08.02.1984
Efri deild: 48. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2709 í B-deild Alþingistíðinda. (2336)

178. mál, sala lagmetisiðju ríkisins á Siglufirði

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til að setja lagmetisiðju ríkisins í Siglufirði á grundvelli kaupsamnings milli ríkisstj. og nýstofnaðs hlutafélags, Sigló h.f. í Siglufirði, sem dags. er í Reykjavík 17. des. 1983.

Kaupsamningurinn er fskj. með frv. þessu. Kaupverð er 18 millj. kr. og er það lánað með verðtryggðum kjörum til 10 ára.

Þá er með frv. lagt til að felld verði úr gildi lög nr. 46 frá 19. maí 1972, um lagmetisiðju ríkisins í Siglufirði. Með lögum nr. 46 frá 19. maí 1972 var kveðið á um rekstur ríkisins á verksmiðju í Siglufirði til fullvinnslu og verkunar ýmiss konar sjávarafurða undir firmanafninu Lagmetisiðjan Siglósíld. Jafnframt þessu yfirtók ríkið verksmiðjuhús Síldarniðursuðuverksmiðju ríkisins sem þá var í eigu Síldarverksmiðja ríkisins.

Rekstur Lagmetisiðjunnar Siglósíldar hefur frá upphafi gengið misjafnlega og hafa erfiðleikarnir aukist hin síðari ár. Á árinu 1979 varð lagmetisiðjan Siglósíld fyrir miklum skakkaföllum vegna seinkunar á sölusamningum, farmannaverkfalls og óseljanlegra birgða sem leiddu af sér rekstrarstöðvun mánuðum saman.

Starfshóp þriggja manna var falið að kanna fjárhagsstöðu fyrirtækisins, rekstur og framtíðaráætlanir með tilliti til sölusamninga og hugsanlegrar uppbyggingar þess. Niðurstöður starfshópsins voru þær að ekki væri grundvöllur fyrir áframhaldandi rekstri við óbreyttar aðstæður. Hann taldi hins vegar rétt að kanna samsetningu lagmetisiðjunnar og fyrirtækisins Þormóðs ramma jafnhliða endurskipulagningu í rekstri og framleiðslu beggja fyrirtækjanna í því augnamiði að auka fjölbreytni og nýtingu í framleiðslu og renna þannig styrkari stoðum undir atvinnulíf í Siglufirði. Tillögur þessar voru ræddar við bæjarstjórn og atvinnumálanefnd Siglufjarðar í febrúar og mars 1980 án þess að niðurstaða fengist um framtíð fyrirtækisins.

Á árunum 1981 og 1982 seig enn á ógæfuhlið í rekstri fyrirtækisins með samdrætti í sölu og lækkandi verði í dollurum. Verðþróun innanlands var mjög óhagstæð á þessu tímabili, framleiðslugeta var illa nýtt og vélakostur orðinn slitinn. Afkoma Siglósíldar var mjög slæm árin 1980–1982. Árið 1980 var framleitt í 137 daga og var bókfært tap 1 329 894 kr. þrátt fyrir 1.5 millj. kr. framlag úr ríkissjóði. Ég tek það fram að þær tölur sem ég nefni eru á verðlagi hvers árs.

Árið 1981 var framleitt í 130 daga og var bókfært tap 3 799 825 kr. þrátt fyrir 1 millj. kr. framlag ríkissjóðs. Árið 1982 var framleitt í 90 daga aðeins og var bókfært tap 5 362 813 kr. þrátt fyrir 900 þús. kr. framlag ríkissjóðs. Samtals var tap fyrirtækisins á þessum árum 10 492 532 kr. þrátt fyrir 3.4 millj. kr. framlag ríkissjóðs.

