08.02.1984
Efri deild: 48. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2703 í B-deild Alþingistíðinda. (2329)

150. mál, fæðingarorlof

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Hæstv. forseti. Það sannast í umr. um þetta mál sem oftar að það er vandrötuð leiðin til réttlætis. En ég vil draga það sérstaklega fram í sambandi við þær umr, sem hér hafa farið fram og þær umr. sem oft fara fram um fæðingarorlof, að menn ræða um fæðingarorlof og greiðslu í fæðingarorlofi út frá tvenns konar forsendum. Annars vegar er fæðingarorlof sem kemur til af því að litið sé á barnsburð og tiltekinn tíma í kringum barnsburð sem lögleg forföll frá launaðri vinnu og það sé bæði rétt og skylt að vera frá þeirri vinnu án þess að missa af launum á meðan. Þessi hugsun stuðlar að því að útivinnandi mæðrum sé gert kleift að vera heima og sinna nýfæddum börnum sínum eins og heimavinnandi mæður gera. Að þessu leyti er fæðingarorlofið hugsað til þess að gera útivinnandi mæðrum kleift að vera eins settar og heimavinnandi mæður eru, þó að engin greiðsla fæðingarorlofs komi til þeim til handa. Að þessu leyti til eru þær greiðslur sem um ræðir í þessu frv. runnar af tvenns konar rót, annars vegar til kvenna sem ella misstu laun sín, hins vegar til þeirra sem missa ekki tekjur við barnsburðarleyfið, vegna þess að þær eru heimavinnandi.

Vissulega geta menn haft það sjónarmið að það beri að greiða sem svarar launagreiðslu í þessu tilfelli að lágmarki 14 114 kr., eins og gert er ráð fyrir í frv., það beri að greiða hverju heimili eða hverri konu sem fæðir barn þessa upphæð í sex mánuði, hvort sem hún hefur misst af vinnutekjum sem þessu svarar eða ekki. Og þá erum við komin að spurningunni um forgangsröðun verkefna. Hér er verið að tala um greiðslur úr tryggingakerfi ríkisins. Á sama tíma stöndum við andspænis því að eiga í miklum erfiðleikum með að greiða hærri lífeyri til elli- og örorkulífeyrisþega. Þetta atriði dreg ég hér fram vegna þess að ég barðist fyrir því á sínum tíma ásamt öðrum þm. árið 1975 að fá lögleitt fæðingarorlof, sem var miklu víðtækara en áður hafði tíðkast, og ég er ævinlega þakklát fyrir samþykki Alþingis við það mál þó að það leysti vitanlega ekki allan vanda. Það var bæði mér og öðrum ljóst. En sú leið sem þá var farin til að fjármagna fæðingarorlofið var heldur ekki óumdeilanleg. Það var gert í gegnum Atvinnuleysistryggingasjóð. Og ástæðan til þess að þetta var gert var sú, að þeir baggar sem hvíldu á Tryggingastofnuninni voru mjög þungir og mönnum þótti þörf á því að veita auknu fé fremur í aðrar lífeyristryggingar sem of lágar þóttu.

Og nú er spurningin ef við erum að tala um forgangsröðun: Eigum við að láta þessar tryggingabætur ná til allra kvenna, hvernig sem atvinnuhögum þeirra er háttað og hvernig sem efnahag þeirra er háttað, á þann veg að kona hálaunamannsins, sem heimavinnandi er, fái sams konar laun í sex mánuði og einstæða móðirin, sem hefur ekkert nema vinnutekjur sínar sér og barni sínu til framfæris, fær í jafnlangan tíma? Þetta virðist mér vera spurning sem við verðum að svara hvert og eitt og láta ekki freistast af því sjónarmiði að við gætum e.t.v. látið fólk halda að við vildum gera allt fyrir alla með afgreiðslu mála hér á þingi.

Ég tel að við verðum að horfast hreinskilnislega í augu við þá staðreynd að það er mikill munur á kjörum þeirrar konu, sem hefur atvinnutekjur sínar sér til framfæris og fær fæðingarorlof til þess að geta verið heima og sinnt kornbarni sínu um skeið alfarið og helgað sig störfum á sínu heimili þann tíma sem hún nýtur fæðingarorlofs, það er mikill munur á kjörum þeirrar konu og hinnar, sem hefur nákvæmlega sömu heimilistekjur eftir og áður en hún eignast barn sitt. Vissulega koma einhver ný útgjöld til. Það er auðvitað rétt, sjálfsagt og eðlilegt. Ýmis ákvæði í tryggingakerfinu og skattakerfinu gera líka ráð fyrir því. Barnabætur eru t.d. hugsaðar í því sambandi. Fæðingarstyrkur er líka hugsaður á þennan veg. Niðurstaða mín er því sú, að sá hluti fæðingarorlofs sem er hugsaður fyrir heimavinnandi konur er tryggingartæknilega séð fæðingarstyrkur fremur en fæðingarorlof í skilningi vinnumarkaðarins.

Nú má vel hugsa sér að menn líti svo á, og það geta vissulega verið rök fyrir því að menn vilji greiða almennt miklu hærri fæðingarstyrk eða þá að auka rétt heimavinnandi mæðra ungbarna til að fá hlutdeild í samsvarandi greiðslum og fæðingarorlof er. Það má vel hugsa sér það. En ég hygg að skynsamlegra væri að gera það með öðrum hætti heldur en staðið væri að fæðingarorlofi kvenna sem misst hefðu af tekjum vegna forfalla í kringum barnsburð. Ég hygg að það væri skynsamlegra að standa að slíku með fyrirkomulagi frjálsrar tryggingar, með tryggingu sem fólk gæti keypt sér t.d. með því að skrá ósk um það á skattframtal sitt. Ég get ekki séð að það séu sömu rök fyrir fæðingarorlofsgreiðslum til beggja þessara hópa og er ég þó mjög fylgjandi því að sem mest sé metinn hlutur þeirra kvenna sem á heimilum starfa. Ég geri mér fulla grein fyrir því hvers virði sú vinna er sem þar er af höndum innt og að það eru verk sem vinna sig ekki sjálf. En við leysum það mál ekki með þessum hætti. Ég hygg að þar þurfi annað að koma til.

Ég vildi vekja athygli á þessu, hæstv. forseti, vegna þess að ég tel að þessi misskilningur, sem ég tel vera, að rugla saman þessum tvenns konar grundvelli sem undir greiðslunum væri, ég tel að sá misskilningur hafi e.t.v. staðið þessu máli nokkuð fyrir þrifum, ella væri e.t.v. hægt að ná lengri tíma og hærri greiðslum fyrir hið raunverulega fæðingarorlof. Hitt væri hærri fæðingarstyrkur og það er sérmál.