09.02.1984
Sameinað þing: 46. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2744 í B-deild Alþingistíðinda. (2362)

164. mál, kennsla í Íslandssögu

Flm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Hv. þm. Guðrún Helgadóttir, 10. landsk. þm., hefur býsna sérstæðar skoðanir. Hún kaus að snúa út úr þessari till., vék að því að hér stæði að ætti að varðveita það menningarsamfélag sem hér hefur þróast um aldir. Já, það stendur í till., en hverjum hv. þm. dettur í hug, nema þá hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur sem vill snúa út úr till. og vill gera lítið úr henni á sem flestan hátt, að till. miði að því að okkar menningarsamfélag staðni? Hverjum dettur það í hug nema hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur, sem kannske hefur svolítið staðnaðan hugsunarhátt í þessum efnum, leyfi ég mér að segja?

Hún kallar þessa tillögu hræsnisbull, hræsnisbull sagði hv. þm. hér. (Gripið fram í.) Hv. þm. notaði þau orð og þau eru skráð í þingtíðindi. Hún sagði hér að þessi till. væri yfirborðskennd og hræsnisbull, og ég vil andmæla því. Það sem liggur að baki þessari till. er að Alþingi lýsi þeirri stefnu sinni að það vilji að kennsla í sögu íslensku þjóðarinnar verði aukin og að hún miði að því að nemendur öðlist þekkingu og skilning á sögu þjóðarinnar. Ég skil satt að segja ekki hvað hv. þm. getur haft á móti þessum markmiðum. Hún hefur á móti því að það sé hluti sögukennslunnar að efla með íslensku æskufólki trú á landið og segir að það sé hlutverk okkar alþm. Það er hlutverk allra uppalenda og það er líka hlutverk þeirra sem fræða uppvaxandi kynslóð um sögu íslensku þjóðarinnar. Það á að vera það og hlýtur að vera það.

Hv. þm. vék hér að Ríkisútvarpinu, líklega vegna þess að ég á sæti í útvarpsráði. Það er alveg rétt að Ríkisútvarpið hefur veigamiklu hlutverki að gegna varðandi varðveislu og verndun íslenskrar tungu og það er líka rétt að þar hefur ekki tekist allt sem skyldi. Ég skal fúslega undir það taka. Ambögurnar sem dynja í hlustum fólks úr Rás 2 eru auðvitað til skammar og um það hefur margsinnis verið rætt í útvarpsráði og þar eru uppi aðgerðir til umbóta. Mönnum er ljóst að þarna hefur ekki tekist sem skyldi og þarna þarf að breyta til og láta af þeirri aulafyndni og amböguhætti sem þar hefur því miður riðið húsum í allt of ríkum mæli frá því að þessi rás tók til starfa. Þar þarf verulega að söðla um og er verið að vinna að því.

En ég skil satt að segja ekki þá andúð og andstöðu sem kom frá frá hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur í garð þessarar till., sem ég tel vera mjög jákvæða og miða til umbóta. Það getur vel verið að henni finnist ekki mikið til þess koma þó að fólk viti ekki hvenær kristni var lögtekin á Ístandi. Mér finnst það. Mér finnst það skipta máli.

Ég ætlaði nú að leiða hjá mér umræður um kvennasögu sem hún minntist á. Að mínu mati er ekkert til sem heitir kvennasaga. Það er til mannkynssaga sem greinir frá konum og körlum. Það er ekkert til sem heitir kvennamenning. Það er bara til menning. Nógu eiga menn erfitt með að skilgreina hugtakið menningu þó að ekki komi þar til kvennamenning líka, sem er óskilgreint hugtak sem ég hef aldrei heyrt skýringar á. Ég held að það sé hættulegt að vera að greina þessa hluti upp í kvennasögu og karlasögu. Og hvað kemur næst; barnasaga? Ég held að þetta sé hættulegt og ég held að þetta sé tóm vitleysa í rauninni. Við eigum að tala um mannkynssögu og við eigum að tala um okkar menningu sem heild og auðvitað á að gæta þess að þar sé ekki hlutur eins eða neins fyrir borð borinn, hvort sem það eru konur eða karlar.

Ég ætla ekki, herra forseti, að þessu sinni að hafa þessi orð fleiri.