26.10.1983
Neðri deild: 8. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í B-deild Alþingistíðinda. (239)

Umræður utan dagskrár

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég verð að segja það að mér er ókunnugt um bæði þessa blaðagrein sem hv. þm. vitnaði til, og eins er mér ókunnugt um að menn gefi ekki upp rétt söluverð hrossa. En ég tel að það sé réttmætt að kanna þetta og eðlilegt að fjmrh. leiti svara hjá Þorkeli Bjarnasyni um hvort hann hafi einhverjar sannanir fyrir þessu. Það er nú náttúrlega ekki alltaf allt rétt haft eftir manni í blöðunum og eitthvað hefði nú getað skolast til. En ég tek undir það að það er sjálfsagður hlutur að kanna þetta mál.

Hins vegar vil ég vekja athygli á því, sem menn kannske vita ekki, að ef menn reyndu nú að bralla þetta, að gefa ekki upp allt söluverðið, þá taka þeir dálitla áhættu þegar um kynbótagripi er að ræða — og mér skildist að Þorkell hefði einkum verið að tala þarna um stóðhesta. Það er til nokkuð sem heitir Stofnverndarsjóður íslenska hestsins. Hann er myndaður þannig að það er lagður skattur á alla sölu kynbótahesta til útlanda, og reyndar kynbótahrossa allra, 10% á hesta, lægri prósenta á hryssur af verðinu, sem rennur í sérstakan sjóð í vörslu Búnaðarfélags Íslands. Þetta er mönnum gert að greiða og þessi fjáröflun er nú notuð til þess að ef úr landi eru að fara verðmætir kynbótagripir, þá er þarna sjóður sem hrossaræktarsambönd geta gripið til og fengið lán úr til þess að ganga inn í kaup á kynbótagrip. Ef Kjartan Jóhannsson, hv. þm., ætti kynbótahest, sem hann vildi selja og gæti selt útlendingum fyrir við skulum segja 300 þús. kr. og kæmist að samkomulagi við þennan útlending að gefa ekki upp nema 200 þús. kr., þá yrði að bjóða öllum hrossaræktarsamböndum á landinu formlega að ganga inn í þetta boð á 200 þús. kr. Og þá gæti hvaða hrossaræktarsamband sem er gengið inn í boðið og hv. þm. Kjartan Jóhannsson yrði að láta hestinn á þessu boði. Ég var einu sinni formaður hrossaræktarsambands og reyndar lengi, og við notuðum okkur þessi réttindi. Ég sit einnig í stjórn þessa Stofnverndarsjóðs. Hann er að vísu ekki mjög gildur, en hann hefur ráðið úrslitum um að menn geta fengið þar lánsfé í hvelli ef úr landi eru að fara verðmætustu kynbótagripirnir. Það er töluverð hætta á að það gæti orðið og eru raunar dæmi þess að það hefur orðið hrossaræktinni til skaða að missa úr landi bestu kynbótagripina. Hestamenn, sem rækta íslenska hesta í öðrum löndum, eru mjög snjallir ræktunarmenn og íslenskir hrossaræktarmenn mega mjög gá að sér að tapa ekki út úr höndunum á sér bestu gripunum. Og þess vegna var Stofnverndarsjóðnum komið á fót. Þess vegna hefði ég tilhneigingu til að halda að hann ætti — Stofnverndarsjóðurinn sem slíkur ef um almennilega kynbótagripi er að ræða á annað borð, — að vera nokkur trygging fyrir að menn væru ekki með þennan undandrátt sem hugsanlega gæti verið freisting fyrir hrossakaupmenn að grípa til annars. Mér finnst það að þeir gætu orðið negldir á sitt undirverð, vera þess valdandi að menn mundu síður taka þá áhættu.