Tap á rekstri Siglósíldar að frádregnu framlagi ríkissjóðs hefur verið fjármagnað með skuldasöfnun hjá viðskiptaaðilum og ríkissjóði og að hluta til með lántökum hjá endurlánum ríkisins. Breytingar á efnahagsreikningi hafa á sama tímabili verið þær að á árinu 1980 voru eignir alls 7 millj. 468 þús. kr. en skuldir alls 6 millj. 781 þús. kr. og eigið fé 686 þús. kr. Árið 1981 voru eignir alls 9 millj. 677 þús. kr. en skuldir alls 12 millj. 444 þús. kr. — ég sleppi krónum í þessum lestri mínum nú — og eigið fé því neikvætt um 2 millj. 766 þús. kr. Árið 1982 voru eignir alls 11 millj. 933 þús. kr. en skuldir alls 21 millj. 299 þús. kr. og eigið fé neikvætt um 9 millj. 365 þús. kr.

Þó að ekki liggi fyrir endanlegt uppgjör fyrir tímabilið janúar til maíloka 1983 þegar Þormóður rammi h.f. tekur við rekstri fyrirtækisins er ljóst að verulegt tap er á rekstri fyrirtækisins þetta tímabil og má það reksturstap telja í millj. kr. Á árinu 1983 voru beinar greiðslur, framlög, úr ríkissjóði til Siglósíldar 7 millj. kr. Að auki var framlag í formi yfirtöku á tveimur lánum hjá endurlánum ríkisins að upphæð 10 millj. 84 þús. kr.

Í maí s.l. tók Siglósíld 10 millj. kr. gengistryggt lán hjá endurlánum ríkisins. Andvirði þess var varið til greiðslu á bráðabirgðalánum hjá ríkissjóði að upphæð 6 millj. 551 þús. kr. og greiðslu vaxta og kostnaðar á lánum hjá endurlánum ríkisins, 1 millj. 172 þús. kr., og greiðslulausa skuld að fjárhæð 2 millj. 277 þús. kr.

Skv. bráðabirgðauppgjöri á efnahagsreikningi í des. 1983 voru eignir fyrirtækisins taldar nema 15 millj. 904 þús. kr. en skuldir alls 20 millj. 290 þús. kr. og eigið fé því neikvætt um 4 millj. 386 þús. kr.

Í samráði við stjórn Lagmetisiðjunnar Siglósíldar skipaði iðnrn. í sept. 1982 nefnd til að fara yfir stöðu fyrirtækisins og gera till. til rn. um endurskipulagningu á rekstrinum. Í því skyni var nefndinni falið að kanna m.a. eignaraðild heimamanna, Framkvæmdasjóðs og ríkisins á endurskipulögðu fyrirtæki í lagmetisiðnaði, gera tillögur um uppgjör skulda að lokinni endurskoðun setja fram rekstraráætlun nýs fyrirtækis ef til endurskipulagningar kæmi og gera tillögur um breytingar á lögum nr. 46 frá 1972 um Lagmetisiðjuna Siglósíld.

Nefndin skilaði áliti þann 26. apríl 1983 og voru niðurstöður hennar í megindráttum þær að fyrirtæki sem framleiddi um 30 þús. kassa af gaffalbitum og 23 þús. kassa af niðursoðinni rækju ætti að geta skilað hagnaði ef það þyrfti ekki að standa undir fjármagnskostnaði vegna uppsafnaðra skulda og nauðsynlegar endurbætur yrðu gerðar á húsnæði og vélum.

Á grundvelli álits nefndarinnar gerðu stjórnir fyrirtækjanna Þormóðs ramma og Siglósíldar með sér samkomulag þann 16. maí 1983 um yfirtöku Þormóðs ramma á rekstri Lagmetisiðjunnar Siglósíldar og var það samkomulag staðfest af iðnrn. og fjmrn. Rekstur Þormóðs ramma h.f. á Siglósíld hefur staðið í járnum þrátt fyrir að leigan fyrir verksmiðjuna hafði verið fremur lág, þ.e. 7% af framleiðslu eða um 300 þús. kr. frá 1. júní 1983 til 31. des. 1983. Rekstrar- og fjárhagsstöðu Þormóðs ramma h.f. er þannig háttað að fyrirtækið hefur ekki bolmagn til að koma rekstri Siglósíldar í það horf sem þarf til að gera reksturinn arðbæran.

