13.02.1984
Neðri deild: 45. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2788 í B-deild Alþingistíðinda. (2403)

129. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Hv. 3. þm. Reykn. gerði hér á dögunum grein fyrir áliti okkar í minni hl. fjh.- og viðskn. á því frv. sem hér um ræðir í nokkuð ítarlegu máli og hef ég þar ekki miklu við að bæta fyrir mitt leyti. Ég ætlaði aðeins að víkja hér að tveimur efnisatriðum.

Það er þá í fyrsta lagi varðandi þá till. meiri hl. sem lýtur að birtingu skattskráa. — Nú væri það betra, virðulegi forseti, að hæstv. fjmrh. væri í salnum þegar verið er að ræða hér um tekju- og eignarskatt. Ég óska eftir því að hann verði kallaður hingað inn áður en lengra er haldið.

Áður en hæstv. ráðh. kemur vil ég aðeins víkja að öðru atriði sem snertir útsvarsmálin. Hv. 2. þm. Norðurl. v. orðaði það þannig, að sveitarfélögin hefðu misnotað það frelsi sem þeim „illu heilli var gefið“. Nú er það svo að sá sem gaf sveitarfélögunum þetta frelsi illu heilli, að mati formanns þingflokks Framsfl., er hæstv. núv. félmrh. og ríkisstj. Það er ekki nýtt að framsókn hafi a.m.k. tvær skoðanir á hverju máli, oft miklu fleiri, stundum allar samtímis, en fróðlegt væri engu að síður að fá um það fréttir hvernig þessu víkur við hjá hæstv. félmrh., hvort uppi eru um það áform í Framsfl. að taka þetta frelsi af sveitarfélögunum sem hann illu heilli hefur veitt þeim, svo ég vitni enn í hv. þm. Pál Pétursson.

Það er alveg ljóst að sveitarfélögin hafa nýtt álagningarheimildir langt umfram það sem gert var ráð fyrir af hæstv. ríkisstj. þannig að útsvarsálagning á þessu ári er mörg hundruð millj. kr., líklega einar 500–600 millj. kr., umfram það sem vera ætti, miðað við ef menn vildu halda óbreyttu greiðsluhlutfalli á árinu 1984 og var á árinu 1983. Það er sem sagt undir forustu íhaldsins hér í Reykjavíkurborg og í landsstjórninni verið að hækka skattabyrði á landsmönnum, sérstaklega Reykvíkingum, þvert ofan í þau fyrirheit, sem kosningaáróðursmenn íhaldsins gáfu fyrir kosningar um að þeirra stjórn hér á borginni m.a. og á landinu líka, en forseti borgarstjórnar Reykjavíkur er nú fjmrh., mundi hafa í för með sér lækkun á sköttum. En það liggur fyrir að ekkert er að marka það sem forseti borgarstjórnar Reykjavíkur, núverandi fjmrh., og borgarstjórinn í Reykjavík, Davíð Oddsson, segja þegar kemur að málum eins og þessum. Þeir hika ekki við að stórhækka greiðslubyrði, stórhækka skattana frá því sem var. — Eitthvað hlýtur þetta nú að koma illa við þá þm. Sjálfstfl. sem lofuðu því fyrir síðustu kosningar að það ætti að afnema alveg skatta. Einn af þeim, sem situr yfirleitt hér í salnum, en er núna fjarverandi, hefur boðað forföll, lýsti því yfir hvað eftir annað í síðustu kosningabaráttu að beina skatta ætti að leggja niður eins og þeir legðu sig. Ég hef enga till. séð frá þessum þm. um það enn þá, en ég ætla að ræða það við hann þegar hann kemur næst í salinn.

