09.02.1984
Sameinað þing: 46. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2760 í B-deild Alþingistíðinda. (2374)

172. mál, hagnýting Íslandsmiða utan efnahagslögsögunnar

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég vil í tilefni af því sem kom fram í ræðu hv. 4. þm. Norðurl. v. lýsa því yfir að hér er um mjög alvarlegt mál að ræða og er sjálfsagt, eins og hér hefur komið fram, eitt af því hættulegra sem við blasir nú í sambandi við okkar fiskveiðistefnu og okkar efnahagsmál. Ég gef lýst því yfir hér að ég mun beita mér fyrir því að þetta mál verði sérstaklega tekið til meðferðar í ríkisstj. Raunar er þegar búið að ræða það óformlega við hæstv. sjútvrh. og ég efast ekkert um að það mun verða tekið alvarlegum tökum nú þegar. Mér finnst málið það alvarlegt og hættulegt að ekki sé hægt að láta það dragast að einhver ákveðin viðbrögð komi frá íslensku ríkisstj. í sambandi við þetta tilboð Efnahagsbandalagsins til Grænlendinga. En eins og sagt hefur verið frá í fréttum er það þannig sett fram að búast má við því að erfitt verði fyrir Grænlendinga að standast slíkt tilboð. Þess vegna þurfum við eftir því sem okkur er fært að grípa þarna inn í á réttan hátt. Svo mikið er í húfi fyrir okkur sjálfa.

Ég vildi láta þetta koma hér fram af því að ég var svo heppinn að koma hér í dyrnar og hlusta á síðari ræðu hv. þm. og það sem hefur komið fram síðan.

Í sambandi við þá þál. sem hér er til umr. vil ég í leiðinni lýsa því yfir að ég er henni sammála og lýsi yfir stuðningi við hana.