13.02.1984
Efri deild: 49. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2770 í B-deild Alþingistíðinda. (2387)

144. mál, lánsfjárlög 1984

Frsm. meiri hl. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Hæstv. forseti. Fjárfestingar- og lánsfjáráætlun og frv. til lánsfjárlaga hafa nú legið fyrir Alþingi frá því í nóv. Í þessum plöggum svo og þjóðhagsáætlun, sem fram kom í byrjun haustþings, var dregin upp fremur dökk mynd af efnahagshorfum ársins 1984. Nú í upphafi árs eru ýmsir þættir þessa máls skýrari en var á haustdögum. Mörkuð hefur verið stefna í öllum meginþáttum fiskveiða og um það náðist víðtæk samstaða, hvernig svo sem fara kann um framkvæmd þeirrar stefnu sem menn hafa talið sig neydda til að marka. Hjá því fer aftur á móti ekki að fjárhagsstaða grundvallaratvinnuveganna er um margt erfið. Skuldir útgerðarinnar og landbúnaðarins eru miklar og er brýnt að unnið verði að varanlegri lausn þeirra mála á næstunni.

Sá þáttur efnahagslífsins sem er einna óvissastur er niðurstaða kjarasamninganna. Það er deginum ljósara að til þess að framhald verði á þeim möguleika í efnahagslífinu sem gætt hefur síðustu mánuði, þá þurfa samningar að vera í sem mestu samræmi við markaða efnahagsstefnu stjórnvalda. Á þessu byggir m.a. lánsfjáráætlun og lánsfjárlagafrv. sem hér er til umfjöllunar. Verulegar launahækkanir mundu augljóslega stefna í hættu þeim árangri sem náðst hefur í baráttunni við verðbólgu. Þess vegna verður að grípa til annarra úrræða til að bæta kjör láglaunafólks. Í því efni tel ég mikilvægast að vinda nú bráðan bug að því að ráðast í lækkun verðlags á brýnustu nauðsynjum hvers einasta manns með lækkun tolla og annarra gjalda sem leggjast með miklum þunga á þessar vörur. Hæstv. fjmrh. hefur gefið um það yfirlýsingar að nú sé unnið að framkvæmd þessarar yfirlýstu stefnu ríkisstj.

Fjh.- og viðskn. hefur haldið fjölmarga fundi um lánsfjáráætlun, en því miður náðist ekki að afgreiða lánsfjárlögin úr nefnd og sem lög fyrir áramót. Þegar þing kom saman að nýju var tekið að vinna að málinu og hafa nefndinni borist margháttuð erindi og gögn og hún notið ágætrar aðstoðar embættismanna, sérstaklega starfsmanna fjárlaga- og hagsýslustofnunarinnar.

Erlendar lántökur eru verulegt áhyggjuefni og er mikilvægt að halda þeim innan þeirra marka að auka ekki erlendar skuldir þjóðarbúsins á árinu 1984 frá því sem er á árinu 1983. Í ljósi þessa gerir nefndin ekki tillögur um verulegar breytingar frá því frv. sem fjmrh. mætti fyrir í des. Stefnt er að því að erlendar lántökur nemi ekki hærri fjárhæð en 4573 millj. kr. og er það 70 millj. kr. hærri fjárhæð en frv. miðaði við. Aftur á móti veltur á miklu hve vel hinu opinbera tekst að afla fjár á innlendum lánsfjármörkuðum, enda er það nauðsynleg forsenda þess að takast megi að fjármagna húsnæðislánakerfið og brýn verkefni hjá ríkissjóði eins og vegaframkvæmdir, en innlendi lánsfjármarkaðurinn styrkist að sjálfsögðu við hjaðnandi verðbólgu og raunvexti.

Til þess að örva innlendan sparnað hafa nýlega verið gefin út spariskírteini með fjölbreyttara formi en áður. Menn geta valið á milli verðtryggðra og gengisbundinna skírteina. Útgáfa þessara pappíra er byggð á heimild í lögum nr. 79/1983 sem samþykkt voru af Alþingi skömmu fyrir jól. Enn er ekki komin reynsla á sölu bréfanna, enda skammt um liðið síðan þau komu á markaðinn. Um skiptingu erlends og innlends lánsfjár vísast í fskj. I og II í nái. meiri hl. fjh.- og viðskn.

Meiri hl. n. mælir með samþykkt frv. með þeim brtt. sem fluttar eru á sérstöku þskj. Minni hl. mun skila séráliti. Ég ætla nú að gera nokkra grein fyrir þeim breytingum sem frv. hefur tekið við umfjöllun nefndarinnar.

