09.02.1984
Sameinað þing: 46. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2763 í B-deild Alþingistíðinda. (2380)

172. mál, hagnýting Íslandsmiða utan efnahagslögsögunnar

Flm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Mig langar einungis að þakka öllum hv. alþm. fyrir undirtektir við þetta mál. Ég efaðist raunar ekki um að við værum sammála um að fylgja vel fram okkar réttindum. En aðalatriðið er þó hitt, að það þarf að hafa þessi viðbrögð skjót og gera meira en vinna á bak við tjöldin. Það þarf að láta alla vita að íslenska þjóðin ætli sér ekki að láta þegjandi og hljóðalaust bjóða sér það að auðvald Vestur-Evrópu verði notað til að gjöreyða fiskimiðunum umhverfis land okkar og í nálægð við Grænland.

Ég er mjög þakklátur hæstv. ráðh. fyrir þær upplýsingar sem hann gaf um það að þegar væri farið að gera dagskýrslu um málið eins og það var orðað. Ég efaðist ekki frá upphafi um það og þóttist vita að utanrrn. mundi þegar í stað safna upplýsingum, enda er það þess skylda og sendiráða okkar erlendis að fylgjast með og koma þessum skýrslum hingað heim til þess að hægt sé að byggja málflutning okkar og vörn í þessu tilfelli í stað sóknar venjulega á þeim upplýsingum sem þar liggja frammi. En engu að síður er ég mjög þakklátur fyrir að upplýst skuli vera og enginn þurfi að fara í neinar grafgötur um að íslenskir sendiráðsstarfsmenn og utanríkisþjónustan sé þegar farin að vinna að málinu. En það er ekki nægilegt. Það er auðvitað Alþingi fyrst og síðast sem þarf að taka afstöðu til málsins og láta til sín taka og mun það vafalaust gera strax í næstu viku eða svo. En í öllu falli er málið komið á þá hreyfingu sem ég ætlaðist til og vonaðist til að það mundi fá.

Ég vil víkja aðeins að ummælum hv. þm. Péturs Sigurðssonar viðvíkjandi Reykjaneshrygg og okkar réttindum þar. Ég held að það sé ekkert launungarmál þótt ég greini frá því að okkar sérstaki sérfræðingur í hafréttarmálum, dr. Talvani, sem unnið hefur fyrir Íslendinga nú á annað ár er sammála okkur sem höfum haldið því fram að við getum tekið okkur 350 mílur á Reykjaneshrygg án þess að hafa um það samráð við nokkurn mann og meira að segja alla leið frá efnalagslínu Grænlendinga og út á Hattonbanka. En ástæðan til þess að ekki hefur þegar í stað verið lýst yfir okkar eignarrétti á þessu er kannski meðfram sú að talið er eðlilegt að þreifa nokkru nánar á afstöðu nágrannaþjóðanna, Færeyinga, Breta og Íra, áður en við förum beinlínis yfir á það svæði sem má segja að þessi umr. fjalli um og þess vegna sé kannske eðlilegt að doka við í nokkrar vikur með það.

Það er út af fyrir sig alveg rétt að Hafréttarsáttmálinn hefur ekki verið staðfestur af nægilega mörgum þjóðum til þess að hann öðlist lögformlegt gildi. En hitt er jafnrétt að þessi regla er orðin réttarregla de facto eða í raun eða er að verða það og hún verður það því fyrr sem fleiri þjóðir taka að helga sér þessi réttindi. Fram að þessu höfum við byggt allar okkar aðgerðir allar götur frá 1974–1975 á lögum sem voru að skapast og flýtt fyrir þróuninni einmitt með því að taka okkur þessi réttindi í samræmi við ákvæðin sem voru að verða lög í raun, lög de facto. Þetta eru að verða lög de facto og eru í fullu samræmi við öll ákvæði 76. gr. hafréttarsáttmálans, sbr. 83. gr. Þess vegna er ekkert í veginum með að helga okkur fljótlega Reykjaneshrygginn. Það nægir út af fyrir sig að senda tilkynningu til aðalritara Sameinuðu þjóðanna um að þetta höfum við gert. Það munum við auðvitað gera alveg á næstunni. En eins og ég sagði áðan er hyggilegt að doka aðeins við meðan nokkuð frekar skýrist hvernig okkar samskiptum í hafsbotnsmálunum reiðir af varðandi nágranna okkar.

Ég vildi aðeins láta þetta koma hér fram til að forða misskilningi. Ég veit að Pétur út af fyrir sig er mér alveg sammála um þetta en menn kynnu að misskilja það að okkur væri ekki kleift að gera þetta nú. Þvert á móti er okkur fullheimilt að áliti allra sérfræðinga að taka okkur Reykjaneshrygg út í 350 mílur og alla leið frá grænlensku efnahagslögsögunni yfir á Hattonbanka. Og það er ekkert smáhafsvæði út af fyrir sig.

Mín skoðun er sú og ég held að erfitt verði að hrekja hana að allar botnvörpuveiðar hljóti nú þegar að verða bannaðar á svæði þar sem strandríki á hafsbotninn því að strandríkið á óumdeilanlega allan skelfisk, öll krabbadýr, allar þær lífverur sem ekki hreyfast öðru vísi en með snertingu við botninn. Ég fæ ekki séð hvernig á að vera hægt að stunda botnvörpuveiðar öðru vísi en að koma einhverntíma upp með krabbadýr eða skelfisk. Þann sem það gerir á að færa að landi og sekta, jafnvel þó það væri bara steinn sem kæmi í botnvörpuna. Þess vegna er algjörlega óviðunandi að ekki skuli vera hreyft við þeim útlendingum sem hafa verið að strádrepa karfann á Reykjaneshrygg. Það hafa Rússar a.m.k. gert og enginn efi á því að Þjóðverjar mundu líka gera eins og hv. þm. Pétur Sigurðsson vakti athygli á ef þeir væru hvort sem er að skaka á Grænlandsmiðum.

En hér er sem sagt um gífurlega stórt mál að ræða, eitt allra stærsta málið í landhelgisbaráttu og það er vel að komin er á það hreyfing. Ég þakka sérstaklega öllum þeim sem undir þetta mál hafa tekið.