26.10.1983
Neðri deild: 8. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í B-deild Alþingistíðinda. (238)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég er ekki undir það búinn nú með stuttum fyrirvara að svara því hvað skattsvik eru mikil með þjóðinni, heldur ekki hvað þau hafa verið mikil. Ég skal leita mér upplýsinga um það og það getur vel verið að ég finni einhver gögn um það frá því fyrir ekki svo löngu að Alþfl. fór með fjármálin og var í ríkisstj. í fleiri rn. En ég skal leita upplýsinga um það. Ég hef ekki gert neinar ráðstafanir á þessum fáu mánuðum, sem ég hef verið fjmrh., til þess að kanna þetta almennt, enda ekki neitt sérstakt komið upp síðan ég var fjmrh. sem gefur mér ástæðu til þess, þó að tilefni séu náttúrlega fyrir hendi alla tíð til að reyna að koma upp um svik í þjóðfélaginu almennt.

En hvað þessa sérstöku grein snertir í Alþýðublaðinu frá 25. okt. hef ég ekki enn gert neinar ráðstafanir. Þessi grein hefur farið fram hjá mér, ég sá ekki Alþýðublaðið þennan dag. Það furðar nú kannske engan á því. En nú þegar athygli minni hefur verið beint að þessari umræddu grein í Alþýðublaðinu frá 25. okt. mun ég að sjálfsögðu gera ráðstafanir til að kanna sannleiksgildi þeirra ummæla sem höfð eru eftir Þorkeli Bjarnasyni hrossaræktarráðunauti. Sem sagt, svar mitt er vonandi fullnægjandi fyrir hv. þm.