Umfjöllun fjvn. um fjárlagafrv. leiddi til breytinga sem jafnframt hafa áhrif á lánsfjárfrv. Nauðsynleg heimild til erlendrar lántöku A- og B-hluta ríkissjóðs er nú metin alls 1 641 millj. kr. í stað 1 708 millj. kr. eins og var í frv. til lánsfjárlaga. Heimild til innlendrar lánsfjáröflunar er nú ákveðin 600 millj. kr. í stað 478 millj. kr. og deilist þannig að ríkissjóði, A- og B-hluta, eru ætlaðar 278 millj. kr. og Byggingarsjóði ríkisins 322 millj. kr. Ákvörðun ríkisstj. frá s.l. ári um að hækka veitt lán Húsnæðisstofnunar um 50% jók útgjöld stofnunarinnar um 280–290 millj. kr. 122 millj. kr. koma til greiðslu á árinu 1984 og er því sótt um lántökuheimild til fjármögnunar þessa verkefnis. Á árinu 1983 námu lánveitingar vegna þessa verkefnis um 160 millj. kr. og var það fjármagnað með 43 millj. kr. skuldabréfasölu og um 120 millj. kr. fjárútvegun ríkisins. Þá er hér jafnframt sótt um heimild til 200 millj. kr. skuldabréfaútgáfu vegna sérstakrar fjáröflunar til Byggingarsjóðs ríkisins, eins og kemur fram í aths. við lánsfjárlagafrv. Takist ekki að afla þess lánsfjár, sem lánsfjárlög gera ráð fyrir, er óhjákvæmilegt að útlánaform Húsnæðisstofnunar komi til endurskoðunar.

Við afgreiðslu fjárlaga urðu þær breytingar að lánsfjáröflun til vegagerðar lækkaði um 87 millj. kr. m.a. vegna hækkunar á mörkuðum tekjum til vegagerðar. Á móti hækkaði fyrirhuguð lántaka byggingarsjóðs Rannsóknastofnana atvinnuveganna um 2 millj. kr. og stefnt er að lántöku hjá Póst- og símamálastofnuninni, alls 30 millj. kr., en heimild til þeirrar lántöku liggur fyrir í sérlögum. Í meðförum fjh.- og viðskn. er að auki gert ráð fyrir lántöku vegna kaupa á flugleiðsögutækjum flugmálastjórnar að andvirði allt að 17.4 millj. kr., en ekki var ætluð fjárveiting vegna þessa í fjárl. fyrir 1984.

Fyrir Alþingi liggur frv. um lántöku o.fl. vegna byggingar flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli, þ.e. 140. mál. Þar er gert ráð fyrir að árlega verði lántökur til flugstöðvarframkvæmda ákveðnar í lánsfjárlögum. Hér er miðað við, eins og fram kemur í aths. lánsfjárlagafrv., að lántaka verði 88.3 millj. kr. Ég vek athygli á þessu vegna umfjöllunar um frv. um flugstöð í Keflavík sem liggur fyrir Alþingi til afgreiðslu.

Fjh.- og viðskn. taldi nauðsynlegt að gefin yrði nánari sundurliðun en fram kom í lánsfjáráætlun um ráðstöfun lánsfjár Landsvirkjunar til framkvæmda. Mörgum sýnist að Alþingi ætti að fjalla nánar en oft hefur verið um framkvæmdir á vegum Landsvirkjunar, enda erlendar lántökur fyrirtækisins mjög miklar. Að höfðu samráði við iðnrn. er lagt til að framkvæmdum verði hagað í samræmi við þá skiptingu sem fram kemur í brtt. við 3. gr.

Á 4. gr. frv. er gerð eftirfarandi breyting: Fyrirhuguð er lántökuheimild til grænfóðurverksmiðju í Skagafirði, alls 9 millj. kr. Ráðgert er að þetta lán endurgreiðist með auknu hlutafé eignaraðila, en verksmiðjan á í miklum fjárhagserfiðleikum. Þá er lántaka vegna sjóefnavinnslu á Reykjanesi hækkuð um 11 millj. kr. eða í 45 millj. og er þetta nauðsynlegt vegna vaxta og afborgana af eldri lánum. Ekki er gert ráð fyrir framkvæmdum við saltverksmiðjuna á árinu.

Við gerð áætlunar fyrir Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar láðist að taka tillit til fjármagnskostnaðar vegna skuldbreytinga á lánum hitaveitunnar. Því er lögð til viðbótarlánsheimild að fjárhæð 14 millj. kr. Þannig nemur þessi heildarlánsfjárheimild alls 22.5 millj. kr. Þá fellst nefndin á ósk Hitaveitu Kjalarness um heimild til 25 millj. kr. lántöku til stofnframkvæmda við lagningu hitaveitu í hreppnum að því tilskildu að samkomulag náist um þá framkvæmd milli hlutaðeigandi aðila og að iðnrn. veiti rekstrarleyfi í samræmi við ákvæði orkulaga.