Þegar fram kom áhugi aðila með reynslu í lagmetisiðnaði þótti rétt að athuga til hlítar hvort unnt væri að selja fyrirtækið. Í nóvembermánuði s.l. kom fram formleg ósk frá þessum aðilum um að kaupa lagmetisiðju ríkisins í Siglufirði, Siglósíld. Í byrjun des. skipaði ég þrjá menn í nefnd til að annast viðræður af hálfu ríkisins um sölu Siglósíldar. Nefndin átti allmarga fundi með fulltrúum fyrrnefndra aðila en þeir stofnuðu hinn 15. des. 1983 hlutafélagið Sigló h.f. með heimili og varnarþing í Siglufirði til að kaupa og starfrækja Lagmetisiðjuna Siglósíld. Á fundi aðila 14. des. 1983 náðist samkomulag um sölu Siglósíldar með fyrirvara um samþykki iðnrh., ríkisstj. og Alþingis. Frá kaupsamningi var gengið og hann undirritaður 17. des. 1983 með nauðsynlegum fyrirvara. Meginatriði kaupsamningsins er í fyrsta lagi:

Ríkissjóður selur hlutafélaginu Sigló h.f. Lagmetisiðjuna Siglósíld og er kaupverð kr. 18 000 000. Kaupverðið greiðist með útgáfu skuldabréfs til 10 ára. Bréfið er verðtryggt miðað við lánskjaravísitölu og ber hæstu leyfilegu vexti af verðtryggðum lánum skv. ákvörðun Seðlabanka Íslands hverju sinni.

Við ákvörðun á kaupverði hefur verið tekið mið af fasteignamatsverði eigna fyrirtækisins og bókfærðu verði þeirra. Við mat á verði tækja verksmiðjunnar verður að taka tillit til að þau eru mörg hver úrelt orðin. Þá hefur verið reynt að meta viðskiptavild fyrirtækisins — „good will“ — og þá aðstöðu sem fyrirtækið hefur byggt upp. Að öllu þessu athuguðu verður að telja 18 millj. kr. viðunandi verð.

Með frv. fylgir bráðabirgðayfirlit yfir efnahag Siglósíldar í des. 1983. Til samanburðar er rétt að geta þess að bókfært verð fastafjármuna er skv. yfirlitinu 13 millj. 941 þús. kr. Skv. bráðabirgðauppgjörinu eru heildarskuldir Siglósíldar miðað við des. 1983 20 millj. 290 þús. kr. Þar á móti á fyrirtækið veltufjármuni að fjárhæð 1 millj. 953 þús. kr. Skv. þessu er söluverð fyrirtækisins skv. kaupsamningnum u.þ.b. sama fjárhæð og þær skuldir sem á ríkissjóð falla vegna sölunnar.

Lán vegna kaupanna er tryggt veði með fyrsta veðrétti í eignum verksmiðjunnar, og afborgunarlaust fyrstu tvö árin. Stofnendur ábyrgjast persónulega 25% af láninu. Ábyrgðir þessar eru veittar vegna þess að kaupverðið er lánað að fullu, enda er gert ráð fyrir að kaupandi beini kröftum sínum af alefli á næstu tveimur árum til að efla fyrirtækið.

Við samninga um greiðslukjör hefur verið tekið mið af þeim kjörum sem fjmrh. hefur boðið í almennu útboði á hlutabréfum í 15 ríkisfyrirtækjum, sbr. auglýsingu dags. 7. des. 1983. Þar er gert ráð fyrir að útborgun verði 20% og að eftirstöðvar verði lánaðar til allt að 10 ára. Hér hefur þó verið vikið frá kröfu um 20% útborgun. Telja verður að eftirfarandi atriði réttlæti slíkt frávik:

1. Með tilliti til þeirra gagngerðu endurbóta sem nauðsynlegar eru til að koma fyrirtækinu í rekstrarhæft ástand þykir óhjákvæmilegt að gera kaupendum kleift að leggja sem mest fé í fyrirtækið þegar í upphafi.

2. Fram hefur komið í viðræðum við kaupendur að þeir hyggjast fjárfesta í fyrirtækinu fyrir allt að kr. 12 millj. á fyrra helmingi þessa árs.

