07.02.1984
Sameinað þing: 44. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2622 í B-deild Alþingistíðinda. (2301)

168. mál, Kvikmyndasafn Íslands

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Virðulegi forseti. Þær raddir hafa orðið æ háværari hér á hinu háa Alþingi sem halda því fram að til lítils sé að flytja Og fá samþykktar þáttill. af ýmsu tagi því að oftlega verði lítið um framkvæmdir þó að vilji þingsins sé ótvíræður. Nefndir þingsins og einkum hinir starfsamari formenn þeirra hafa jafnvel verið gagnrýnd fyrir afgreiðslugleði og menn tala um í hálfkæringi að best væri að mál, og þó einkum þáltill. einstakra þm., lægju óafgreidd. Þessar raddir heyrast ekki að tilefnislausu því að fjarri fer því að vilji þingsins sé virtur í fjölmörgum málum. Fáir málaflokkar verða þá eins illa úti og þeir sem fjalla um listir og menningu, sennilega vegna þess að allt of margir hv. þm. og aðrir telja að menningarstarf sé ekki arðbært og þar af leiðandi hálfgerður þurfalingur á stjórnarheimilinu. Þess vegna hlýtur það oftlega örlög niðursetningsins. Það væri e.t.v. ekki úr vegi að hið háa Alþingi tæki sér einhvern tíma frá öðrum málum og efndi til umr. um hvað er, þegar allt kemur til alls, arðbært í þjóðfélaginu, hvers virði hugvit, sköpun og tækniþekking er hverri þjóð. Ekki síst mætti sú umr. snúast um hvernig sameina megi hina beinu og óbeinu arðsemi.

Fsp. mín, sem liggur hér frammi á þskj. 309, um hvort væntanlegt sé frv. til l. um Kvikmyndasafn Íslands og Kvikmyndasjóð, er nú borin fram öðru sinni. Fyrrv. hæstv. menntmrh. svaraði henni í fyrra skiptið, en nú er henni beint til annars hæstv. ráðh.

Saga þessa máls er í örstuttu máli sú, að á 102. löggjafarþingi lagði þáv. hæstv. menntmrh. Vilmundur Gylfason fram frv. til l. um breytingu á lögum um Kvikmyndasafn Íslands og Kvikmyndasjóð, lögum nr. 14/1978. Því frv. var vísað til ríkisstj. eftir að stjórnarskipti höfðu orðið í trausti þess að fjárhagsvandi sjóðsins yrði leystur síðar á árinu. Vandi sjóðsins varð þó ekki leystur til neinnar hlítar svo að vorið 1981 skipaði þáv. hæstv. menntmrh. Ingvar Gíslason nefnd til að kanna leiðir til eflingar Kvikmyndasjóði Íslands. Formaður nefndarinnar var Indriði G. Þorsteinsson rithöfundur og lauk nefndin störfum haustið 1981. Nefndin taldi að nauðsynlegt væri að endurskoða lögin frá grunni og skilaði drögum að frv. um Kvikmyndasafn Ístands og Kvikmyndasjóð til ráðh. Síðan gerðist ekki neitt.

Hinn 16. nóv. 1982, rúmu ári seinna, bar ég fram fsp. til þáv. hæstv. menntmrh. um fyrirætlanir hans í þessu máli og spurði hvort vænta mætti frv. á Alþingi í breyttu eða óbreyttu formi. Hann svaraði því þá til að það þarfnaðist breytinga, en yrði lagt fram „áður en mjög langt um líður“, eins og ráðh. sagði orðrétt. Nú eru liðin þrjú ár og enn hefur ekkert gerst. — Þess ber þó að geta að fyrrv. ríkisstj. jók verulega framlag til sjóðsins árið 1983 eða í 5 millj. kr., en árið áður hafði það verði 1.5 millj. Á fjárl. ársins 1984 er það 6.5 millj. Þetta fé nægir engan veginn til að koma fótum undir öfluga kvikmyndagerð svo að enn leggja kvikmyndagerðarmenn aleigu sína að veði til þess að þeir geti framleitt kvikmyndir. Á þann hátt er engin von til þess að kvikmyndagerð eflist í landinu.

Á síðustu árum hafa komið frá námi fjölmargir vel menntaðir kvikmyndagerðarmenn sem fyllilega standa jafnfætis erlendum starfssystkinum, enda hafa nokkrir þeirra hlotið viðurkenningu erlendis. Land okkar er tvímælalaust hinn ákjósanlegasti rammi um vandaða kvikmyndagerð, svo að hér gæti hún orðið verulegur atvinnuvegur. Það er nefnilega misskilningur að ekki sé hægt að selja góða list. Kvikmyndagerðarmenn eru því ekki að biðja um að gefa sér neitt, heldur einungis að fara fram á að lánsfé liggi fyrir því að mikill kostnaður fylgir gerð kvikmynda. Jafnframt þarf að koma skipulagi á dreifingu íslenskra kvikmynda erlendis því að það verk er ekki unnið í hjáverkum. Síðast en ekki síst þarf að annast varðveislu þeirra fyrir alla framtíð.

Menn tala mikið hér um ný atvinnutækifæri og ljóst er að sú umræða er nauðsynleg. Menningarleg kvikmyndagerð getur orðið öflugur atvinnuvegur hér á landi ef unnið er skynsamlega að viðgangi hennar af hálfu ríkisins í samstarfi við kvikmyndagerðarmenn sjálfa. Ég vil því enn spyrja hæstv. núv. menntmrh.: Má vænta þess að frv. til laga um Kvikmyndasafn Íslands og Kvikmyndasjóð, sem unnið var á vegum nefndar, er fyrrv. menntmrh. skipaði, verði lagt fram á yfirstandandi þingi?