08.02.1984
Neðri deild: 44. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2720 í B-deild Alþingistíðinda. (2340)

140. mál, lántaka vegna flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Ég talaði um það síðast þegar ég kom hér í stól út af þessu máli að við í BJ áskildum okkur rétt til að gera ýmsar aths. varðandi stærð, rúmmál og kostnað við þessa byggingu. Við höfum kíkt á einstakar tölur í þessu efni og þær eru býsna fróðlegar.

Ef við segjum að byggingarkostnaður flugstöðvar sé 40 millj, dollara eru það um 1200 millj. kr. Rúmtak flugstöðvarinnar er 114 000 m3 og það gerir byggingarkostnað á ellefta þúsund króna á m3. Ef við tökum hins vegar tölu sem Arkitektafélag Íslands gefur út til viðmiðunar um kostnað fyrir rúmmálseiningu í vélvæddum húsum eru þær tölur 7545 kr. pr.m3. Það er sem sagt næstum 50% hærri kostnaður á rúmtakseiningu í áætlaðri flugstöð en Arkitektafélag hefur gefið út um sambærilegar byggingar hér.

Ef við berum saman núverandi flugstöð og áætlaða flugstöð um flatarmál og rúmmál kemur í ljós að það er áætluð u.þ.b. tvöföldun á flatarmáli. Núverandi flugstöð er 7000 m2, en ný flugstöð verður um 13 600 m2. Það er sem sagt tæp tvöföldun. Rúmmálsaukning milli flugstöðva er hins vegar næstum fimmföld. Það verður næstum fimmföld aukning rúmmáls þó ekki sé nema tvöföld aukning flatarmáls.

Ef við lítum nánar á hina fyrirhuguðu byggingu kemur í ljós að um þriðjungur rúmmáls nýju flugstöðvarinnar, 34%, er nokkurs konar gróður- eða þakrými, þ.e. ónotað rými sem upprunalega var á elstu teikningum m.a. hugsað til að kynna íslenskan gróður. Það sem ég þekki af íslenskum villigróðri þarf ekki margra metra lofthæð, þannig að ég hygg að ef það væri eina forsendan fyrir þessum strúktúr mætti leysa það á lágreistari hátt. — Ef menn hafa áhuga á að byggja grasasafn er hægt að gera það einhvers staðar nær fleiri skólum og rannsóknarstofnunum landsins en Miðnesheiði er.

En ef við athugum síðan hvað þessi fyrirhugaði gróðurskáli í raun og veru kostar, ef hann er þriðjungur rúmmáls flugstöðvarinnar, þ.e. um 38 þús. m3, þá eru það um 390 millj. kr. Ef þessum peningum skal varið til að hýsa íslenskan villigróður ber að lýta öðrum augum á ýmislegt sem fram hefur komið hér í umr. um fjármál, eins og hv. þm. Geir Gunnarsson vék að áðan.

Við munum gera frekari grein fyrir þessum útreikningum okkar í þáltill. sem við hyggjumst leggja fram um endurskoðun hönnunar á væntanlegri flugstöð, en augljóslega er margt sem hægt er að færa þar til betri vegar.