09.02.1984
Sameinað þing: 46. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2755 í B-deild Alþingistíðinda. (2371)

172. mál, hagnýting Íslandsmiða utan efnahagslögsögunnar

Flm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Virðulegi forseti. Hv. alþm. og þjóðin öll raunar kannast við þá umr. sem farið hefur fram um réttindi Íslendinga utan efnahagslögsögunnar, svokölluð hafsbotnsréttindi. Um þau mál voru fluttar og samþykktar þáltill. fyrir rúmum fimm árum. Þar á meðal var till. um að gæta réttinda okkar á svonefndu Hatton-Rockall-hafsvæði. Þar er um að ræða mjög stórt landsvæði þar sem enginn efi er á að fiskimið er að finna. Þetta hafsvæði ber að hagnýta. Það er með vilja gert að kalla þetta Íslandsmið, vegna þess að skv. ákvæðum hafréttarsáttmála eigum við hafsbotnsréttindi á þessu svæði, og þeim hafsbotnsréttindum fylgja allar lífverur á hafsbotninum, þ.e. öll krabbadýr og skelfiskur o.s.frv.

Ég tel heldur engan vafa leika á því, að þegar tímar líði fram muni þeir sem hafið eiga yfir sínum eigin hafsbotni einnig eignast allar auðlindir hafsins. Þannig varð þróunin. Truman Bandaríkjaforseti lýsti yfir eignarhaldi Bandaríkjamanna á 200 mílna hafsbotnsréttindum undan ströndum þess stórveldis. Það var árið1945. Ég hygg að það hafi verið árið 1948 að stórblaðið New York Times vakti á því athygli í ritstjórnargrein að þeir sem hafsbotninn ættu mundu einnig eignast hafið yfir og öll þau auðæfi sem í því væru. Þetta gekk eftir á tveim til þrem áratugum og svo mun einnig fara að því er varðar hafsvæðið yfir botninum.

Ég hef rökstutt það í ræðum hér áður og skal ekki gera í löngu máli nú, að það séu allt aðrar reglur sem gildi um hagnýtingu fiskstofna á úthafinu svonefnda, þ.e. á hafsvæðinu utan við landgrunnið. Landgrunnið getur teygt sig allt út í 400–500 mílur þar sem sérstakar ástæður eru fyrir hendi og svo háttar einmitt til hér suður af Íslandi. Það eru allt aðrar reglur sem gilda um hagnýtingu á úthafinu eða þeim hafsvæðum sem eru yfir hafsbotni sem viðkomandi þjóð á.

Menn vita það að einmitt núna þessar vikurnar er unnið ötullega að því að reyna að ná einhvers konar samkomulagi og samstöðu við Færeyinga, Íra og Breta um skiptingu þessa hafsvæðis eða sameign þess. Ef svo fer að þessar þjóðir taka ekki upp við okkur samninga eða halda áfram samningum við okkur, sem leiða til samkomulags, hljótum við Íslendingar að endurskoða okkar afstöðu og athuga með hvaða hætti við gætum gert einhliða ráðstafanir.

En í þeirri till. sem nú er flutt felst það fyrst og fremst að við eigum að hagnýta þessi Íslandsmið, ekki bara vegna þess að okkur vantar fiskimið, það er verið að skera niður veiðar okkar fallega og góða flota, sem kannske er eitthvað of stór, en að því verður vikið í umr. um aðra þáltill. sem hér liggur fyrir og væntanlega ekki á þessum fundi, en auðvitað eigum við að hagnýta þessi mið af því að það er enginn vafi á því að þar er að finna auðæfi. Það þarf að leita þeirra og það þarf að hefja þar veiðar til þess að nýta okkar flota og efla okkar atvinnulíf, en líka til þess að tryggja okkar framtíðarréttindi. Og það er það sem mest er um vert, því að það leiðir af sjálfu sér að nú í hinni öru þróun hafréttarins, þegar augu manna beinast fyrst og fremst að hafsbotnsréttindunum, verða það þeir sem þessi mið hagnýta sem öðlast venjurétt þar og styrkja sína stöðu þegar endanlega verður úr því skorið hverjum þessi réttindi tilheyri.

En ég ætla ekki að fara lengra út í þessa sálma. Ég hef svo oft flutt þessi rök hér að ég held að ég sleppi því í þetta sinn, enda eru fáir hér í salnum núna. En þó að hér sé fátt manna nú tel ég mjög brýnt að víkja að máli sem er þessu náskylt, þ.e. hagnýtingu fiskimiða á Norður-Atlantshafi í samvinnu við grannþjóðirnar og svo auðvitað á okkar eigin vegum að svo miklu leyti sem okkur er það unnt.

Ég tel að þetta sé mjög brýnt mál, herra forseti, og þó að það sé ekki nákvæmlega það mál sem á dagskránni er, þá veit ég að mér leyfist að víkja að því. Það gaf auðvitað ekki á dagskrá verið vegna þess að ótíðindi þau sem Alþingi ber að ræða þegar á þessum degi bárust okkur ekki til eyrna fyrr en nú í hádeginu í útvarpi landsmanna.