Það er m.ö.o. greinilegt að íhaldið undir forustu Alberts Guðmundssonar og Davíðs Oddssonar er að hækka skattana gagnstætt því sem þessir menn lofuðu. Það er svo sem engin ástæða til að kippa sér upp við það þó þessir menn svíki loforð, þeir eru vanir því, en nokkuð fróðlegt er fyrir almenning að horfa á hvernig þessir menn haga sér þegar þeir fá að ráða einhverju. Er hæstv. fjmrh. nokkuð að koma? (Forseti: Hæstv. fjmrh. er upptekinn í umr. í Ed., en ég hef gert ráðstafanir til þess að hann komi hingað strax og hann losnar úr umr. í Ed.) Já, ég ætla að víkja hér að tveimur öðrum efnisatriðum engu að síður. Ég vona að hæstv. ráðh. komi fljótlega.

Það fyrra er varðandi málefni aldraðra sérstaklega. Á síðasta þingi flutti hæstv. fjmrh., þá þm. hér, ásamt hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni frv. til l. um breyt. á lögum um tekju- og eignarskatt sem gerði ráð fyrir atveg sérstökum ívilnunum til handa öldruðum. Þetta frv. var til umræðu á síðasta þingi, þ.e. 1982–1983, og var samþ. á Alþingi þann 9. mars 1983 eða skömmu áður en þm. héldu heim og í kosningabaráttuna. Þarna var gert ráð fyrir að komið yrði mjög verulega til móts við aldraða skattgreiðendur. Ég man eftir að um þetta frv. urðu hér mjög miklar deilur. M.a. man ég eftir því að hv. þm. Guðrún Helgadóttir, 10. landsk. þm., gagnrýndi þá aðferð sem uppi var höfð í þessu frv. En það varð sem sé að lögum eftir nokkuð miklar umr. hér. Nú hefur hv. 3. landsk. þm., Guðrún Agnarsdóttir, mælt fyrir till., sem ég flyt ásamt henni og fleiri þm., um að komið verði til móts við aldraða einstaklinga. Við þær aðstæður sem nú eru er það atveg sérstaklega brýnt. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að átta sig á því, að í þeirri miklu rauntekjulækkun sem nú hefur orðið hjá fólki er það þannig, að hækkunin á skattgreiðslum frá desember- til febrúarmánaðar vegna 63% fyrirframtöku á gjöldum er eiginlega alveg óbærileg hjá mjög tekjulágum einstaklingum. Þetta er þannig fólk að það greiðir skattana sína fyrst af öllum, það vill gera skil við opinbera aðila, þannig að þar sé um að ræða hreint borð.

Nú hafði mér komið til hugar að koma þannig til móts við þetta fólk að flytja hér till. sem gengur út á að framtöl þess verði tekin til sérstakrar athugunar og fyrirframgreiðsla þess endurmetin með tilliti til líklegrar álagningar á árinu 1984. Vandinn er hins vegar sá, að þegar þetta endurmat hefði farið fram væri þetta fólk hugsanlega búið að greiða tvær til þrjár fyrirframgreiðslur samkvæmt þeirri álagningu sem þegar liggur fyrir. Þess vegna kemur þessi aðferð, sem mér hafði komið til hugar, fólkinu ekki að fullum notum. Í framhaldi af því hafði ég hugsað mér að leggja til við hæstv. fjmrh. að hann lýsti því yfir við umr. á Alþingi að skattstjórum væri gert að skyldu að beita sér fyrir að farið yrði yfir fyrirframgreiðslur þessa fólks sérstaklega þegar í stað, burtséð frá framtölunum sem slíkum, og reyna að kanna og meta í hverju tilviki hvort hér væri um að ræða upphæð sem er óbærilegt fyrir þetta fólk að greiða. Satt að segja hef ég hitt að máli þó nokkurn hóp af þessu fólki hér í Reykjavík og ég veit að eins er ástatt víðar í landinu. Þetta fólk kveinkar sér sáran undan því að þurfa að borga hækkun gjalda frá því í desember og fram í febrúar. Ég vil fara fram á það við stjórnarliðið, bæði hv. þm. Friðrik Sophusson og hv. þm. Pál Pétursson, sem stýra fjh.- og viðskn. Nd., að þeir hugleiði mjög vandlega hvort þarna er ekki unnt að koma við aðgerðum með þeim hætti að greiðslan á fyrirframgjöldunum verði þessu fólki ekki óbærilega þung og þannig verði frá málunum gengið að það verði ekki vanskilamenn með þessar sínar greiðslur. Sums staðar er mjög snúið að koma þessu við, eins og t.d. úti á landi þar sem framtalsfrestur er miklu lengri en hjá okkur í þéttbýlinu. Þess vegna yrðu að gilda um þetta nokkuð aðrar reglur en ég hafði látið mér detta í hug í öndverðu. Því hafði ég hugsað mér að fara fram á við hæstv. fjmrh. að hann léti koma fram hvaða skoðun hann hefði á þessu máli, hvort hann væri tilbúinn að lýsa yfir að það yrði farið sérstaklega yfir fyrirframgreiðslur þessa fólks og reynt að meta í hverju einstöku tilviki hvort ætla má að fyrirframgreiðslan sé greiðslugetu þess ofviða.

