07.02.1984
Sameinað þing: 44. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2628 í B-deild Alþingistíðinda. (2308)

413. mál, staðfesting Flórens-sáttmála

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Allt frá árinu 1966 hafa komið fram frá ýmsum aðilum óskir um að Ísland gerist aðili að Flórens-sáttmálanum um niðurfellingu aðflutningsgjalda af efni til mennta-, vísinda- og menningarmála og þá má sérstaklega í því sambandi nefna Rannsóknaráð ríkisins. Lengst af hefur fjmrn. talið ýmis tormerki á því að breyta tollalögum í það horf að gerlegt yrði að staðfesta sáttmálann. Hafa þá verið færðar fram ýmsar ástæður tolltæknilegs eðlis, t.d. þær að erfitt væri að gera greinarmun á tækjum og búnaði til vísindarannsókna sem eingöngu væru notuð í því skyni og sams konar tækjum er nota má til annarrar starfsemi sem ekki þætti ástæða til að veita slíkar ívilnanir.

Þessi afstaða hefur að sjálfsögðu tafið mjög framgang þessa máls. Málið var þó enn á ný tekið upp af hálfu menntmrn. á s.l. hausti eða síðari hluta sumars og óskað viðræðna við fjmrn., m.a. var því skrifað og beðið um áætlun um kostnað sem leiddi af því að við staðfestum sáttmálann.

Nú hefur nýverið verið fallist á að athuga þetta efni og taka til frekari meðferðar í samvinnu við menntmrn. Það verður gert í tengslum við þá endurskoðun sem nú fer fram á tollalögunum og er langt komin. Vonir standa því til að ekki líði á löngu þar til íslensk löggjöf verður þannig úr garði gerð að unnt verði að staðfesta títtnefndan Flórens-sáttmála.

Það skal tekið fram að mikla undirbúningsvinnu þarf þó í þessu máli. Þm. er væntanlega öltum kunnugt hve viðamikið plagg tollskráin er og sundurgreining á vörum þar mikil. Flórens-sáttmálann tekur til geysimargra vöruflokka þótt ekki séu þeir allir jafnviðamiklir. Í grófum dráttum er um að ræða nokkra flokka efnis:

1) Bækur, tímarit og skýrslur,

2) listaverk, safngripir með menntunarlegt, vísindalegt eða menningarlegt gildi,

3) sýningarefni og hvers kyns hljóðritað efni með menntunarlegt, vísindalegt og menningarlegt gildi,

4) vísindatæki og búnaður.

5) vörur til afnota fyrir blinda.

Auk þessara vöruflokka er ýmislegt fleira sem athuga þarf ef viðaukabókun við sáttmálann yrði staðfest. Þar má nefna íþróttatæki, hljóðfæri og annan búnað til tónlistariðkana og efni og vélar til bókagerðar og útgáfu blaða, tímarita og skýrslna.

Þegar um slíka alþjóðasamninga er að ræða verður nákvæmnin að sitja í fyrirrúmi og tími að gefast til að vinna verkið vel. Það skal að lokum ítrekað að unnið er að þessu máli og stefnt að staðfestingu Flórens-sáttmálans svo fljótt sem verða má. Og það skal líka tekið fram að margt af þeim vörum sem undir þetta mundu falla eru þegar mjög lítið tollaðar og sumpart undanþegnar slíkum gjöldum.

Ég hygg, herra forseti, að með þessu sé fsp. svarað.