26.10.1983
Neðri deild: 8. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í B-deild Alþingistíðinda. (241)

Umræður utan dagskrár

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Kjartani Jóhannssyni fyrir að hefja hér umr. um það mál í okkar þjóðfélagi sem menn eru kannske hræddastir við að ræða hér á hinu háa Alþingi, hin víðtæku skattsvik sem viðgangast í þjóðfélaginu. Og það er alveg hárrétt sem hann sagði hér að svo er komið að það deplar enginn auga þó að svona grein birtist. En ég vil nú nota tækifærið til þess að benda hv. þm. á að lesa Alþýðublaðið eins og önnur blöð. Ég veit ekki annað en að þeir geti fengið það daglega. Kemur mér á óvart að enginn virðist hafa barið það augum.

Sannleikurinn er sá að það hefur verið reynt að tala um þessi mál hér í þinginu, en menn fara undan í flæmingi. Við minnumst þess að hv. þm. Vilmundur Gylfason hóf hér umr. á síðasta ári, minnir mig, um svokallaða „svarta atvinnu“, og ég hef sjaldan séð hv. alþm. eins vandræðalega eins og undir þeirri umr. Og einfaldlega vegna þess að enginn stjórnmálaflokkur hefur, ekki einn einasti fyrr eða síðar, reynt, viljað eða getað ráðist á þetta kannske stærsta óréttlætismál þessa þjóðfélags. Það er gaman að því — og sumir hafa ástæðu til að vera stoltir — þegar árlega birtist listi yfir gjöld alþm. Og það er vissulega nokkuð til að vera stoltur af að vera ævinlega með þeim hæstu, nokkru hærri en eigendur grónustu fyrirtækja landsins. Sannleikurinn er sá að þetta er búið að ganga svo lengi að menn eru búnir að sætta sig við það. Og ég er alveg sannfærð um að það eru svo umtalsverðar tekjur þessa þjóðfélags sem eru sviknar undan skatti, sem við hin greiðum svo að sjálfsögðu eins og allt annað, að það er löngu komin ástæða til að taka á þessu máli, svo að landsmenn geti horft nokkurn veginn í augun hver á öðrum án þess að fyrirverða sig, því að það gera menn auðvitað innst inni.

Síðasta ríkisstjórn lofaði að taka upp staðgreiðslu skatta. Hún sveik það að sjálfsögðu. Ég veit ekki hverjar eru hugmyndir núv. ríkisstjórnar, ég satt að segja man ekki hvort þeir hafa lýst einhverju yfir í því efni. En það er auðvitað nauðsynjamál sem þarf að fara að vinna að. Þar með er ég ekki að segja að það eitt komi í veg fyrir skattsvik. En það er þó a.m.k. einhver möguleiki á að þjóðin viti hvaða peninga hún er með í höndunum hverju sinni.

Ég skal svo ekki tefja þessa umr. mikið. En þó vil ég minna á að ég gat þess í ræðu hér í fyrra, að samkvæmt viðtali við skattrannsóknastjóra ríkisins þá kom fram að auðvitað hefur hans embætti og hans starfsmenn fundið stórfelld skattsvik. Og talað var um eitt einstakt tilvik, þar sem um var að ræða 250 þús. Bandaríkjadollara. Hvað gerist svo? Málið er að sjálfsögðu sent til dómsvalda. Og þar stoppar það. Ég veit ekki af hverju. Þetta tekur svo langan tíma, segja menn. En það skyldi nú kannske aldrei vera svo að yfirvöld kæri sig ekkert endilega mjög mikið um að ljúka slíkum málum. Fyrirtækin halda áfram eins og ekkert hafi skeð. Ég held að hv. Alþingi ætti að hugsa þessi mál í nokkurri alvöru og ég vil skora á hæstv. fjmrh. að reynast nú ekki sama liðleskjan í þessum málum og forverar hans og taka á þessu máli, sem hér er verið að ræða um, og öðrum slíkum af alkunnum myndarskap.