3. Ofangreindar aðgerðir gefa von um jafna atvinnu við fyrirtækið allt árið. Þetta mun því væntanlega efla atvinnulíf í Siglufirði.

Þá er í þriðja lagi í kaupsamningi reynt að tryggja svo sem frekast er kostur að starfrækslu Siglósíldar verði haldið áfram í Siglufirði, sem er meginatriði. Kaupendur skuldbinda sig m.a. til að halda starfrækslu Siglósíldar áfram í Siglufirði auk þess sem þeir binda í stofnsamningi tilgang hins nýja félags við að efla og styrkja atvinnulíf í Siglufirði. Þessu til tryggingar eru aðilar sammála um að í skuldabréfi verði heimildarákvæði þess efnis að gjaldfella megi skuldina ef skuldbindingar um starfrækslu í Siglufirði verða ekki haldnar.

Í samningsviðræðum aðila hefur eftirfarandi m.a. komið fram varðandi áform kaupenda um rekstur fyrirtækisins:

Í fyrsta lagi hyggjast þeir halda áfram framleiðslu gaffalbita.

Í öðru lagi hyggjast þeir vinna úthafsrækju sem veidd er úti fyrir Norðurlandi.

Í þriðja lagi hyggjast þeir vinna rækju sem veidd er í Barentshafi í samstarfi við breskt fyrirtæki til sölu á markaði í Bretlandi og í Bandaríkjunum.

Í fjórða lagi hyggjast kaupendur sjóða niður tilfallandi hráefni þann tíma sem ekki er unnið að síld.

Síðasttöldu atriðin tvö eru nýjung í starfsemi Siglósíldar og er vonast til að þetta geti orðið til þess að efla atvinnulíf í Siglufirði.

Til þess að unnt sé að starfrækja verksmiðjuna í samræmi við framanritað þarf að gera verulegar endurbætur á húsum og tækjum. Skv. áætlun eigenda hyggjast þeir fjárfesta á fyrra helmingi árs 1984 samtals um 12 millj. kr. til endurbóta á verksmiðjunni sem fyrr segir. Það er m.a. til að gera kaupendum kleift að framkvæma slíkar endurbætur á fyrirtækinu að fallið er frá kröfum um útborgun við sölu.

Kaupendur lögðu áherslu á að afhending færi fram hinn 1. jan. 1984. Bentu þeir í því sambandi á eftirfarandi:

1. Kaupendur hafa yfir að ráða allmiklu magni af ópillaðri rækju sem þeir geta hafið vinnslu á um leið og breytingum á verksmiðjunni er lokið.

2. Niðurlagning á gaffalbitum hefði að öllu óbreyttu átt að hefjast á vegum Þormóðs ramma í jan. Kaupendur hugðust hins vegar breyta tilhögun við þá framleiðslu í tengslum við aukna rækjuvinnslu í fyrirtækinu. Til þess að þetta mætti takast töldu þeir nauðsynlegt að geta hafið breytingar á verksmiðjunni eigi síðar en 1. jan. sl.

3. Fulltrúar kaupenda áttu í samningaviðræðum um vinnslu á hráefni frá Evrópu til sölu á Bandaríkjamarkaði. Forsenda þeirrar samningsgerðar var að þeir gætu hafið vinnslu í upphafi þessa árs.

Með vísun til þessa og þar sem 1. jan. 1984 var af öðrum ástæðum hentugur afhendingardagur var kaupsamningurinn látinn koma til framkvæmda þann dag svo sem frá honum var gengið með fyrirvara um samþykkt Alþingis.

