26.10.1983
Efri deild: 9. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í B-deild Alþingistíðinda. (234)

8. mál, ráðstafanir í sjávarútvegsmálum

Valdimar Indriðason:

Virðulegi forseti. Ekki fer á milti mála að hér verða miklar endurtekningar um sama mátefni í ræðum manna, þegar rætt er um sjávarútveg. Ég fagna því samt að þessi mikla umr. skuli hafa farið fram. Það er einmitt vegna þess, hvaða ástand þar ríkir í dag, sem hér er búið mikið að ræða um, að þessi umr. er svo mikil, bæði hér og meðal þjóðarinnar allrar.

Vandi útgerðar í dag er misjafn, það skulum við viðurkenna, en það má segja að verkefnaskorturinn sé einkenni á öllum fyrirtækjum í sjávarútvegi. Það er það sem hefur farið hvað verst með þau og þau líða mest fyrir í þeirri óðaverðbólgu sem veður uppi, en einnig hinn mikli rekstrarkostnaður og að fá ekki fjármagn til þess að fjármagna. Það hefur verið erfiðast og er gegnumgangandi, vil ég segja, hjá öllum útgerðarfyrirtækjum á Íslandi í dag.

Þjónustugreinarnar sem þjóna þessum atvinnuvegi, smiðjur, slippar og aðrir slíkir, raftakaverkstæði og annað, geta ekki lánað útgerðinni meira. Þau eru öll af vilja gerð og hafa sýnt það, veitt mikla þjónustu, en þau hafa ekki meira bolmagn til þess að lána í þennan rekstur. Vandinn hrúgast því upp og ég bendi hv. þingdeild á að þarna duga ekki núna, eins og verið hefur undanfarin ár, vil ég segja, þær skammtímalausnir sem hafa birst í formi stuttra skuldbreytingalána. Ég veit ekki betur en að meginþorrinn af þeim skuldbreytingalánum hafi fallið og séu fallin í vanskil. Þetta er ekki til þess fallið að gera neinum gott. Það er haldið áfram því sukki sem þarna er á ferðinni. En þarna verður að snúa við. Ég er viss um að ef tekið er á þessum þætti og þessi lán höfð til lengri tíma væri hægt að skapa þann hæfilega aðlögunartíma í ört lækkandi verðbólgu sem mun gefa fyrirtækjunum möguleika á því að greiða sitt upp. Þessi fyrirtæki lifa ekki á bónbjörgum ef þau fá rekstrarskilyrði.

Þetta má segja að sé almenni vandinn. En hinn vandinn, það er stóri vandinn sem hefur verið rætt mikið um og einkum vegna ræðu hæstv. fjmrh., er hvernig með skuti fara. Menn hafa skiptar skoðanir á því, en ég vil meina að þeir hafi reynt að misskilja vandann á ýmsa vegu, sem er ekki sanngjarnt. Ég ætla ekki að blanda mér frekar í þá umr. En hinn almenni vandi liggur í þeim vöxtum og afborgunum sem útgerðin má sæta, einkum í tveimur stærstu sjóðunum, Fiskveiðasjóði og Byggðasjóði.

Við skulum gera okkur ljóst að við erum að byggja upp innlenda skipasmíði, sem allir eru sammála um að þurfi að gera, en enginn hefur getað fundið lausn á hvernig skuli gera. Útgerðarmenn hafa mjög verið varaðir við því að láta byggja skip sín innanlands vegna þess að þeir gætu ekki rekið þau við þær aðstæður sem væru í þjóðfélaginu. Samt hafa þeir keyrt sín mál áfram af dugnaði, skutum við segja, fengið 75% lán í Fiskveiðasjóði og 15% lán í Byggðasjóði eða 90%. Og hvernig er komið? Þetta er allt komið í vanskil. Þau skip sem voru byggð erlendis eru mun betur sett, enda getum við sagt að erlendur skipasmíðaiðnaður sé niðurgreiddur, en ekki hjá okkur, og ég er ekki að mæla með því. Þarna blasir vandi við okkur og við verðum að takast á við hann.

Og í hinum fræga lista, sem talað var um og komst í blöðin um miðjan september, hvað stendur þar? Þar eru 20 skip talin upp. Ég tek undir það með öðrum, að það var til vansæmdar að láta slíkt leka í fjölmiðla. Það á ekki að vera að hampa slíku. Í ársbyrjun 1979 voru vanskilaskuldir við Fiskveiðasjóð 189 millj. kr., en í árslok 1982 eru skuldirnar komnar í 491 millj. Hvað er að ske? Sama og áðan var verið að tala um: Þessi hrikalega verðbólga veldur þessu og verðbótaþættir sem bæta þarf á öll lán og enginn sér út úr. Þegar komið er á það stig að þessi skip fiska ekki fyrir þeim dráttarvöxtum sem eru í sjóðunum, þá gengur málið ekki upp.

Ég lofaði að vera stuttorður, og þetta eru endurtekningar meira og minna. Ég er bara að undirstrika þessi atriði. En það sem núna blasir við okkur og þolir enga bið er að hjá fyrirtækjum í sjávarútvegi, fiskvinnslufyrirtækjum, blasa við uppsagnir og einkum og sér í lagi hjá þeim fyrirtækjum sem eru að tapa skipunum sínum undir hamarinn vegna Fiskveiðasjóðs. Þau geta ekki og þora ekki að bíða með að segja upp sínum mannskap vegna þess að þar er ákveðinn uppsagnarfrestur. Þar er komin á sú regla, sem betur fer segi ég, að þar er vinnutrygging, þannig að fyrirtækin sjálf verða að greiða tekjutryggingu í umsaminn tíma.

Að lokum aðeins þetta: Ég vildi beina því, ég orða það ekki sterkara en það, til hæstv. sjútvrh. hvort ekki væri möguleiki á að fresta þeim uppboðum sem þegar hafa verið ákveðin á skipum á vegum Fiskveiðasjóðs á meðan þessi mál eru nánar könnuð og spyr hvað hæstv. ríkisstj. og Alþingi vilja gera í því að bæta hag útgerðarinnar.