08.02.1984
Neðri deild: 44. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2715 í B-deild Alþingistíðinda. (2339)

140. mál, lántaka vegna flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Um þessar mundir höfða ríkisstjórnarflokkarnir mjög til láglaunafólks í landinu að það haldi áfram að umbera í þögn og þolinmæði þá gífurlegu kjaraskerðingu sem það hefur orðið fyrir í kjölfar efnahagsaðgerða ríkisstj. Því er haldið fram að efnahagsleg staða þjóðarbúsins sé á þann veg að erlendar skuldir séu svo miklar og samdráttur þjóðartekna svo verulegur að jafnvel þeir sem við bágust kjör búa, ellilífeyrisþegar, öryrkjar, einstæðir foreldrar og þeir aðrir sem lægstar hafa tekjurnar, verði enn um ófyrirsjáanlega framtíð að búa við stórskert kjör miðað við lífsafkomuna fyrir ári. Er þó öllum ljóst að margt af þessu fólki býr við sult og seyru, að ekki sé talað um þá sem atvinnuleysið hefur bitnað á.

Sumir hæstv. ráðh. leggja sig nú fram um, þegar þeir boða áframhaldandi kjaraskerðingu, að höfða til þegnskapar þessa aðþrengda fólks og útmála þá geigvænlegu hættu sem efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar stafi af þeim viðskiptahalla og skuldasöfnun erlendis sem hlytist af því að launakjör og lífeyrisgreiðslur yrðu bætt svo að einhverju munaði. Allir verði að herða sultarólina og vinna sameiginlega að því að rétta við þessa bágu og hættulegu stöðu þjóðarbúsins.

Þegar þjóðin er ákölluð með þessum hætti ríður á miklu að þeir sem byrðarnar bera geti réttlætt það fyrir sér og sínum að ástæða sé til þess að taka þessar særingar ráðamanna alvarlega og launafólk sjái með eigin augum að allar aðgerðir stjórnvalda séu í samræmi við kröfur þeirra sjálfra til aðþrengdra alþýðuheimila, þ.e. að þeir sem breiðust hafa bökin beri mestar byrðarnar eða a.m.k. einhverjar byrðar og meðferð yfirvalda á erlendum gjaldeyri þjóðarinnar staðfesti staðhæfingar hæstv. ráðh. um að frekari skuldasöfnun erlendis leiði þjóðina í glötun.

Hefur fólk sem horfir opnum augum á það sem hefur verið að gerast fengið staðfestingu á því að samræmi sé milli orða og athafna hæstv. ráðh. svo að réttlætanlegt sé að gefa baráttulaust eftir verulega hluta launa sinna? Öðru nær. Þegar launatekjur stórrýrna að kaupmætti og svo mjög þrengir að þeim sem verst eru settir að þeir eygja ekki hvernig þeir eiga að láta launin endast til næstu útborgunar eru það á hinn bóginn atvinnurekendur sem njóta þess að raunlækkun launa almennings þýðir stórminnkun útgjalda hjá fyrirtækjum, þeir auka gróða sinn.

Eftir að lagasetningu hefur verið beitt til þess að þvinga launafólk og lífeyrisþega til að herða sultarólina m.a. vegna bágrar stöðu ríkissjóðs upplýsa dagblöðin að einmitt þeir menn sem harðast leggja að aðþrengdu alþýðufólki að sýna nú þegnskap til þess að bjarga ríkissjóði og þjóðarbúinu hafi látið ríkissjóð greiða niður kaup á einkabifreiðum sínum svo að nemur samtals 3.5–4 millj. kr. Geta lífeyrisþegar, einstæðir foreldrar, atvinnuleysingjar og láglaunafólk yfirleitt tekið alvarlega kröfur þessara ráðamanna um að það sýni þann þegnskap að sætta sig við óskerf laun, við launakjör sem hæstv. ríkisstj. auglýsir nú út um allan heim sem ágóðavænlegan þátt í rekstri fyrirtækja á Íslandi umfram það sem gerist í öðrum löndum? sýnilegt er að erlendir auðhringar eiga að geta treyst á að þessi lágu laun sem verkafólk býr nú við séu ekkert stundarfyrirbrigði.