Hitt málið er líka eiginlega tilgangslítið að ræða nema hæstv. fjmrh. sé hér inni, en ég ætla þó að nefna það. Það snertir 4. brtt. meiri hl. á þskj. 322, en meiri hl. leggur til heimild eins og þar stendur:

„Heimil er opinber birting á þeim upplýsingum um álagða skatta sem fram koma í skattskrá, svo og útgáfa þeirra upplýsinga í heild eða að hluta“.

Þessi setning, sem gert er ráð fyrir að komi aftan við 2. málsgr. 98. gr. skattalaganna, er nákvæmlega samhljóða stjfrv. sem flutt var á síðasta þingi um birtingu skattskráa. Það frv. var flutt þá vegna þess að tölvunefnd hafði úrskurðað að óheimilt væri að birta álagningarskrá og skattskrá og þess vegna væri nauðsynlegt að taka af öll tvímæli um það í skattalögunum. Tölvunefnd hefur litið svo á að óheimilt væri að birta álagningarskrár eða svokallaðar skattskrár með þeim hætti sem gert hefur verið mörg undanfarin ár en féll niður eftir að skattalög voru afgreidd á Alþingi. Ég held það hafi verið 1980. Fyrrv. ríkisstj. flutti þess vegna stjfrv. um að það væri heimilt að birta álagningar- og skattskrár og í aths. hennar við lagafrv. um það efni segir svo, með leyfi forseta:

„Ákvæði um framlagningu á skattskrá hafa verið í lögum hér á landi frá því fyrst voru sett almenn lög um tekjuskatt á árinu 1921. Þessi ákvæði hafa jafnan verið skýrð þannig í framkvæmd að heimil væri opinber birting á upplýsingum þeim er fram koma í skattskrá, og um áratuga skeið hafa þessar skrár í ýmsum sveitarfélögum verið gefnar út og verið fáanlegar almenningi. Í nóvember s.l. komst tölvunefnd hins vegar að þeirri niðurstöðu að sá aðili sem gefið hefur út þessar skrár í Reykjavík á undanförnum árum hefði ekki rétt til slíkrar útgáfu vegna gjaldársins 1982. Byggði nefndin afstöðu sína á ákvæðum laga nr. 63/1981, 98. gr. laga nr. 75/1981 og 37. gr. laga nr. 73/1980. Þessi úrlausn tölvunefndar orkar tvímælis að mati fjmrn.“, stendur í grg. þáv. ríkisstj. „Ótvírætt er að birting upplýsinga úr skattskrá og útgáfa hennar í heild er til þess fallin að skapa bæði gjaldendum og skattyfirvöldum virkt aðhald og gegnir slík birting því að mörgu leyti sama tilgangi og framlagning skattskráa. Er mikilvægt að sá aðgangur sem almenningur hefur haft að upplýsingum úr skattskrám á undanförnum árum verði ekki þrengdur og þar með tekið fyrir þá umræðu um skattamál er gjarnan fylgdu birtingu þessara upplýsinga.“

