07.02.1984
Sameinað þing: 44. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2621 í B-deild Alþingistíðinda. (2298)

414. mál, varnir gegn mengun sjávar

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Till. sú sem hér um ræðir fjallar um að endurvinnslufyrirtækjum, sem vinna geislavirkan úrgang frá kjarnorkuverum, verði skylt, þegar gerðar eru breytingar á þeim eða ný fyrirtæki reist, að nýta bestu fáanlegu tæki til að draga úr losun geislavirkra efna í sjó. Till. þessi var lögð fram af Dönum á síðasta aðalfundi um Parísarsamninginn sem haldinn var í júní 1983 í Berlín. Till. þessari var vísað til umfjöllunar fundar vísinda- og tækninefndar, sem haldinn verður á Írlandi í lok marsmánaðar n.k. Siglingamálastofnun ríkisins, sem sér um framkvæmd samningsins hér á landi, hefur þegar látið í ljós við fulltrúa Danmerkur stuðning við ofangreinda till., sem væntanlega verður tekin til endanlegrar umfjöllunar á næsta aðalfundi um Parísarsamninginn sem haldinn verður dagana 20. 22. júní n. k. í Osló.

Losun geislavirkra úrgangsefna í hafið frá landstöðvum er nú mjög til umræðu meðal aðildarríkja að Parísarsamningnum. Þess má geta að nú vinna aðildarríkin hvert fyrir sig að því að meta heildargeislun þess úrgangs sem losaður er í sjó frá landstöðvum. Þegar hafa komið fram upplýsingar frá nokkrum ríkjum, en vænst er frekari gagna strax á þessu ári.

Í Parísarsamningnum, sem gerður var 1974 og tók gildi 1978, en fyrir Ísland þó ekki fyrr en 19. júlí 1981, eru ákvæði um skyldur samningsaðila til að hindra og uppræta mengun sjávar frá geislavirkum efnum. Þó er í samningnum gert ráð fyrir að alþjóðastofnanir á sviði kjarnorkunýtingar, svo sem Alþjóðakjarnorkustofnunin í Vín og kjarnorkustofnun OECD í París, séu ráðgefandi um mengunarvarnir gagnvart geislavirkum úrgangi. Þetta ákvæði er sérstætt í samningnum þar eð aðildarríkin hafa algert frumkvæði gagnvart mengun sjávar frá landstöðvum sem og öðrum orsökum.

Þess er vænst að þegar ofangreindar upplýsingar um magn og geislun úrgangs liggja fyrir frá aðilum megi skjótlega meta hvort sérstakra aðgerða sé þörf.