13.02.1984
Efri deild: 49. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2780 í B-deild Alþingistíðinda. (2392)

144. mál, lánsfjárlög 1984

Davíð Aðalsteinsson:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð. Augljóst er að allt starf fjh.- og viðskn. hefur mótast af því að leitast við að halda í skefjum skuldum þjóðarinnar út á við og er ekkert nema gott um það að segja. Sú lánsfjáráætlun og þau lánsfjárlög sem lögð hafa verið fram undanfarið og það starf sem af þeim leiddi mótaðist líka af þessu. Ég hygg að allir séu sammála um, eins og reyndar fram hefur komið-f máli manna, að skuldir þjóðarbúsins séu orðnar í hámarki og við megum í því efni vara okkur.

Ég vil taka undir það sem fram kom í máli nokkurra hv. ræðumanna áðan þar sem saknað var fjárhæða vegna skipasmiðjanna í landinu. Ég geri mér fulla grein fyrir því, og vitna þá til orða minna sem ég viðhafði áðan, að halda þarf skuldum þjóðarbúsins í skefjum. Ekki er það of lágt mark, ég skal viðurkenna það, að miða við 60% af þjóðartekjum. Hins vegar getur iðja verið svo mikilvæg að ekki verði undan því vikist að taka til hennar erlend lán. Ég segi þetta vegna skipasmiðjanna í landinu því að ég er þess fullviss að þar er um mjög mikilvægan iðnað að ræða, iðnað sem ekki hvað síst á framtíð fyrir sér vegna hins stóra og myndarlega fiskiskipaflota okkar sem augljóslega þarf gífurlegt viðhald á næstu árum.

En ég geri mér grein fyrir því að fjh.- og viðskn. hefur ígrundað þetta mál vel og hefur vafalaust gert sér að einhverju leyti í hugarlund með hvaða hætti væri hægt að koma til móts við skipasmíðastöðvarnar að þeirri fjárhagsaðstoð frágenginni sem vonir stóðu til að liti dagsins ljós í lánsfjáráætlun og lánsfjárlögum.

Ég vil aðeins geta hér um annað mál sem drepið var á, þ.e. erfiða fjárhagsstöðu bænda. Ég geri síður ráð fyrir því að menn hafi hugað að erlendri lántöku í því sambandi. Hins vegar hygg ég að ekki hafi verið vanþörf á. Ég skal ekki fullyrða um það, en mér þætti ekki ólíklegt að sú fjáröflun sem óhjákvæmileg er vegna erfiðrar stöðu fjölmargra bænda í landinu kunni að reynast nokkuð erfið en vonandi reynist mögulegt að veita þá aðstoð sem rætt hefur verið um og nauðsynleg er.

Að öðru leyti ætla ég ekki að fjatla um þessi lánsfjárlög. Það er fyrst og fremst hlutverk fjh.- og viðskn.-manna að gera það.