Í aths. við 7. gr. í frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1984 er greint frá 32 millj. kr. hækkun lánveitinga og lánsfjáröflunar Framkvæmdasjóðs. Gert var ráð fyrir að 6 millj. kr. rynnu til Landflutningasjóðs, en það á að vera til Útflutningslánasjóðs og leiðréttist hér með.

Við fjárlagaafgreiðslu á Alþingi fyrir árið 1984 var framlag ríkissjóðs til Iðnrekstrarsjóðs hækkað úr 5 millj. kr. í 15 millj. kr. Í samræmi við þá afgreiðslu er því nauðsynlegt að breyta 22. gr. til samræmis við þetta.

Bætt er við nýrri grein í frv., 27. gr., þar sem frestað er gildistöku ákvæðis um lánveitingar Lánasjóðs ísl. námsmanna á árinu 1984. Því er, eins og var á árinu 1983, gert ráð fyrir að 95% af umframfjárþörf námsmanna verði mætt.

28. gr., sem verður 29. gr., breytist með tvennum hætti: Í fyrsta lagi þarf viðbótarheimild til erlendrar lántöku vegna lánsfjárlaga fyrir árið 1983. Í ljós hefur komið að fjármagnsútgjöld vegna Kröflu og byggðalínu reyndust hærri en áður var talið og því er sótt um heimild til 400 millj. kr. viðbótarlántöku í stað 340 millj. kr. Í öðru lagi er leitað heimildar til ríkisábyrgðar vegna lántöku Hitaveitu Vestmannaeyja og Hitaveitu Rangæinga á árinu 1983, alls 39.2 millj. kr.

29. gr., sem verður 30. gr., stendur óbreytt, en ég tel rétt að gera grein fyrir því að yfirdráttarskuld ríkissjóðs í árslok 1983 reyndist um 1220 millj. kr. Heimildar til þess að mæta þessari fjárþörf er að hluta leitað í 28. gr., sem verður 29. gr., 120 millj. kr., en að öðru leyti í 29. gr., sem verður 30. gr. Fyrir áramót var gengið frá láni í Seðlabankanum, alls 20 millj. SDR eða um 600 millj. kr., en eftir er að ganga frá eftirstöðvum yfirdráttarskuldarinnar.

Í aths. við frv. til l. um innlenda lánsfjáröflun, nú lög nr. 79/1983, er þess getið að markaður hinna hefðbundnu spariskírteina ríkissjóðs hefði þrengst, en með lögunum er ríkissjóði gert kleift að bjóða fjölbreyttara form skuldaviðurkenninga. Í samræmi við ákvæði þessara laga öfluðust 43 millj. kr. á árinu 1983 sem ríkissjóður endurlánaði síðan Byggingarsjóði ríkisins. Þessi fjárútvegun kom í kjölfar ákvörðunar ríkisstj. í okt. 1983 um 50% hækkun lánveitinga til húsbyggjenda sem lán höfðu fengið 1982 og 1983.

Að lokum skal þess getið að í yfirliti, sem fylgdi frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1983, var gert ráð fyrir erlendri lántöku Iðnþróunarsjóðs að fjárhæð 20 millj. kr. Hins vegar tók sjóðurinn engin erlend lán á árinu 1983 og hefur farið fram á að mega flytja lántökuáform þessi yfir á árið 1984. Hér er lagt til að erlendar lántökur á árinu 1984 til Iðnþróunarsjóðs hækki frá fyrri áætlun sem þessu nemur eða úr 30 millj. kr. í 50 millj. kr.

Virðulegi forseti. Ég tel mér skylt að geta þess hér og nú, að við umfjöllun þessa máls hef ég sannfærst um það enn betur en áður hve brýna nauðsyn ber til að breyta allri vinnu við umfjöllun fjármála ríkisins. Það sem nú er fjallað um í lánsfjárlögum á að mínu mati að vera hluti fjárlaganna sjálfra. Með öðrum hætti er nánast ógerningur að fá heildaryfirsýn yfir ríkisfjármálin. Lánsfjárheimildir eru nú í fjárl. sjálfum, lánsfjárlögum og fjölmörgum sérlögum. Allt þyrfti þetta að vera á einum stað og koma til umfjöllunar fjvn. Sá háttur sem nú er á í þessari umfjöllun hefur auðvitað torveldað störfin í hv. fjh.- og viðskn. og gert þau þunglamalegri og erfiðari, en þeim mun meiri ástæða er til að þakka samstarfið í nefndinni og nm. öllum, bæði stjórnarliðum og stjórnarandstöðu, ágæt störf.