Eins og vikið var að áðan var hinn 16. maí 1983 gengið frá leigusamningi milli Þormóðs ramma h.f. og ríkisins um leigu Siglósíldar. Skv. 7. tölulið þess samkomulags gildir samkomulagið í eitt ár og átti Þormóður rammi h.f. forkaupsrétt að Siglósíld að þeim tíma liðnum. Rétt er að benda á að í þessari grein samkomulagsins er gert ráð fyrir að söluverð á fyrirtækinu skuli vera sama fjárhæð og langtímaskuldir í maí 1983 með verðlags- og gengisbreytingum til kaupdags. Það var sem sé í þessum leigukaupasamningi sem svo mátti nefna gert ráð fyrir ákveðnu söluverði á fyrirtækinu sem mjög er í samræmi við það söluverð sem endanlega varð samkomulag um. Skv. þessari grein hefði kaupverð á verðtagi í des. 1983 verið um 18 millj. kr. eða sambærilegt því verði sem hér er samið um. Þetta er sérstaklega tekið fram því að fram hafa komið þær skoðanir að hér hafi verið um undirverð að tefla, en þá eru fleiri en undirritaður sem hafa um það vélt.

Telja verður að leiga eða yfirtaka Þormóðs ramma h.f. á Siglósíld hafi ekki verið heppileg frambúðarlausn. Eins og áður er að vikið er rekstrar- og fjárhagsstöðu Þormóðs ramma h.f. þannig háttað að fyrirtækið hefur ekki bolmagn til að koma rekstri Siglósíldar í arðbært horf. Önnur sjónarmið koma og til. Þormóður rammi h.f. sinnir. togaraútgerð og hefðbundinni fiskvinnslu en yfirleitt, svo sem er á Ísafirði og víðar, hafa sérhæfð fyrirtæki sinnt niðursuðu rækju og skelfiskvinnslu. Viðskiptasambönd hins nýja fyrirtækis vega einnig þungt.

Samstarfssamningi Þormóðs ramma h.f. og Siglósíldar var því sagt upp með samkomulagi frá 1. jan. 1984 samhliða sölu Siglósíldar til hlutafélagsins Sigló h.f. svo sem fyrr greinir. Samkomulag viðræðunefndarinnar fyrir hönd iðnrn. og stjórnar Þormóðs ramma h.f. um uppsögn á leigumála var undirritaður 12. jan. 1984. Skv. samningnum féll leigumálinn niður 1. jan. 1984. Þá fellur stjórn Þormóðs ramma h.f. frá forkaupsrétti að fyrirtækinu skv. ákvæðum leigusamningsins frá sama tíma.

Þá er í samningnum ákvæði um uppgjör á viðskiptum aðila miðað við 1. jan. 1984. Er í samningnum frá því gengið að Þormóður rammi h.f. fari skaðlaus úr þeim viðskiptum. Í tengslum við gerð samkomulags um uppsögn á leigumála Þormóðs ramma h.f. og Siglósíldar var sama dag undirritað samkomulag milli ríkisstj. vegna Siglósíldar og Sigló h.f. sem kaupanda og Þormóðs ramma h.f. þar sem frá eftirfarandi atriðum var gengið:

a) Sigló h.f. kaupir rekstrarvörur og lausafé í eigu Þormóðs ramma h.f. vegna Lagmetisiðjunnar Siglósíldar.

b) Sigló h.f. tekur að sér að efna skuldbindingar Þormóðs ramma h.f. um síldarsöltun og fleira er hráefnisöflun varðar og gerðar voru í þágu Siglósíldar.

c) Þormóður rammi h.f. leigir Sigló h.f. nauðsynlegt frystirými vegna geymslu á hráefni og afurðum.

d) Þá skuldbindur Sigló h.f. sig til að greiða úr þeim skyldum er kynnu að falla á ríkissjóð vegna sölunnar.

e) Sigló h.f. tekur að sér að efna samninga við fastráðna starfsmenn verksmiðjunnar og skuldbinda sig til að veita lausráðnu starfsfólki, sem starfað hefur við lagmetisiðjuna á undanförnum árum, forgangsrétt til vinnu hjá fyrirtækinu.

Virðulegi forseti. Hér hefur verið gerð grein fyrir helstu atriðum í kaupsamningi þeim sem lagt er til að Alþingi samþykki með því að veita ríkisstj. heimild til að selja fyrirtækinu Sigló h.f. í Siglufirði Lagmetisiðjuna Siglósíld.

Að lokinni 1. umr. legg ég svo til, virðulegi forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og iðnn.