegna svona er komið og hvers vegna ástandið er svona alvarlegt. Þar hafa menn ýmsar skýringar. Ég ætla ekki að fara langt út á þær brautir í þessari umr. og það mál verður heldur ekkert skýrt í einni ræðu af einum manni. Það þarf miklu meira til.

Hæstv. fjmrh. sagði áðan að hann mundi halda áfram að tala frá hjartanu. Það er gott. Og auðvitað eru tilfinningar, eins og ágætur maður sagði, staðreyndir sem verður að taka tillit til í pólitík. En þó að gott sé að láta hjartað ráða verður skynsemin að fá að vera með í ráðum líka. Annars miðar okkur ekki langt.

Hæstv. ráðh. hefur dregið verulega í land með sína yfirlýsingu og það var skynsamlegt hjá honum. Hann segir nú að þessi skuldaútstrikun sé aðeins einn möguleiki og einn fjarlægur möguleiki. Ég held hún sé afar fjarlægur möguleiki. Mér hefur verið á það bent, að ef ætti nú að fara að jafna skuldum Fiskveiðasjóðs niður á kjósendur, ef þeim væri jafnað niður á kjósendur hæstv. fjmrh., ætli það yrðu ekki 50 þús. á mann. Ég held að umr. á þessum brautum sýni okkur nákvæmlega ekki neitt. Hún er ekki til neins.

En það er svo aftur annar handleggur, sem er ekki síður alvarlegt mál og hæstv. ráðh. kom að, að ef við héldum áfram á sömu brautum ættum við kannske senn ekkert eftir nema mannorðið og það kannske ekki mjög gott mannorð. Það er alveg rétt, að svona hefur farið fyrir ýmsum. Og ég vil minna hæstv. ráðh. á það í fullri vinsemd, að sú ríkisstj. sem hann umfram aðra menn bar ábyrgð á, sú hin síðasta sem hér sat, var býsna dugleg við að safna erlendum skuldum til að fjármagna rekstrarhalla af ýmsu tagi. Við þm. Alþfl. vöruðum mjög eindregið við þessu öll þau ár sem sú hæstv. ríkisstj. sat. Það var ekki tekið tillit til þeirra aðvarana. Ég held að við getum verið sammála um það, hæstv. fjmrh., að það hefði betur verið hlustað og betur verið farið eftir tillögum okkar. En það er liðin tíð og við eigum auðvitað fyrst og fremst að horfa fram á við.

Auðvitað verðum við að gera einhverjar þær ráðstafanir sem tryggja að ekki komi til neyðarástands í öðru hverju eða næstum hverju sjávarplássi á Íslandi, vegna þess að þá ríkir neyðarástand um allt þjóðfélagið. Það er því miður þannig komið að þetta virðist blasa við. Og þá er ekki aðalatriðið að spyrja: hverjum var það að kenna? heldur spyrja: hvað eigum við að gera? Það er auðvitað númer eitt.

En ástæðan til þess að ég kvaddi mér hljóðs hér var m.a. sú, að hæstv. fjmrh. vék að málefnum fyrirtækisins Þormóðs ramma á Siglufirði, sem er að ég hygg 70% í eigu ríkisins. Nú munu skuldir þessa fyrirtækis, ef mér ekki skjöplast, vera eitthvað töluvert á annað hundrað milljónir. Það voru mjög athyglisverð ummæli í útvarpi í morgun höfð eftir einum af forráðamönnum þess, að ég hygg, að þessi mál yrði að leysa fyrir sunnan, en þar fyrir utan ættu embættismenn fyrir sunnan ekkert að vera að skipta sér af svona fyrirtækjum. Mér fannst þetta nokkuð einkennandi fyrir það sem hefur verið að gerast í þessu þjóðfélagi á þessu sviði, að þegar vandamálin koma upp og búið er að hranna þeim upp er allt í lagi að vísa þeim eitthvað annað og þá skulu aðrir menn leysa þau, en þeir sem hafa séð um rekstur fyrirtækisins segja síðan: Nú get ég.

En ég vildi spyrja hæstv. fjmrh. einfaldrar spurningar. Það hefur líka komið fram í fjölmiðlum að þetta fyrirtæki, Þormóður rammi, er að gera tilboð í eitt af hafrannsóknaskipunum sem verið er að selja. Ég heyrði ekki betur en það tilboð væri upp á tugi milljóna. Ég þori ekki að fara nákvæmlega með það, hvort það voru 65 millj., það voru nefndar tvær tölur þarna í sömu andránni, en það var annaðhvort 65 eða 48. Hvernig stendur á þessu þegar fyrirtæki er svona hrikalega skuldugt og er að sæta því núna, eftir því sem sagt er, að stjórn þess verði vikið frá og við taki önnur stjórn eða stjórnarnefnd? Er það með samþykki ráðh.. og hans rn. að þetta fyrirtæki er að búa sig undir að stofna til stórra fjárskuldbindinga — fyrirtæki sem þegar skuldar hátt á annað hundrað millj. kr.? Mér leikur aðeins forvitni á að vita hvort þessi fjármálaráðstöfun, þetta boð, er með samþykki rn. Og ég verð satt að segja að lýsa furðu minni á þessu máli. Ég vona að svo sé ekki og hygg að hæstv. ráðh. hafi kannske komið þetta jafnmikið í opna skjöldu og öðrum.