07.02.1984
Sameinað þing: 45. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2640 í B-deild Alþingistíðinda. (2321)

121. mál, stjórnsýslulöggjöf

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Ég vil fyrst taka fram að ég álít að Alþingi hafi á undanförnum árum sett allt of mikið af löngum, flóknum og leiðinlegum lagabálkum sem betur hefðu verið ófluttir. Ég vil taka skýrt fram að ég tel ekki þörf á að setja lög um hvaðeina. Þjóðin á að geta fylgt reglum þó að þær séu ekki skráðar á bók eða blað. Við vitum að munnlegar reglur — venjuréttur — geta verið alveg eins öruggar og skráð lög. Munnleg loforð eru t.d. jafngild þeim sem gefin eru skriflega o.s.frv. Ýmsar þjóðir fylgja föstum reglum á þessu sviði sem öðrum án þess að eyða löngum tíma í að semja og festa á bók skráðar reglur.

Hv. alþm. mega þó ekki misskilja mig, því að ég er fylgjandi þessari till. Ég álít að það svið sem hér er fjallað um, setning almennrar stjórnsýslulöggjafar, eigi fullan rétt á sér. En það getur tekið langan tíma að koma því í kring. Þá ber að hafa í huga að hv. Alþingi virðist ekki hafa ýkjamikinn áhuga á öllum þáttum þessara mála, eins og að var vikið í framsöguræðunni. Okkur er kunnugt um hvaða viðtökur frv. um upplýsingaskyldu stjórnvalda hefur fengið hér á hv. Alþingi. Ég verð að taka undir að þær till. sem hingað til hafa verið fluttar um það efni hafa verið í þeim búningi að þær hafa verið gagnrýni verðar. Einnig var minnst á það að fluttar hefðu verið till. oftar en einu sinni um embætti umboðsmanns Alþingis. Ég er ekki viss um að okkur henti sú skipan mála, a.m.k. verða menn að gera sér grein fyrir því, þegar slíku er hreyft, að það kostar peninga. Og það er ýmislegt sem bendir til þess að embætti umboðsmanns Alþingis mundi fljótt hnoða utan á sig ærnum kostnaði og mætti jafnvel ráða þeim málum betur með öðrum og ódýrari hætti.

Ég er að vísu ekki nákunnugur stjórnsýslulöggjöf nágranna okkar á Norðurlöndum. Hér í grg. segir þó að í Noregi hafi slík lög verið sett 1967 og í Svíþjóð 1971. Það er vitað um Svía að þeir eru mjög hressir löggjafar, setja lög um mörg efni. En hafi þeir ekki sett slíka löggjöf fyrr en 1971 virðist hún hafa vafist eitthvað fyrir mönnum þar í landi líka. Þó má vera að þetta séu endurbætur á eldri löggjöf sem gilt hefur. Loks segir í niðurtagi grg. að í Danmörku hafi verið samið ítarlegt frv. til stjórnsýslulaga, hvort sem það er orðið að lögum nú eður eigi.

Ég vil geta þess sérstaklega að ég fagnaði till. hæstv. menntmrh. á sinni tíð um þetta efni, þótti hún allrar athygli verð. Hún var rædd og reifuð í dómsmrn. á minni tíð. Okkur þótti þetta efni áhugavert og var unnið að því nokkuð á þeim árum þó það kæmist ekki í höfn. Það er svo með fleiri góð mál, þegar í mörg horn er að líta, að þau ná ekki öll afgreiðslu þó að hyggja manna stefni til framtaks. Ég vil m.ö.o. taka það fram að þessi till. var athuguð gaumgæfilega í rn., eins og ég tjáði hæstv. menntmrh. á þeim tíma.

Ég hef þessi orð ekki fleiri, en fagna þessari framkomnu till. og vænti þess að hún verði skoðuð ítarlega eins og efni standa til.