26.10.1983
Efri deild: 9. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í B-deild Alþingistíðinda. (235)

8. mál, ráðstafanir í sjávarútvegsmálum

Ólafur Jóhannesson:

Virðulegi forseti. Út af þeim orðum, sem hv. 3. þm. Suðurl. beindi til mín, vil ég segja það, að ég tel mér það síst til vansæmdar að skipta um skoðun þegar það á við. En í gengisfellingarmálinu hef ég ekki skipt um skoðun. Ég hef alltaf verið andvígur gengisfellingum. Það geta þeir ráðh. sem setið hafa með mér í stjórn borið vitni um. Hitt er alveg rétt, að ég hef neyðst til þess, eins og aðrir, að taka þátt í að gera slíka aðgerð. Ég tók það líka fram í máli mínu áðan að það gætu þau atvik komið að nauðsynlegt væri að grípa til þess úrræðis. Það varð að gera 1972, en síðan, eins og hv. þm. tók fram, beitti ég mér fyrir því að gengið var hækkað 1973. Það hafði ekki verið gert síðan Jón Þorláksson hækkaði gengið á sínum tíma og það hefur ekki heldur verið gert síðan.

Það er misskilningur hjá hv. þm. að ég sé höfundur gengissigs. Það er algjör misskilningur.

Að öðru leyti vil ég taka fram að ég bar fram skýrar spurningar til hæstv. fjmrh. og reyndar óbeint kannske til hv. 3. þm. Suðurl. og þeim spurningum hefur ekki verið svarað. Þeir hafa ekki gert sér grein fyrir því um hvað þeir voru að tala. Ég held að það sé góður siður að hugsa málin áður en talað er um þau.