07.02.1984
Sameinað þing: 44. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2634 í B-deild Alþingistíðinda. (2315)

416. mál, staða heilsugæslulæknis á Eskifirði

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Ég leyfi mér að segja örfá orð því að ég hef að mörgu leyti sömu sögu að segja og hv. fyrirspyrjandi hér áðan. Í lögum er nú heimild fyrir H1 stöð í Grundarfirði sem áður var H stöð og vitaskuld er mikill þrýstingur heima fyrir að fá lækni ráðinn í þessa stöð.

Það er svo að aðstaðan er öðruvísi nú en áður var. Hér áður fyrr þurftu menn að leita logandi ljósi að læknum og leggja mikið á sig til að fá þá til starfa í dreifbýlinu, sækja þá jafnvel til annarra landa. Nú eru hins vegar á boðstólum, að manni er tjáð, nægilega margir hæfir læknar til að fylla þær stöður sem heimildir eru fyrir úti um landið.

Það er svo með Grundarfjörð að þar eru íbúarnir í Eyrarsveit milli átta og níu hundruð og þó að fjarlægðin sé ekki nema 50 km. til Stykkishólms, en þaðan hafa þeir notið læknisþjónustu á liðnum árum, má geta nærri að þegar svona árar og dögum og jafnvel vikum saman er erfitt að komast milli þessara staða vex þrýstingurinn heima fyrir og fólkið sendir óskir, áskoranir og undirskriftalista um að slíkar heimildir séu notaðar.

Ég þakka ráðh. fyrir þær upplýsingar sem hann veitti og viðurkenni að við afgreiðslu síðustu fjárlaga voru þessar heimildir ekki nýttar. En ég vil aðeins benda á að þessu máli er engan veginn lokið. Því verður haldið áfram vegna þess að hér er um réttlætismál að ræða sem þm. ber að styðja fyrir hönd sinna umbjóðenda.