07.02.1984
Sameinað þing: 44. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2618 í B-deild Alþingistíðinda. (2295)

146. mál, umhverfismál

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal viðurkenna að mér þykir dálítið vænt um selinn. Þrátt fyrir það þykir mér enn vænna um Steingrím Sigfússon hv. þm. Það er kannske þess vegna sem mig langar að segja fáein orð. Mér ber auðvitað skylda til að leiðbeina ungum og nýjum þm. og leiðrétta þeirra missagnir og misskilning nema hvort tveggja sé. Ekki vegna þess að ég vilji neitt hæðast að því sem hann sagði, hann hefur sjálfsagt góðar meiningar í ýmsum atriðum.

En ég sagði aldrei að menn ættu að teljast sekir þangað til annað sannaðist, heldur selir. Það er svolítið annað. Ég veit ekki til þess að ég hafi nokkurn tíma haldið því fram að sökin væri eingöngu hjá selnum. Menn eiga auðvitað ekki að venja sig á að gera öðrum mönnum upp orð eða skoðanir. Sannleikurinn er alveg nægilega góður. Ég tel rétt að menn, og ekki síst þingmenn eigi að halda sig við hann.

Ég þekki lítið til þessa Náttúruverndarráðs. Þar munu grasafræðingar vera í hvalrannsóknum og vilja hafa mikil áhrif í þeim efnum, láta senda sig út í heim á hvalaráðstefnur, nýkomnir ofan af hálendi Austfjarða að rannsaka skófir eins og kunnugt er og rétt. (Gripið fram í: Og skordýrafræðingar fást við orkumál.) Ég er alveg einfær um að sjá um dagskrána þessar mínútur. Síst ætti ég að vera á móti því að menn aðstoði okkur við að vernda náttúruna, ekki veitir af. Ég er heldur ekki á móti því að menn rannsaki þessa hluti. En eins og kunnugt er hafa rannsóknir, upplýsingasöfnun og skýrslugerð tekið ærið langan tíma hjá líffræðingum. Það ættu menn að kannast við. Á meðan vísindamennirnir eru að kanna þetta held ég að við ættum að vinda okkur að því að drepa dálítið fleiri útseti til þess að fækka ormunum.