08.02.1984
Efri deild: 48. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2704 í B-deild Alþingistíðinda. (2330)

150. mál, fæðingarorlof

Árni Johnsen:

Virðulegi forseti. Ég harma að hv. flm., Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, skyldi snúa út úr ýmsum atriðum sem ég fjallaði hér um í þeim þætti þessa máls sem mér finnst varða mestu, möguleika barnsins á brjóstagjöf. Ég fjallaði um það vegna þess að í mjög ítarlegu erindi þm. afgreiddi hún þennan þátt málsins í tveimur setningum. Mér fannst ástæða til að leggja meiri áherslu á það en svo.

Það er leitt að hv. þm. skyldi láta þau orð falla að ég fjallaði um konur sem búpening. Ég tel að því fari fjarri að ég hafi gert það. Ég gerði hins vegar að sjálfsögðu samanburð á móðurmjólk og kúamjólk, enda er það einn helsti orkugjafi barna lengst af. Það var óþarfa tilfinningasemi að taka það óstinnt upp.

Það eru margar spurningar sem vakna í þessu efni eins og kom fram hjá hæstv. menntmrh. Þarna er kannske fyrst og fremst spurning um aðstöðumun, þ.e. að skapa þarna fyrst og fremst möguleika fyrir þá sem virkilega þurfa á slíkri fyrirgreiðstu að halda. Ég gat einnig um það í mínu máli að í frv. væri gert ráð fyrir mjög óvissum útnálum, óvissum miðað við það að menn ættu að halda fullum launum, hvaða launum sem þeir hefðu, á fæðingarorlofstíma, bæði feður og mæður. Ég vil einnig árétta að það hefði verið réttara að segja nær 2% af fjárlögum. Sú tala sem þm. nefnir mun vera 1.7–1.8% af fjárlögum og því verður ekki haggað.

Það er spurning um ýmislegt sem kemur fram í frv., eins og t.d. hugmyndina um lágmarksfæðingarorlof. Þar er um að ræða greiðslur sem eru hærri en laun eru nú hjá allstórum hópi launþega í landinu. Það er spurning hvort menn fari hreinlega út í að eiga börn í stað þess að vinna venjulega og hefðbundna vinnu. Ekki ætla ég nú hv. þm. að það sé sjónarmiðið, þótt virkilega væri ástæða til að fjölga Íslendingum.

Hv. flm. gerði mér upp skoðun, að ég hefði í þessu máli fjallað um brjóstagjöf, sem er rétt og ég lagði megináherslu á, en að ég hefði atmennt áhuga á brjóstum. Það voru orð hv. þm. Ég vil undirstrika það að í þessu tilviki fjallaði ég eingöngu um brjóst sem göfugasta líffæri almættisins í þágu barnsins. Engar aðrar skoðanir lágu þar á bak við. Ég vil einnig undirstrika að ég líkti á engan hátt konunni við svartfuglinn eða langvíuna í bjarginu, þótt hún sé með tignarlegri fuglum. Ég líkti þar við ákveðna aðferð við að þjálfa einstaklinginn upp í sjálfstæði, hvort sem það er dýr eða maður.