Ég tel að hér sé um svo gífurlega alvarlegt mál að ræða að Alþingi Íslendinga hljóti að hafa eyru opin. Og ég vona að það sem ég segi nú berist til eyrna Íslendinga allra, a.m.k. allra alþm., og þó að hér sé ekki staddur nema einn hæstv. ráðh., ég veit að þeir eru önnum kafnir við önnur störf, þá þætti mér vænt um að hann yrði látinn vita að hér væri verið að ræða þau mál sem varða okkar framtíð og sem ég vil að komist á framfæri í Alþingi Íslendinga á þessum degi. En málið er auðvitað það, sem þið vitið sem hafið hlustað á hádegisútvarp, að Efnahagsbandalag Evrópu hefur ákveðið að leita eftir því við Grænlendinga, þegar þeir segja sig úr bandalaginu, að Efnahagsbandalagið fái veiðiréttindi á Grænlandsmiðum, væntanlega meira og minna ótakmörkuð, og borga fyrir 11/2 milljarð ísl. króna, að mér skilst árlega.

Hver er sá maður sem lætur sér detta í hug að Efnahagsbandalagið, þó ríkt sé, geri þetta nema vegna þess að það ætlar sér að moka upp fiskinum á Grænlandsmiðum? Það er enginn vafi á því, það ætla þeir sér að gera. Það er kannske stórt orð að kalla þetta mútur eða tilraun til íhlutunar um innanríkismál. Það er heimilt skv. hafréttarsáttmála að selja veiðiréttindi. En það hlýtur að vera frumskylda íslenskra stjórnvalda að bregða nú hart við og reyna að koma í veg fyrir að slíkir samningar geti tekist. Það væri mikil vá fyrir dyrum ef Efnahagsbandalag Evrópu næði þessum réttindum og tækist að strádrepa fiskstofna við Grænland eftirlitslaust. Það yrði miklu verra ástand en nú er, því að Grænlendingar hafa ekki, svo að ég viti til, varðskip eða nema aðstöðu til að fylgjast með veiðum stórs flota Evrópulanda ef hann fengi að valsa laus á þessum miðum. Ég taldi mér skylt, úr því að ég stóð hér hvort sem er í ræðustól, að vekja á þessu athygli. Það verður að bregðast mjög skjótt við þessu og gera Grænlendingum grein fyrir því að það væri ekki líklegt til þess að auka vináttusamband og samskipti Íslands og Grænlands ef þeir heimiluðu slíka rányrkju á sameiginlegum íslenskum og grænlenskum stofnum, og jafnvel þótt það væru einungis grænlenskir stofnar.

Ég veit ekki hvort mikil þörf er á því að fara lengra út í svo sjálfsagt mál. Þessu ætti hver einasti maður að gera sér grein fyrir og mér fannst að þessi dagur mætti ekki svo líða að ekki yrði vakið máls á þessu hér á hinu háa Alþingi. Ég verð að játa að vísu að fyrir fimm árum, sem ég nefndi, þegar farið var að tala um réttindi okkar á Jan Mayen-miðum, Reykjaneshrygg, Rockall-svæðinu og samskipti við Grænlendinga, þá voru menn býsna seinir til að gera sér grein fyrir hverra réttinda við ættum þarna að gæta. En ég vona að í þetta skipti sjái menn hver vá væri fyrir dyrum ef strax á næsta ári kæmi floti tuga eða hundraða skipa frá Efnahagsbandalaginu, sem þurrkaði upp grænlensk fiskimið, því að eftirlit gæti ekki orðið þar að neinu gagni.

Það sem við eigum að gera er auðvitað ekki að hindra Grænlendinga í sinni viðleitni að afla sér fjár, heldur miklu fremur að styrkja þá til þess að nýta sín mið í samvinnu með okkur. Við höfum þegar leyft Grænlendingum einum þjóða að landa afla í íslenskum höfnum og það er vel að við skyldum gera það. Við eigum að taka upp miklu nánari samskipti við Grænlendinga. Ég vil segja að það sé tímabært að taka upp viðræður, ekki bara við þá, heldur líka við Færeyinga og kannske að einhverju leyti við Norðmenn, um Jan Mayen-svæðið, um samstjórn á þessu svæði og á öllum norðurhluta Norður-Atlantshafs, samstjórn fiskimiðanna. Þá þyrftum við kannske ekki á kvótakerfinu að halda með þeim hætti sem við teljum okkur nú neydd til að innleiða. Það mætti kannske stjórna því öllu með allt öðrum og viðkunnanlegri hætti.

Hér er einn ráðh. kominn og hefur kannske heyrt eitthvað af því sem ég hef verið að segja. Ég vona að hann veki athygli annarra hæstv. ráðh. á þessu máli. Kannske hafa þeir heyrt þetta í útvarpinu og hafa e.t.v. þegar gert einhverjar ráðstafanir eða hugleitt hvaða ráðstafanir þeir geti gert. En í öllu falli hlýtur þetta mál að koma til umræðu aftur hér á hinu háa Alþingi, vonandi í næstu viku.