Ég tel að það hafi komið fram í umr. um þessi mál á Alþingi að verulegur hluti þm. var þeirrar skoðunar að rétt væri að birta álagningarskrár með öllum þeim fyrirvörum sem hafa ber við þær vegna þess að kærur hafa ekki verið sendar inn og alls konar skekkjur liggja fyrir. Ég held hins vegar að þessi till., sem hér kemur frá meiri hluta fjh.- og viðskn. og hv. þm. Friðrik Sophusson mælti fyrir hér á dögunum, sé úf af fyrir sig skýr svo langt sem hún nær og ég vil túlka hana með þeim hætti sem gert er í grg. með stjfrv. sem lagt var fram í fyrra, þ.e. að verði þessi brtt. samþ. sé heimilt að birta álagningarskrár á komandi sumri við útkomu tekju- og eignarskatts og auðvitað síðan í framhaldi af því skattskrár eftir að leiðréttingar liggja fyrir. Ef hv. þm. Friðrik Sophusson, hv. þm. Páll Pétursson og hæstv. fjmrh. telja að þessi túlkun af minni hálfu sé ekki rétt, hún gangi í raun og veru of langt og þess vegna sé röng sú túlkun sem kemur fram í grg. með stjfrv. sem ég las hér áðan, mundi ég telja óhjákvæmilegt að flytja brtt. við brtt. meiri hl. þar sem skýrt kæmi fram að heimilt væri að birta ekki aðeins skattskrá heldur einnig álagningarskrá þegar niðurjöfnun er lokið í viðkomandi byggðarlagi. Þá mætti orða till. þannig: Heimil er birting á þeim upplýsingum um álagningu skatta og endanlega skatta sem fram koma í skattskrá, svo og útgáfa þeirra upplýsinga í heild eða að hluta. — Þannig séu tekin í orðalaginu af öll tvímæli um að ekki sé einasta heimilt að birta endanlega skatta, heldur einnig álagninguna þegar hún liggur fyrir.

Ég tel að óhjákvæmilegt sé áður en þessari umr. er lengra fram haldið að fá svör hæstv. fjmrh. og forustumanna stjórnarliðsins hér í hv. deild við þeim spurningum sem ég hef borið hér fram. Það er í rauninni ekki hægt að hafa svona umr. gangandi öðruvísi en að þessir menn séu viðstaddir, sérstaklega auðvitað hæstv. fjmrh. Ég veit að hann er bundinn í Ed., en þá þýðir það ósköp einfaldlega að umr. hér getur ekki gengið áfram og henni verður að fresta.

Hæstv. fjmrh. hefur beðið mig um að greiða fyrir því að svo miklu leyti sem ég get það að umr. um tekju- og eignarskatt gangi sem rösklegast fyrir sig og ég ætla ekki að setja á langar ræður um þá skattheimtu sem nú er að ganga hér fram af hálfu stjórnarliðsins, þessa kjarajöfnunarstefnu. Það var satt að segja yfirgengilegt að heyra það orð úr munni hv. þm. Páls Péturssonar, sem er að leggja til að lækka skatta hér á fyrirtækjunum í stórum stíl. Það er kjarajöfnun Framsfl. þessa dagana. Ég ætla ekki að fara að ræða það við hv. þm. Pál Pétursson, ég get gert það síðar, enda hafði fjmrh. beðið um að málum yrði flýtt. En hér hef ég nefnt tvö efnisatriði og ég verð að fá einhver svör við þeim áður en lengra er haldið, þannig að ef hæstv. fjmrh. er enn ekki tilbúinn að koma í salinn verð ég að biðja um orðið einu sinni enn, hæstv. forseti.