09.02.1984
Sameinað þing: 46. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2759 í B-deild Alþingistíðinda. (2373)

172. mál, hagnýting Íslandsmiða utan efnahagslögsögunnar

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Sem einn af flm. þeirrar þáltill. sem hér er til umr. þarf ég að sjálfsögðu ekki að leggja frekari áherslu á tilgang hennar eða ætlan, en hv. 1. flm. gerði. Ég vil þó leyfa mér að þakka síðasta ræðumanni, hv. 4. þm. Vesturl., fyrir undirtektir hans við efni hennar. Það sem hann sagði var allt rétt. Okkur er að sjálfsögðu skylt að gera hvað við getum til þess að leita að þeim auði sem við vitum að til er og við eigum enn eftir að ná tökum á, ekki til eyðingar og eyðileggingar, heldur til nytja fyrir land og þjóð.

En það var vegna þeirra aðvörunarorða sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson hafði yfir hér áðan sem ég vildi standa upp og taka undir með honum, og reyndar hv. 4. þm. Vesturl. líka, taka undir þær aðvaranir sem komu fram í máli þeirra beggja. Það er enginn vafi að hér er stórhætta á ferðum fyrir fiskveiðar okkar Íslendinga. Og ekki aðeins fyrir okkur, heldur líka fyrir Grænlendinga og aðrar þjóðir við Norður-Atlantshaf, sem nytja þá fiskistofna sem þar er að finna.

Ég var á Grænlandi nokkra daga á s.l. sumri og komst í nokkra snertingu við þetta mál. Að sjálfsögðu er það búið að eiga nokkurn aðdraganda eða líklega allt frá því að Grænlendingar sjálfir hófu máls á því að draga sig út úr Efnahagsbandalaginu. Að sjálfsögðu getum við ekki kallað þetta mútur eða neitt þess háttar. Hins vegar er ljóst að þarna er verið að hafa áhrif á innanríkismál Grænlendinga. Það er verið að notfæra sér veikleika þeirra og erfiða aðstöðu gagnvart mörkuðum í Evrópu og líklega kemur fleira til en það.

Ég held að það sé skylda íslenskra stjórnvalda að kanna þetta mál til hlítar og ganga jafnvel strax svo langt að ná sambandi við grænlensku landsstjórnina og bjóða henni þá aðstoð sem við Íslendingar getum látið í té til að fyrirbyggja að af því verði sem um er rætt í fréttinni. Kannske er það of seint. En a.m.k. eigum við þá að gæta þeirra beinu hagsmuna okkar Íslendinga sem í hættu eru. Þá á ég að sjálfsögðu við það mikla veiðisvæði á Reykjaneshryggnum sem við erum því miður ekki búnir að fá þau yfirráð yfir sem við höfum samþykkt hér á Alþingi að sækja eftir og okkur ber samkvæmt hafréttarsáttmálanum, en við getum ekki fengið fyrr en fullgilding hans hefur átt sér stað. En það er hætt við að þessi floti, sem kemur frá Vestur-Evrópu, veigri sér ekki mikið við að dýfa sínum stórvirku veiðarfærum þar í sjó þegar hann fer þar um á leið á Græniandsmið eða heldur þaðan. Þarna kemur til kasta hæstv. dómsmrh. og ríkisstj. í heild, að Landhelgisgæslan verði þannig búin að hún geti verið við öllu búin til að verja okkar eigin fiskveiðimörk í vestri.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að taka undir þessi varnaðarorð með þeim þm. sem hér hafa talað. Og ég vil mælast til þess við forseta Sþ., sem hér gegnir störfum nú, að hann komi þeim boðum til hæstv. ríkisstj. að hún kynni þm. hér eftir helgina hvað hefur verið gert í því til þessa að ná samkomulagi við aðrar þjóðir, sem stunda veiðar í Norður-Atlantshafinu, um sameiginlega fiskveiðistefnu. Ég hef spurst fyrir um þetta sjálfur hjá forstjóra Hafrannsóknastofnunar en hef ekki enn þá fengið nein svör frá honum. Ég mælist því til þess við forseta, sem hér gegnir störfum, að þessum óskum mínum verði komið til hæstv. ráðh. og þeir skýri þinginu frá því hér munnlega strax í næstu viku. Því að hér er ekki um nein smágamanmál að ræða. Þetta er eitt mesta alvörumál þingsins frá því að við fengum síðustu skýrslu um hag íslensku fiskstofnanna.