08.02.1984
Efri deild: 48. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2707 í B-deild Alþingistíðinda. (2333)

150. mál, fæðingarorlof

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins til að koma meira inn í þessa umr. Ég hefði kannske gert það ítarlegar ef ég hefði verið hér við umr. frá upphafi. Það er þessi skilgreining, sem hér hefur komið fram, um það að skipta fæðandi konum eftir því hvort þær eru heimavinnandi eða á útimarkaði, sem mér finnst vera röng. Ég hef alltaf haldið því fram að hún væri röng. Mér finnst starf heimavinnandi húsmóður, sem hefur það aðalhlutverk að ala upp sín börn og sjá um heimilið ekki síður mikilvægt. Það er svo langt frá því að hægt sé að færa sönnur á að það sé ekki jafnmikils virði og hlutverk þeirra kvenna sem vinna úti, hvort sem það er heilt starf eða hluti úr starfi. Ég gæti flutt langt mál um þetta. Mér finnst að menn megi ekki fara að setja þarna eitthvert strik á milli sem eigi að staðfesta það að þarna eigi að gera mismun á. Ég vitna til sjónvarpsþáttarins í gærkvöldi um könnun kjararannsóknarnefndar á kjörum fólks. Hvað kom í ljós? Það kom í ljós að það eru miklu erfiðari kjör hjá því fólki þar sem annar aðilinn vinnur úti en hinn er heima og er ekki úti á vinnumarkaðinum. Það er gífurlegur munur á þessu. Og þetta sýnir okkur náttúrlega þá um leið og það er ekki síður þörf á því að heimavinnandi húsmóðir, sem elur barn, fái jafnháa fjárhæð og sú sem er á vinnumarkaðinum í sambandi við fæðingarorlof. Þetta liggur alveg ljóst fyrir.

Ég vildi aðeins koma meira inn á það sem starfsmenn Tryggingastofnunarinnar kvarta mest yfir núna í sambandi við framkvæmd gildandi laga og er rétt að vekja athygli á því. Þeir segja það alveg hiklaust að það sé ákaflega miklum vandkvæðum bundið fyrir ýmsa hópa kvenna að sanna atvinnuþátttöku sína við hin ýmsu störf sem meta á jafngild atvinnuþátttöku. Það eru t.d. sjómannskonur, konur bænda, konur sem stunda nám með heimilisstarfi og þær sem stunda atvinnurekstur. Í núgildandi lögum er það lagt í vald ráðh. að setja um þetta reglugerð, sem styðst við úttekt eða álit starfsmanna Tryggingastofnunar ríkisins. Það hefur reynst svo að þetta er nánast óvinnandi verk og hefur skapað ákaflega mikið ósamræmi og stundum leiðindaatvik, sem ég nefndi hér fyrr, að orðið hefur að synja konum um þennan rétt vegna þess að sönnunargögn hafa ekki verið talin fullnægjandi.

Ég hef því miður ekki í höndunum upplýsingar um framkvæmd þessa máls á s.l. ári, en ég hef hér töflu frá 1982. Þá væru greiddar 76.4 millj. kr. í fæðingarorlof vegna 4266 fæðinga, sem skiptust þannig að óskertar þriggja mánaða greiðslur voru fyrir 2401 fæðingu eða 55.3 millj., til þeirra sem fengu 2/3 hluta 13.2 millj., það voru 853 fæðingar, og til þeirra sem fengu aðeins 1/3 hluta voru 1012 fæðingar, 7.8 millj.

Ég ætla ekki að ræða þetta meira. Ég vil lýsa því yfir að ég hef áhuga fyrir því að þessi mál séu skoðuð og ég endurtek: það er ekki grundvöllur á þessu ári að stíga svo stór skref sem hér er verið að tala um í þessu frv. En það skref sem ég vil beita mér fyrir og er að beita mér fyrir er jafnrétti skv. gildandi lögum. Ég endurtek þetta vegna þess að einhver hv. þm. sagði hér áðan að það væri ekkert verið að vinna í þessum málum. Ríkisstj. er að láta athuga þetta mál og í trmrn. er verið að skoða málið miðað við það hvað hægt er að gera á þessu ári. Ég vonast fastlega til þess að í ríkisstj. náist samstaða um þetta mál og þrátt fyrir ummæli hæstv. menntmrh. er ég ekki í neinum vafa um það að hún ber mjög hag heimavinnandi kvenna fyrir brjósti. Ég efast ekkert um að við munum ná samkomulagi um það að þoka þessum málum í rétta átt.