Þess er því naumast að vænta að aðþrengt launafólk geti tekið alvarlega kröfur þessara sömu manna um að hafa engin viðbrögð uppi gegn stöðugri skerðingu lífskjara þegar svo er staðið að dreifingu þeirra byrða sem útmálað er að þjóðin verði að leggja á sig.

Það frv. sem hér til umr., frv. til l. um lán vegna flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli, er enn einn veigamikill þáttur í því efni að launafólk getur ekki tekið alvarlega kröfur ríkisstj.-flokkanna um að það láti yfir sig ganga stöðugt meiri rýrnun kaupmáttar launa til þess að gegna því hlutverki sem ríkisstj. hefur á það lagt í því skyni að slík rýrnun kaupmáttar launa leiði til samdráttar í innflutningi og úr skuldasöfnun þjóðarinnar dragi erlendis.

Ríkisstj.-flokkarnir hafa lagt á það áherslu að þær lántökur sem þó verði leyfðar verði að takmarka við þær allra arðbærustu framkvæmdir sem fyrirfinnist þar sem stefnt er að framleiðslu sem annaðhvort auki gjaldeyriseign þjóðarinnar eða dragi úr gjaldeyriseyðslu hennar. Og hvað eru svo þessir sömu flokkar — og þar má bæta garminum honum Katli, Alþfl., við — að leggja til að samþykkt verði á hv. Alþingi þá sömu daga og allt er gert til þess að leggjast á og halda niðri kröfum launafólks um að í einhverju verði linað á mestu lífskjaraskerðingunni sem er að koma mörgum á vonarvöl?

Hæstv. ríkisstj. og Alþfl. ætlast til þess á sama tíma að Alþingi samþykki að þjóðin taki erlent lán að upphæð áður en lýkur um 616 millj. kr. til þess að byggja nýja flugstöð á Keflavíkurflugvelli, flugstöð sem jafnvel hæstv. forsrh. viðurkennir að sé of stór miðað við þarfir þjóðarinnar. Raunvextir dollaralána eru ærnir og ekki hafa fengist upplýsingar um hversu háan má áætla heildarfjármagnskostnað við byggingu flugstöðvarinnar, þ.e. hver vaxtakostnaður verður orðinn af lánunum þegar þau hafa verið endurgreidd. Og eins og áður hefur verið bent á í umr. er gert ráð fyrir að allur innlendur kostnaður við framkvæmdina verði greiddur með erlendum lánum. Um arðsemi af flugstöðvarbyggingunni þarf ekki að ræða, hin nýja mun verða miklum mun dýrari í rekstri en sú sem fyrir er.

Ljóst er að aðstæður til að taka á móti farþegum á Keflavíkurflugvelli mættu vera betri en nú. En hversu margvíslegar og brýnar voru ekki þær þarfir sem ekki var unnt að sinna við afgreiðslu fjárlaga fyrir síðustu áramót og brýnni en ný flugstöð í Keflavík? Enginn vildi leysa þær með stórfelldum lántökum erlendis heldur var ákveðið að lausn þeirra yrði að bíða betri tíma vegna þess að mark var tekið á upplýsingum um hvernig ástatt væri í efnahagsmálum og hvernig skuldastöðu þjóðarinnar væri komið og um væri að ræða þátt í ákvörðunum um að draga úr skuldasöfnun þjóðarinnar.

Sú ákvörðun sem ríkisstj.-flokkarnir ásamt Alþfl. leggja til að tekin verði um stórfelldar lántökur erlendis til byggingar of stórrar flugstöðvar einmitt nú eins og skuldamálum þjóðarinnar er háttað er ögrun við það fólk sem berst nú örvæntingarfullri baráttu fyrir því að láta stórskert laun duga fyrir lífsnauðsynjum heimila sinna og er á sama tíma talin trú um að það verði að leggja á sig og fjölskyldur sínar þessa lífskjaraskerðingu til þess að þjóðin geti grynnt á skuldum sínum erlendis.

Hér er verið að efna til nær 620 millj. kr. erlendrar lántöku auk vaxta til framkvæmdar sem er tímaskekkja eins og á stendur ef ætlast er til þess að láglaunafólk sem aðrir taki mark á fullyrðingum ráðamanna þjóðarinnar um þær forsendur sem þeir staðhæfa að séu grundvöllur fyrir raunverulegri nauðsyn á kjaraskerðingu jafnvel hjá gamalmennum og öryrkjum. Ef þetta frv. verður samþykkt hefur hver og einn launþegi og lífeyrisþegi gildar ástæður til þess að telja þær forsendur sem stjórnarflokkarnir hafa lagt til grundvallar stórfelldri kjaraskerðingu, uppspuna og lygi og staðfestingu þess að þeir sem að kjaraskerðingunni standa taki a.m.k. sjálfir ekki minnsta mark á sínum eigin rökstuðningi fyrir lífskjaraskerðingunni.

