13.02.1984
Efri deild: 49. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2773 í B-deild Alþingistíðinda. (2388)

144. mál, lánsfjárlög 1984

Frsm. minni hl. (Eiður Guðnason):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það með hv. 4. þm. Norðurl. v., frsm. meiri hl., að vissulega er ástæða til að íhuga breytingar á vinnubrögðum í sambandi við lánsfjárlög og hvort þau ættu ekki að vera með þeim hætti að fjvn. fjallaði þar meira um. Raunar hygg ég að ástæða sé til að íhuga gaumgæfilega verkaskiptingu milli fjh.- og viðskn. og fjvn. vegna þess að þessar nefndir fjalla um mjög skyld mál og áreiðanlega væri æskilegt að þar á milli væri meira samræmi í vinnubrögðum.

Frsm. meiri hl., hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, vék nokkrum orðum að hinu almenna efnahagsástandi í þjóðfélaginu og talaði m.a. um það áhugamál sitt sem ég veit að honum stendur mjög hjarta nær, þ.e. lækkun á tollum og aðflutningsgjöldum. Um þetta hefur verið talað hér allt þetta þing alveg síðan á haustdögum en afar lítið hefur séð dagsins ljós í þeim efnum. Við fáum bara að heyra að það standi yfir endurskoðun á þessum málum sem eigi að ljúka einhvers staðar í óljósri framtíð. Hins vegar eru lögð hér fram frumvörp um ný gjöld á almenning eins og gert var með frv. til höfundalaga. Þar er ekki verið að lækka aðflutningsgjöldin, þar er verið að auka á og hækka þau gjöld sem almenningur á að greiða. Þar skýtur því nokkuð skökku við.

Hæstv. fjmrh. hefur margsinnis lýst því yfir að hann muni segja af sér ef lagðir verða á nýir skattar. Hann hefur hins vegar líka lýst því yfir að hann muni ekki segja af sér þó að lögð séu á ný gjöld. Þarna skýtur svolítið skökku við. Þessi yfirlýsing hæstv. fjmrh. minnir raunar á þau ummæli hans á opinberum vettvangi að skattabyrði mundi ekki aukast á þessu ári, hins vegar yrðu menn að líkindum svolítið lengur að vinna fyrir sköttunum sínum. Þetta má auðvitað túlka og verður hver að túlka á sinn veg.

Í fjh.- og viðskn. var fjallað um frv. til lánsfjárlaga á altmörgum fundum. Nefndin naut þar góðrar fyrirgreiðslu og aðstoðar embættismanna, m.a. úr fjárlaga- og hagsýslustofnun, sem veittu þær upplýsingar sem um var beðið. En þegar byrjað var að athuga þetta frv. kom í ljós að þar vantaði eitt og annað. T.d. þar sem fyrst var borið niður, við Sjóefnavinnsluna á Reykjanesi, kom í ljós að gleymst hafði að reikna með fjármagnskostnaði eða afborgunum af lánum á þessu ári og líka hafði gleymst að taka tillit til þess að búið var að skuldbinda fyrirtækið til ákveðinna framkvæmda á yfirstandandi ári og gera um það verksamninga. Þetta hafði hvort tveggja gleymst.

Nú hefur verið flutt brtt. af hálfu meiri hl. við lánsfjárlagafrv. þar sem tekið er tillit til þess veruleika að borga þarf af lánum vegna þessa fyrirtækis á næsta ári. Hins vegar er ekki tekið tillit til þess að ríkið er skuldbundið með verksamningum á þessu ári til að inna af hendi ákveðnar greiðslur. Nú vil ég spyrja hæstv. fjmrh.: Hvernig verður brugðist við því máli? Verður leitað einhverra annarra leiða til að fjármagna þær framkvæmdir hjá Sjóefnavinnslunni hf. sem þegar er búið að semja um, sem þegar er búið að skuldbinda ríkið til að standa að? Væntanlega verður ríkissjóður skaðabótaskyldur ef ekki verður staðið við þá samninga. Það hygg ég að af sjálfu leiði. Þess vegna beini ég þeirri spurningu til hæstv. fjmrh.: Fyrst þetta var ekki tekið inn í lánsfjáráætlun eða lánsfjárlög hvernig verður þá brugðist við þessu? Ætlar ríkið að rjúfa samninga eða hverra leiða verður leitað til að standa við þessar skuldbindingar?

Ýmislegt annað kom í ljós þegar þetta frv. var athugað og meiri hl. stendur að ýmsum brtt. sem varða augljósa galla á frv. En það gildir um þetta frv. til lánsfjárlaga eins og svo oft áður að það gefur engan veginn rétta mynd af því sem til er ætlast, þ.e. hvernig lántökum ríkisins verður hagað á yfirstandandi ári. Minni hl. n. vill sérstaklega minna á að fyrirhugað er til viðbótar þeim lántökum sem greint er frá í frv. að taka sérstök lán til að efla innlenda skipasmíði. 150 millj. kr. hefur verið talað um þar og það er utan þessara lánsfjárlaga.

Í öðru lagi er fyrirhuguð lántaka til að styrkja stöðu útgerðarinnar. Þessa sér hvergi stað í frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1984. Þá er það enn fremur skoðun minni hl. n. að lántökur vegna atvinnuveganna á yfirstandandi ári séu verulega vanáætlaðar. Þá bætist eitt enn við, að talað hefur verið um veruleg vandræði bænda og að breyta þurfi lausaskuldum þeirra í föst lán. Kreppir þar skórinn meira nú en oft áður. Einhverja fjármagnsfyrirgreiðslu þarf væntanlega til þess að þetta verði unnt. Um það eru engin orð í þessu frv.

Skv. þessu frv. verður heildarlántaka á árinu 1984 4548 millj. Endurgreiðslur af löngum lánum eru áætlaðar 3160 millj. Hrein skuldaaukning er því tæplega 1400 millj. eða um 2% af áætlaðri þjóðarframleiðslu. Þá er einnig ljóst að nú stefnir í mikinn halla í ríkisbúskapnum. Skv. fjárlögum verður sá halli 388 millj. kr. og við það bætast síðan skattalækkanir í þágu fyrirtækjanna og atvinnurekstrarins sem enginn veit hversu háum upphæðum nema þegar öllu er á botninn hvolft.

Svo eru þar að auki á döfinni ýmis sparnaðaráform í ríkisrekstrinum sem enn þá a.m.k. hanga í lausu lofti velflest og verða e.t.v. aldrei annað en óraunhæfar tölur á blaði.

Ég vil að lokum, virðulegi forseti, taka fram að stjórnarandstaðan gerir ekki ágreining um einstök atriði í þessu frv. né flytur brtt. við það. Þm. stjórnarandstöðuflokkanna munu sitja hjá við afgreiðslu málsins en hins vegar greiða atkv. gegn hinni miklu skerðingu á framlögum til Framkvæmdasjóðs fatlaðra og til Erfðafjársjóðs, sbr. 16. og 18. gr. frv.

Rétt er að fram komi hér að lokum að hv. þm. Stefán Benediktsson, þm. Bandalags jafnaðarmanna, sat fund í fjh. - og viðskn. sem áheyrnarfulltrúi þegar fjallað var um þessi mál og styður hann skoðun minni hl. nefndarinnar.