07.02.1984
Sameinað þing: 44. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2631 í B-deild Alþingistíðinda. (2312)

177. mál, námsvistargjöld

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Það er rétt sem fram kom í máli hæstv. ráðh. að þarna er um takmarkaða lagaheimild að ræða um nokkurn hluta þess náms sem fram fer sérstaklega á þessu Reykjavíkursvæði og á þá sérstaklega við þá sem þurfa að stunda iðnnám. Þetta mál kemur að vísu allt saman inn á framhaldsskólalöggjöfina og skólakostnaðarlögin, sem við vonumst til að fara að sjá, þó að allt um of hafi dregist að þau mál væru tekin upp í heild. Þarna þarf vitanlega að verða ákveðið samkomulag milli sveitarfélaganna. Hér er vissulega um þungan bagga að ræða sem sveitarfélögin út um landið þurfa að inna af hendi fyrir sína nemendur sakir aðstöðuleysis sem þar er og í raun og veru alls óviðunandi.

Ég harma að hæstv. rn. og hæstv. ráðh. skuli hafa heimilað svo drjúga gjaldtöku til Reykjavíkurborgar vegna þess að ég hygg að þrátt fyrir öll lagaákvæði væri nauðsynlegast að breyta þeim frekar í réttlætisátt. Ég hygg að það sé rétt sem segir í ályktun stjórnar SSA að hér sé um miklu meiri ávinning að ræða fyrir Reykjavíkurborg en fjárhagslegt tap af skólasókn þessara nemenda.

Ég vil aðeins til þess að árétta þetta frekar vitna í grein skólastjóra framhaldsskólans í Neskaupstað, Smára Geirssonar, þar sem hann bendir enn frekar á hvaða ávinning Reykjavíkurborg hafi af því að námsmenn flykkjast hingað. Þar segir svo, með leyfi forseta:

„Námsmenn á höfuðborgarsvæðinu geta oft á tíðum búið á heimilum sínum á meðan þeir leggja stund á framhaldsnám. Landsbyggðarnemar þurfa hins vegar að vinna baki brotnu þegar færi gefst til að afla fjármuna til greiðstu námskostnaðar og nauðþurfta. Fjármunanna er venjulega aflað í heimabyggðinni en þeim síðan að sjálfsögðu ráðstafað þar sem nám er stundað. Þannig njóta Reykjavík og nágrannasveitarfélög góðs af því fjármagni sem námsfólkið flytur með sér auk þeirra tekna sem þau hafa af skólastofnunum sjálfum og starfsmönnum þeirra.

Ekki eru þetta þó alvarlegustu atriðin varðandi mismunandi möguleika eftir búsetu til að ganga menntaveginn. Alvarlegasta atriðið er án efa hinn svokallaði atgervisflótti sem felst í því að ungt fólk af landsbyggðinni sem heldur til náms til stór-Reykjavíkursvæðisins ílengist þar að námi loknu og sest ekki aftur að í heimabyggðinni eða annars staðar úti á landi. Þannig sogar Reykjavík og nágrenni til sín efnisfólk af landsbyggðinni með hjálp skólanna sem þar eru starfræktir.

Flestir skyldu ætla að Reykjavík og nágrannasveitarfélögin væru nokkuð ánægð með sinn hlut að þessu leyti en því fer fjarri. Lengi hafa ráðamenn á Reykjavíkursvæðinu lagt áherslu á að vegna hins mikla kostnaðar við að reka skóla fyrir námsmenn búsetta utan borgarinnar eigi Reykjavík rétt á að heimta námsvistargjöld af sveitarfélögum þeim sem nemendurnir koma frá. Þetta hefur verið reynt með misjöfnum árangri undanfarin ár en þó hefur rn. menntamála tregðast við að leggja formlega blessun sína yfir slíka innheimtu.“

Eftir því sem kemur fram í máli hæstv. ráðh. hefur það nú verið gert, formleg blessun verið lögð á innheimtu þessara námsvistargjalda. Við því er í raun og veru kannske ekki mikið að segja miðað við þá lagastoð sem þó er fyrir þessu. En ég hlýt að skora á hæstv. ráðh. að huga vel að þessu máli í tengslum við þá nauðsynlegu endurskoðun sem fram fer og fram hefur farið allt of lengi á framhaldsskólalöggjöfinni sjálfri og skólakostnaðarlöggjöfinni tengdri því þannig að þetta misrétti verði leiðrétt, því misrétti er það og engin leið að halda öðru fram.