Þar fyrir utan ætti hverjum manni að vera ljóst, og ekki síst hv. alþm. sem hafa trausta þekkingu á því hvar framkvæmdaþarfirnar hvarvetna um landið eru brýnastar, að mjög víða brenna þær þarfir heitar í samgöngumálum, heilbrigðismálum, hafnamálum og skólamálum en um er að ræða varðandi aðbúnað fyrir farþegaflug á Keflavíkurflugvelli. Dreg ég þó ekkert úr því að þar þarf úr að bæta þegar þjóðin hefur betri efni á því en nú.

Ég satt að segja vorkenni þeim mönnum sem eru fulltrúar fólks úti á landsbyggðinni sem berst fyrir framfaramálum í sínum byggðarlögum, og nefni ég þar t.d. hv. 6. þm. Norðurl. e. Guðmund Bjarnason, að koma hér í ræðustól til að réttlæta þá ákvörðun sem hér á að fara að taka um lántöku sem mun áður en lýkur nema 600–700 millj. kr. til að reisa allt of stóra flugstöð á Keflavíkurflugvelli einmitt nú þegar viðskiptahalli og erlendar skuldir þjóðarinnar eru notuð sem grundvallarrök fyrir því að skera laun almennings svo stórlega niður að mörg heimill líða nauð.

Ég ætla í þessu sambandi ekki að fara mörgum orðum um þá fáheyrðu niðurlægingu sem felst í því að Íslendingar skuli ganga með betlistaf til herraþjóðarinnar á Suðurnesjum þegar bæta á aðstöðu til farþegaflugs á Keflavíkurflugvelli. Væri sú betliganga þó ein sér næg ástæða til þess að þetta frv. væri fellt. Um þetta þýðir ekki að ræða við dygga stuðningsmenn erlendrar hersetu á Íslandi en þann hóp fylla nú í þessu máli einstaklingar sem ég hugði að þyrftu lengri tíma til að tileinka sér aronskuna en raun ber nú vitni.

Léttvæg er sú afsökun fyrir þessum auknu tengslum við herliðið að með byggingu flugstöðvarinnar verði unnt að fela hernámsliðið fyrir augum allra þeirra innlendra sem úttendra manna sem gera sér ljósa þá þjóðernislegu niðurlægingu sem dvöl herliðsins og yfirráð þess yfir íslensku landsvæði eru sjálfsvirðingu þjóðarinnar. sú smán verður að sjálfsögðu ekki falin frekar en hægt er að sópa niðurgreiddum Mercedes Bens undir teppið.

Um þennan þátt málsins ætla ég ekki að hafa fleiri orð en koma aftur að vali þeirra manna sem að þessu frv. standa á því hvaða framkvæmdir skuli sitja í fyrirrúmi á erfiðleikatímum í þjóðfélaginu. Þm. hafa yfirleitt talið sér skylt að leggja sig fram um að vinna að því að bæta úr erfiðleikum í samgöngumálum, stuðla að auknu öryggi í rekstri vanbúinna flugvalla og efla framkvæmdir á hafnamálum og skólamálum og tryggja viðunandi aðstöðu í heilbrigðismálum þar sem þessar þarfir eru brýnastar í þjóðfélaginu hvort sem er í þeirra eigin kjördæmi eða öðru. Við afgreiðslu núgildandi fjárlaga voru framlög til þessara málaflokka skorin niður að raungildi og sérstaklega ákveðið að engar nýjar framkvæmdir í þessum málaflokkum yrðu hafnar á þessu ári. Þessa stefnu ríkisstj. studdu þm. stjórnarflokkanna með tilvísun til erfiðleika í efnahagsmálum, halta á ríkissjóði og of mikilla erlendra skulda þjóðarinnar. En þeir eru nú á hinn bóginn að velja hvað skuli taka fram yfir það að framlög til slíkra nauðsynlegustu framkvæmda hvarvetna í landinu haldi raungildi og þeir hafa ákveðið hvað skuli meta meir en að leyft verði að hefja nokkra slíka nauðsynjaframkvæmd hér í þéttbýlinu eða úti á landsbyggðinni.

Það frv. sem hér liggur fyrir er staðfesting á því hvað hv. þm. stjórnarflokkanna og Alþfl. hafa valið. Val þeirra er ekki óskert eða aukið fjármagn frá fyrra ári til nauðsynlegustu framkvæmda í öryggismálum á flugvöllum úti á landi eða til byggingar flugafgreiðslustöðva þar sem engar eru fyrir. Val þeirra er ekki óskert fjármagn eða meira fjármagn til hafnamannvirkja, skólahúsnæðis, dagvistarmála eða sjúkrahúsa eða heilsugæslustöðva, val þeirra er ekki nýjar framkvæmdir í þessum málaflokkum. Nei, val þm. stjórnarflokkanna og Alþfl. er ekkert af þessu heldur stórfelld lántaka erlendis til þess að byggja einmitt núna nýja flugstöð á Keflavíkurflugvelli og sú framkvæmd er ekki skorin við nögl. Jafnvel aðalforinginn, hæstv. forsrh., er á því að líklega sé hún of stór, en hvaða máli skiptir það á þessum tímum fyrst um er að ræða flugstöð suður á Keflavíkurflugvelli?

Ljóst er að það láglaunafólk sem berst nú í bökkum vegna sífellt rýrnandi kaupmáttar launa og sér fram á áframhald á þeirri kaupskerðingu þarf sannarlega ekki að taka alvarlega þau rök sem stjórnvöld hafa beitt sem heilagri nauðsyn fyrir kjaraskerðingu. Þegar skuldir þjóðarinnar nema um 60% þjóðarframleiðslunnar þar sem verulegur hluti lánanna hefur þó verið tekinn til þess að auka gjaldeyrisöflun eða spara gjaldeyri fylgja þessir flokkar rökum sínum um nauðsyn þess að keyra alþýðu manna niður í sárustu fátækt með því að efna til nær 620 millj. kr. erlendra skulda til þess að byggja glæsibyggingu á Keflavíkurflugvelli. Til þessara framkvæmda á að auka skuldir þjóðarinnar um 10 þús. kr. á hverja fjölskyldu í landinu. Þessi upphæð dygði til þess að greiða 10 300 manns fimm þúsund kr. launahækkun á mánuði í heilt ár.

Stjórnarflokkarnir hafa lagt sig fram um að koma á framfæri við þjóðina því mati að hún sé illa stödd, hafi eytt um efni fram, búi við ofurþunga af skuldabyrði erlendra lána og að auknir erfiðleikar séu á endurgreiðslu þeirra lána vegna rýrnandi þjóðartekna, framtíðin sé uggvænleg og óvissu háð en út úr vandanum sé hægt að komast með því að skerða kjör launafólks stórlega og að þjóðin neiti sér um að uppfylla ýmsar brýnustu þarfir á nýrri fjárfestingu. En með því að leggja fram það frv. sem hér liggur fyrir þar sem lagt er til að efnt verði til um 620 millj. kr. erlendrar lántöku til glæsibyggingar á Keflavíkurflugvelli eru stjórnarflokkarnir að leysa almenning algerlega undan því að taka nokkurt minnsta mark á ákalli hæstv. ríkisstj. um þjóðarsamstöðu um lausn efnahagsvandans. Hæstv. ríkisstj. er með flutningi þessa frv. að gera hverjum manni ljóst að ekkert nema falsrök liggja að baki kröfu stjórnarflokkanna um að launafólk sætti sig við að þurfa að neita sér um brýnustu daglegar þarfir í heimilisrekstri og sífellt skertan kaupmátt launa. Hæstv. ríkisstj. er með flutningi þessa frv. að staðfesta að forsendur sem haldið hefur verið á loft sem rökum fyrir efnahagsaðgerðum hennar, sem ekkert hafa verið annað en kjaraskerðing hjá launafólki, eru falskar. Einasti tilgangur og markmið þeirra hefur verið að minnka hlut launafólks af verðmætasköpuninni í þjóðfélaginu, þeirri verðmætasköpun sem launafólk í landinu stendur undir með vinnu sinni.